Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:03:32 (7739)

2000-05-13 12:03:32# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:03]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er því fylgjandi að forseti Íslands greiði skatta eins og aðrir þegnar landsins. Laun forseta Íslands eru nú um stundir 615 þús. kr. á mánuði og rúmlega það. Það eru ágæt launakjör jafnvel þótt af þeim launum væru greiddir skattar.

Ég vil að það komi fram í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram að það er skoðun mín að þótt forseti Íslands greiði tolla og virðisaukaskatt eins og aðrir þegnar landsins finnst mér það ekki rök til þess að hækka hann í launum af þeim sökum. Það finnst mér ekki vera rétt.

Þegar ég heyri að mönnum finnist eðlilegt að meta öll þessi skattfríðindi til launa og eru búnir að reikna þessi laun upp í hálfa aðra milljón, 1.200--1.500 þús. kr. á mánuði, þá fyndist mér það ekki ásættanlegur munur á launum í hinu opinbera launakerfi að þar væri yfir fimmtánfaldur launamunur. Ég mundi ekki mæla með slíku, aldeilis ekki.

Síðan varðandi Kjaradóm. Menn spyrja hvort honum sé treystandi. Nei, Kjaradómi hefur aldrei verið treystandi. Enda hef ég alltaf lagst gegn því að launakjör embættismanna séu ákvörðuð af Kjaradómi eða kjaranefnd. Þetta á að ákvarðast á vettvangi stéttarfélaganna í samningum eða í einhverjum tilvikum í þessum sal af hv. Alþingi Íslendinga sem á að axla ábyrgðina sjálft. Þegar menn koma hver á fætur öðrum í ræðustól og hlaða upp röksemdum fyrir Kjaradóm til að hreyfa við kjörum háembættismanna í landinu, þótt eitthvað verði hróflað við eða breytt launakjörum forseta Íslands, þá lýsi ég furðu minni á slíkri röksemdafærslu.

Kjaradómur hefur jafnan farið sínu fram. Hann hugsar um sína. Ég veit ekki hve oft hann hefur hækkað dómarastéttina í landinu og þykist alltaf vera að færa yfirvinnu inn í launataxtann. Þetta eru bara staðreyndir málsins. Forseti Íslands á að sjálfsögðu að greiða skatta eins og allir þegnar í landinu. Hann á að borga virðisaukaskatt og tolla eins og aðrir þegnar í landinu og það er ekkert sjálfgefið að það eigi að færa launin upp í samræmi við það. Við eigum að búa við réttlátt launakerfi í landinu og það á að gilda um alla þegna landsins.