Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 12:34:08 (7755)

2000-05-13 12:34:08# 125. lþ. 118.7 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[12:34]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það hefur greinilega komið fram í umræðunum að málið er ekki svo einfalt eins og ætla mætti við fyrstu sýn.

Fyrst vil ég nefna það sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni bara til þess að ganga úr skugga um hvort ég hafi skilið hann rétt, ég vona að ég hafi misskilið hann. En hjá honum kom fram að ef laun forseta Íslands yrðu hækkuð þannig að hann stæði jafnréttur eftir skattlagningu sem áður, þá yrði launamunurinn hjá hinu opinbera tuttugufaldur og það væri allt of mikið og miklu meira en hv. þm. gæti sætt sig við.

Ég skildi hv. þm. þannig að hann liti svo á að forseti Íslands væri hluti af opinberum starfsmönnum. Ég lít svo á að forsetaembættið sé algerlega utan við það og eigi ekki að vera til samanburðar við starfskjör opinberra starfsmanna.

Í öðru lagi kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að Alþingi hefði ekkert yfir Kjaradómi að segja, það er mikill misskilningur. Alþingi hefur allt yfir Kjaradómi að segja sem Alþingi kýs. Alþingi setur lög og ef það er skilningur manna og ætlan með þessu frv. að rýra ekki kjör forseta Íslands og vafi leikur á því að Kjaradómur muni bregðast við með þeim hætti að því markmiði verði náð, þá getur Alþingi sett lög sem taka af allan vafa um og ná þessu markmiði sínu fram. Það er mjög einfalt ef menn eru sammála um að það eigi að vera tilgangurinn.

Ég vil líka segja að ég hef engan rökstuðning fengið um þær tölur sem ég hef heyrt um mat á skattfrelsi forseta Íslands. Ég hef heyrt hv. þm. Pétur H. Blöndal nefna að það jafngilti því að laun forseta Íslands þyrftu að vera 1.380 þús. kr. ef ég hef tekið rétt eftir. Þingmaðurinn leiðréttir mig ef ég er að fara með rangt mál í þeim efnum en það er kannski ekki aðalatriði málsins heldur hitt að þegar málið hefur verið til umfjöllunar á fyrri þingum hefur verið leitað umsagnar um það en engar upplýsingar hafa komið fram sem gera mönnum kleift að leggja mat á hversu verðmiklar þessar undanþágur eru.

Ég hef leitað að þeim gögnum og hef ekki séð tangur né tetur því til stuðnings hvað mætti ætla að þessi hlunnindi séu verðmikil. Ég bið því hv. þm. Pétur H. Blöndal að upplýsa á hvaða upplýsingum og gögnum hann byggir sitt mat. Ég held satt að segja að tölur um 1,5--2 millj. á mánuði séu algerlega fráleitar að svo miklu leyti sem ég hef getað áttað mig á því og reynt að meta hlutina sem er auðvitað út frá mjög ófullkomnum upplýsingum, en ég tel algerlega fráleitt að þetta séu svo háar tölur.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að í umsögn um þetta mál frá ríkisskattstjóra fyrir fjórum árum kom fram að það væri kannski ekki rétt að leggja allar undanþágurnar undir sama hattinn. Mér finnst eftir að hafa lesið umsögn ríkisskattstjóra og heyrt hans sjónarmið að nokkuð sé til í því að ekki sé endilega rétt að leggja sömu mælistiku á alla þessa hluti. Ég vil leyfa mér að lesa hluta úr þessari umsögn, með leyfi forseta:

,,Án þess að ríkisskattstjóri leggi það sérstaklega til að reglur um skattfrelsi forseta verði þrengdar frá núverandi fyrirkomulagi þykir mega benda á örfáa þætti sem teljast mega athugunarverðir út frá skattlagningarsjónarmiðum sérstaklega og þá að því leyti að athuga beri þær í ljósi núverandi þjóðfélagsaðstæðna. Um er að ræða reglur um:

1. skattfrelsi maka forseta,

2. skattfrelsi annarra tekna forsetans en beinna forsetalauna úr ríkissjóði,

3. undanþágu forseta frá greiðslu tolla og aðflutningsgjalda ...,

4. undanþágu forseta frá greiðslu virðisaukaskatts af almennum vörum og þjónustu vegna eigin persónulegra þarfa.``

Mér finnst ekki að sömu sjónarmið gildi endilega um öll þessi atriði. Ég segi fyrir mitt leyti að mér er það ekkert sérstakt réttlætismál eða kappsmál að beinar launagreiðslur séu skattlagðar en það skiptir ekki máli ef á að hækka þær á móti skattlagningu. Það kemur út á eitt. Ég hef hins vegar svolitlar efasemdir um skattfrelsi á virðisaukaskatti þannig að ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki hægt að líta sömu augum á öll þessi atriði.