Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:28:57 (7751)

2000-05-13 12:28:57# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:28]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ruglar saman tilgangi og afleiðingum. Tilgangur frv. felst í nafninu. Afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands. Það er tilgangurinn. Afleiðingarnar liggja í höndum Kjaradóms og hv. þingmenn hafa ekkert yfir honum að segja. Menn hafa tjáð sig um hvernig hann hugsanlega kunni að dæma. Á því geta menn haft alls konar skoðanir. Svo dæmir hann. Við höfum ekkert yfir því að segja.

En tilgangur frv., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, er að forsetinn greiði skatta og skyldur eins og aðrir borgarar og spurning mín til hv. þm. er: Vill hv. þm. að forsetinn greiði tekjuskatt, fjármagnstekjuskatt, virðisaukaskatt, tolla og vörugjald eins og annað fólk í landinu? Og vill hv. þm. að laun í landinu séu yfirleitt sýnileg eins og meðflokksmaður hans hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur margoft barist fyrir?