Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:24:02 (7727)

2000-05-13 11:24:02# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:24]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skulda hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni engar skýringar á því af hverju ég hef ekki flutt bunka af málum sem eru kannski í skúffu minni. Það er allt annað mál. Þau mál sem hv. þm. nefnir eru miklu flóknari en það sem hér er til meðhöndlunar, miklu flóknari og erfiðari viðureignar. Þetta er einfalt mál sem allir virðast vera sammála um en hins vegar virðast menn kjósa að hengja sig í formsatriði.

Ég lýsti því hér áðan að þessi málsmeðferð er ekkert óeðlileg. Þetta mál fer í gegnum þingið samkvæmt þingsköpum. Það er samþykkt að veita afbrigði og þannig er þessu stillt upp. Að halda því fram að við flutningsmenn séum að fara einhverjar krókaleiðir í þessu máli, það er rangt. Hér er farið að öllum reglum þingsins. Það hefur verið samþykkt að setja þetta mál á dagskrá með afbrigðum. Menn hafa kosið að hengja sig í einhver formsatriði út af þessu máli sem þó er einfalt og allir virðast sammála um. Þegar menn eru búnir að úttala sig um hvernig málið er fram komið þá segjast allir vera sammála. Þá á að samþykkja þetta.