Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:46:25 (7731)

2000-05-13 11:46:25# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:46]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur löngum barist fyrir því að alls konar sporslur og greiðslur komi upp á yfirborðið, bílastyrkir, dagpeningar og því um líkt og að laun séu gagnsæ. Miðvikudaginn 19. júní 1996 skrifar hv. þm. grein í Morgunblaðið rétt fyrir forsetakosningar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þannig var það skoðun minni hlutans að launakerfi ríkisins eigi að vera gagnsætt og eigi það að gilda um æðsta embættismann þjóðarinnar sem aðra.`` --- Svo segir enn fremur: --- ,,Rétti tíminn til að gera þessar breytingar var því nú, í aðdraganda forsetakosninga.`` --- Síðan segir hv. þm. í greininni, með leyfi hæstv. forseta: ,,Í öðru lagi stenst það ekki að þótt laun forseta Íslands yrðu hækkuð vegna afnám skattfrelsis þeirra, sem ég tel ekki sjálfgefið, þá væru engin rök fyrir því að laun annarra embættismanna hækkuðu í kjölfarið.``

Þetta sagði hv. þm. 19. júní 1996, á kvennadaginn.

Herra forseti. Hv. þm. segir enn fremur eftirfarandi um það að taka ekki málið á dagskrá og ræða það ekki:

,,Þetta sýnir vel veikleika löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Af hverju var löggjafarvaldið ófært um að taka afstöðu til málsins í atkvæðagreiðslu?``

Hvers vegna ekki nú eins og þá?