Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 15:55:17 (7769)

2000-05-13 15:55:17# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndarálitum samgn. um vegáætlun og jarðgangaáætlun, vegáætlun fyrir árin 2000--2004 og jarðgangaáætlun fyrir sama tímabil.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti og Helga Hallgrímsson, Jón Rögnvaldsson og Hrein Haraldsson frá Vegagerðinni.

Starfshættir við afgreiðslu tillögunnar hafa verið hefðbundnir. Þingmenn kjördæma hafa unnið að skiptingu framkvæmdafjár til almennra verkefna á stofnbrautum, svo og til tengivega, auk þess sem þeir hafa yfirfarið tillögur um stórverkefni sem snerta viðkomandi kjördæmi.

Sú endurskoðun á vegáætlun sem nú fer fram er hin fyrsta frá því að samþykkt var langtímaáætlun í vegagerð á Alþingi vorið 1998. Sú áætlun tók til áranna 1999--2010 að báðum árum meðtöldum og var henni skipt í þrjú tímabil sem hvert var til fjögurra ára. Hið fyrsta tók yfir árin 1999--2002 og hið næsta árin 2003--2006. Til að vegáætlun fylgdi þessari skiptingu tók gildandi vegáætlun til fimm ára, þ.e. 1998--2002. Tillagan sem hér liggur fyrir nær einnig til fimm ára, 2000--2004. Við endurskoðunina nú bætast árin 2003 og 2004, þ.e. fyrri helmingur annars tímabils langtíma\-áætlunarinnar. Við næstu endurskoðun vegáætlunar, veturinn 2001--2002, verður langtímaáætlunin einnig endurskoðuð.

Tölur í tillögunni eru allar á sama verðlagi, þ.e. áætluðu verðlagi ársins í ár. Við meðferð í samgöngunefnd eru tölur fyrir árin 2001--2004 hækkaðar til áætlaðs verðlags 2001, en tölur ársins í ár eru óbreyttar. Hækkun til 2001 er áætluð um 4,5% og er það í samræmi við forsendur við vinnu að fjárlögum næsta árs.

Fyrir þessu þingi liggur till. til þál. um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000--2004. Nefndin hefur fjallað um hana og leggur til að hún verði samþykkt. Jafnframt leggur nefndin til að hún verði felld inn í vegáætlunina. Þá leggur nefndin til að inn í vegáætlun verði einnig tekin vegagerð sem nauðsynleg er á Austurlandi í tengslum við fyrirhugaða álverksmiðju á Reyðarfirði og virkjanir tengdar henni.

Á tekjuhlið áætlunarinnar eru gerðar þrjár breytingar. Tekinn er inn nýr liður, Sérstök fjáröflun, til að standa undir kostnaði við þá útgjaldaliði sem taldir eru hér á undan. Þessi fjáröflun er 324 millj. kr. í ár og 750 millj. kr. 2001 en hækkar seinni árin. Þessa fjár verður m.a. aflað með sölu ríkiseigna, en einnig er gert ráð fyrir beinum framlögum og lánsfé frá aðilum að orku- og iðjuverum á Austurlandi. Önnur breyting á tekjuhliðinni er sú að liðurinn Geymt í ríkissjóði, 126 millj. kr. árið 2000, er felldur niður. Loks eru tekjur af leyfisgjöldum flutninga taldar sem sérstakur liður og hækka niðurstöðutölur tekna og gjalda um 3 milljarða kr. Gjaldamegin er þessi upphæð færð undir liðinn Umferðareftirlit og þjónusta.

