Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:39:16 (7729)

2000-05-13 11:39:16# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:39]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir hans ágætu ræðu og biðja hæstv. forseta að taka mig af mælendaskrá vegna þess að ég tel óþarfa að bæta nokkru við eftir ræðu hv. þm. Það er þó eitt í ræðu hans sem ég vil vekja sérstaka athygli á.

Hv. þm. sagði að hvergi kæmi fram í frv. eða greinargerðinni að flutningsmenn teldu að það ætti að bæta kjör forseta við það að þau yrðu skattlögð. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. og ég tel raunverulega að hann hafi jafnvel tekið heldur varfærnislega til orða vegna þess að það er augljóst mál að meginástæða frv., eins og fram kemur í greinargerðinni, er í raun og veru að gera kjör forseta lakari. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

,,Ástæða þess að frumvarpið er lagt fram nú er að þær breytingar sem felast í frumvarpinu verða ekki gerðar á kjörtímabili forseta vegna ákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir:

,,Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.``

Herra forseti. Það kemur greinilega fram að meginástæðan fyrir því að nú er verið að þessu sé að í stjórnarskránni segir að ekki megi lækka laun forsetans á kjörtímabili hans. Herra forseti. Ef það er ekki markmiðið þá er þess vegna ekkert sem segir að nú þurfi að gera þessa breytingu.