Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:11:59 (7744)

2000-05-13 12:11:59# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:11]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að menn hefðu verið að hlaða upp rökum fyrir því að Kjaradómur mundi gera eitthvað í málinu og hann sagði líka að Kjaradómur hefði farið sínu fram. Það er nákvæmlega þannig. Menn hafa verið að velta því fyrir sér og haft á því sínar skoðanir hvað Kjaradómur mundi gera í framhaldi af þeirri breytingu sem verið er að tala um að verði að veruleika. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því en hv. þm. sagði að ef forseti Íslands yrði hækkaður í samræmi við þau kjör sem hann hefur núna eftir þessa breytingu yrði gersamlega óásættanlegur kjaramunur meðal opinberra starfsmanna. Mér finnst þetta vera umhugsunarefni og vil spyrja hv. þm. að því. Ég óska eftir því að fá það mjög skýrt fram, er það skoðun hans að þetta frv. eigi að hafa í för með sér verulega kjararýrnum hæstv. forseta Íslands? Mér fyndist t.d. að það væri ágætt að það kæmi mjög skýrt fram hvað menn vilja ganga langt í þessu efni þannig að hv. alþingismenn skilji hver annan, hve langt á að ganga og hverjar hugmyndirnar eru, hve mikið á að lækka laun forseta Íslands, hve mikið á að koma til móts við hann með hækkun á nafnlaunum hans eftir þessa breytingu. Kjaradómur á að ákveða það. Vissulega hljóta menn að svara því á hv. Alþingi hvaða tilgang þeir hafa með þessu máli og hvaða áhrif þeir telja að verði af málinu. Ef það er niðurstaða þeirra að Kjaradómur muni dæma með þeim hætti í málinu að forseti Íslands muni verða fyrir verulegum kjaraskerðingum þá held ég að það sé líka gott að það komi hér fram.