Á gjaldahlið áætlunarinnar eru breytingarnar að mestu leyti tengdar þeim nýju verkefnum sem áður er getið. Þannig bætast við þrír nýir liðir í nýjum þjóðvegum, þ.e. liðirnir Jarðgangaáætlun, Orku- og iðjuvegir á Austurlandi og Sérstök verkefni. Fjárveitingar eru til rannsókna og annars undirbúnings jarðgangagerðar 2000 og 2001 og síðan til framkvæmda 2002 og áfram. Byrjað verður á orku- og iðjuvegum í ár og þeim lokið 2003. Þarna er um að ræða fjárveitingar upp á u.þ.b. 1 milljarð. Engin fjárveiting er til sérstakra verkefna í ár en fjárveiting árið 2001 verður 200 millj. kr. og hækkar síðan seinni árin. Sundabraut er meðal sérstakra verkefna og til hennar eru veittar 50 millj. kr. hvort ár, 2003 og 2004, auk þess sem hún fær fjárveitingu undir liðnum Höfuðborgarsvæðið, 2000-- 2002. Þar er um þessar mundir unnið að mati á umhverfisáhrifum og öðrum undirbúningi og er fjármagn fyrir hendi til þeirra verka. Miðað er við að fjár til framkvæmda verði aflað við næstu endurskoðun vegáætlunar eftir tvö ár og að þá komi sérstök fjáröflun til verksins. Um það verður tekin ákvörðun á því stigi málsins.

[16:00]

Sundurliðun útgjalda er með hefðbundnum hætti. Skipting fjár til almennra verkefna á stofnvegum er óbreytt frá því sem var, þ.e. öll kjördæmi utan höfuðborgarsvæðisins fá þar jafnan hlut. Þó er vissulega mikill munur á hlutfalli tengivega eftir kjördæmum og má nefna að tvö kjördæmi hafa langhæst hlutfall þeirra, Suðurland 25% allra tengivega og Vesturland um 18% tengivega landsins. Tengivegafé er skipt eftir sömu reglu og áður en reglan tekur tillit til umferðar, ástands veganna og kostnaðar við byggingu þeirra. Verður því að endurreikna skiptinguna á nokkurra ára fresti og hefur það verið gert nú. Breytingar eru ekki stórvægilegar og er miðað við að hin nýju hlutföll í almennri vegáætlun taki gildi 2003.

Við meðferð tillögunnar kom í ljós að aðkallandi er að ráðast í ýmis verkefni sem ekki rúmast innan hefðbundins ramma vegáætlunar. Þau stærstu eru á höfuðborgarsvæðinu en einnig er um að ræða verkefni á landsbyggðinni. Leggur nefndin til breytingar sem fela í sér að ráðist verður í umrædd verkefni. Leggur nefndin einnig til að styrkur til sérleyfishafa verði hækkaður vegna slæmrar stöðu þeirra. Þá leggur nefndin áherslu á að almenningssamgöngur á landsbyggðinni verði teknar til sérstakrar skoðunar á næstunni.

Nefndin fjallaði sérstaklega um skiptingu fjár til stórverkefna. Sú skipting tekur í ríkum mæli mið af langtímaáætlun. Vegna viðbótarfjár árin 1999--2002 sem ákveðið var af hálfu ríkisstjórnar að veita til vegagerðar á síðasta ári og fjárveitinga til sérstakra verkefna samkvæmt brtt. nú ganga stórverkefnin raunar mun hraðar en langtímaáætlun gerði ráð fyrir.

Meðal stórverkefna er tvöföldun Reykjanesbrautar milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. Miðað við fjárveitingar getur útboð á fyrsta áfanga verksins farið fram árið 2002 og stefnt er að því að stórum hluta þess, þ.e. tvöföldun milli Straumsvíkur og Keflavíkur, verði lokið 2006.

