Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 11:50:36 (7734)

2000-05-13 11:50:36# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[11:50]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það að ég treysti ekki Kjaradómi til þess að taka ákvarðanir er nú varla svaravert, en ég geri mér fulla grein fyrir því, sem mér finnst nauðsynlegt að hv. þm. geri sér líka grein fyrir, að Kjaradómur hefur ákveðna forskrift til að vinna eftir samkvæmt lögum frá Alþingi. Við höfum margvitnað í það að hann þarf að gæta samræmis í ákvörðunum sínum, og eins og fram hefur komið í áliti fyrir þremur eða fjórum árum er ekki útilokað að það að hækka laun forsetans geti jafnframt leitt til hækkunar launa annarra embættismanna. Málið bar alls ekki eins að og nú að tveim eða þrem sólarhringum áður en slíta á þingi dúkki hér upp þingmannafrv. Við höfum varla tíma til að skoða það í nefnd, okkur eru ætlaðir einn eða tveir tímar til málsins og ég mun auðvitað gera þá kröfu að nefndin taki sér allan þann tíma sem hún þarf á þessum degi til að fjalla um málið. Það er því mikill eðlismunur á málinu eins og það ber að núna eða eins og það kom fram fyrir fjórum árum.