Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:01:50 (7738)

2000-05-13 12:01:50# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hv. þm. geri sér grein fyrir því hverju við eigum von á ef þessi breyting verður. Ætli menn að taka fullt tillit til þess sem forsetinn hefur haft í kjörum munu laun hans hækka býsna mikið og verða mun hærri en þær tölur sem hafa verið nefndar hér fyrr því að bara hækkunin á laununum sjálfum mundi þýða að hann fengi yfir 1.300 þús. kr. í laun á mánuði. Ef öðrum kjörum er bætt þar ofan á veit ég ekki hvaða fjárhæð kæmi út úr því.

Ég reikna með því að því hærra sem forseti Íslands fengi út úr þessari breytingu því meiri líkur væru á því að forsrh. Íslands fengi líka leiðréttingu launa sinna í framhaldinu og aðrir embættismenn ríkisins. Ég tel því fulla ástæðu til að menn líti vandlega yfir málið og átti sig á því hvað muni gerast við þessa breytingu og gefi sér a.m.k. góðan tíma. Sé það niðurstaðan sem virðist koma fram hjá flestum ræðumönnum í ræðustóli að það eigi að bæta forsetanum fullkomlega það kjaratap sem hann yrði fyrir þá liggur heldur ekkert á með málið í gegnum þingið núna. Það er hægt að gera þessa breytingu hvenær sem er ef það á fullkomlega að bæta forseta Íslands það sem hann tapaði í kjörum.