Níu milljarða kr. viðbótarfé er ætlað í mörg brýn verkefni í uppbyggingu vegakerfis landsins á árunum 2000--2004. Þar er um að ræða uppbyggingu Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð, breikkun vegarins milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, byggingu Suðurstrandarvegar milli Þorlákshafnar og Grindavíkur, byggingu orku- og iðjuvega á Austurlandi, byggingu gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu, lagningu vegar yfir Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi, vegabætur við Ísafjarðardjúp og í Barðastrandarsýslu og vegabætur um Uxahryggi og að Dettifossi. Þá er lagt til að fé verði veitt í undirbúning Sundabrautar í Reykjavík og við það miðað, eins og ég gat fyrr, að viðbótarfé komi til við endurskoðun vegáætlunar að tveimur árum liðnum. Ljóst er að þar er um að ræða fjármagn sem kannski nemur um það bil 2 milljörðum á tveimur árum til að unnt sé að fara í þær framkvæmdir. Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir en gæti orðið á bilinu 5--10 milljarðar. Jafnframt er lagt til að veita viðbótarfé sem nemur 100 millj. kr. til almennra framkvæmda í hverju landsbyggðarkjördæmi fyrir sig. Þar er hlutfallið jafnt þó svo verulegur munur sé á hlutfalli tengivega eins og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að fresta framkvæmdum fyrir 585 millj. kr. árið 2000 til ársins 2001. Tillögur nefndarinnar að því hvaða verkefnum verði frestað eru birtar í brtt. og eru fjárveitingar til verkefna sem fresta á að hluta til eða öllu leyti merktar með stjörnu í sundurliðun fjárveitinga. Sérstök samantekt um frestanirnar er í lok liðar 2.5.1 í brtt. nefndarinnar og kemur þar fram sú upphæð sem er frestað hverju sinni. Eru nýir verkefnaflokkar sundurliðaðir með hliðstæðum hætti og hinir hefðbundnu.

Nokkrar minni háttar breytingar eru lagðar til á flokkun vega. Þær eru í samræmi við vegalög og leiðir af breyttri búsetu eða annarri aðstöðu.

Til að auðvelda samanburð vegáætlunar við fjárlög og samræma hana við aðrar áætlanir innan samgrn. er í brtt. sýnd sérstök uppsetning á tekjum og gjöldum.

Nefndin leggur til að tillagan um vegáætlun fyrir árin 2000--2004 verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Svo vikið sé sérstaklega að jarðgangaáætluninni er það niðurstaða samgöngunefndar að jarðgangagerð sé áhrifarík leið til samgöngubóta þar sem þeim verður ekki komið við með öðrum hætti þannig að viðunandi teljist. Með jarðgöngum má rjúfa vetrareinangrun, stækka atvinnu- og þjónustusvæði og tengja saman byggðarlög með þeim hætti að skilyrði skapist fyrir eflingu byggðar og hagstæða íbúaþróun.

Fyrstu verkefnin samkvæmt tillögunni eru jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar annars vegar og milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar hins vegar. Þessum verkefnum er ekki raðað. Nefndin er sammála þessu verkefnavali og að mati hennar er eðlilegt að samgönguráðherra taki ákvörðun um tilhögun útboðs verkefnanna þegar rannsóknir eru komnar á það góðan rekspöl að allir helstu þættir framkvæmdanna liggi fyrir. Í því felst meðal annars að ákveða hvort bæði verkefnin verði boðin út í einu eða annað þeirra fyrst. Er reiknað með að rannsóknin taki tvö ár en þó líklega skemmri tíma á Austurlandi. Á árunum 2002--2004 er gert ráð fyrir að árlega verði 1.400 millj. kr. lagðar í þessi verkefni.

Samhliða framkvæmdum við þessi tvö verkefni verða hafnar rannsóknir til undirbúnings jarðgöngum á Vestfjörðum og Austfjörðum. Sérstaklega eru nefnd þrjú verkefni sem rannsaka á, þar af verða tvö á Austfjörðum og eitt á Vestfjörðum.

Nefndin leggur áherslu á að fjár til að standa straum af kostnaði við jarðgangagerð samkvæmt tillögunni verði aflað sérstaklega með sölu ríkiseigna.

Vegáætlun er nú til endurskoðunar og leggur nefndin til að jarðgangaáætlun verði felld inn í hana eins og gert hefur verið. Verður jarðgangaáætlun því hluti vegáætlunar og kemur þar með til endurskoðunar á tveggja ára fresti.