Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 16:08:04 (7770)

2000-05-13 16:08:04# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, KLM
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Þær þáltill. sem hér eru til umræðu eru lagðar fram um það leyti þingi átti að ljúka. Ef ekki hefðu skotið upp kollinum ný þingmál sem taka mikinn tíma hefði verið full ástæða til að fjalla töluvert ítarlega um þá þáltill. sem hér er um að ræða. Verkefnið er náttúrlega ansi mikið og stórt þar sem ætlunin er að ráðstafa til þess rúmlega 60 milljörðum kr. á þeim tíma sem vegáætlun á að ná yfir. Þetta eru háar upphæðir og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að í þennan málaflokk renni miklir fjármunir. En þó ber að ítreka að því miður er ekki verið að taka þetta allt saman til framkvæmda. Drjúgur hluti þessa er hefðbundinn og venjubundinn rekstur, til að ryðja snjó af vegum, til viðhalds á vegum og alls sem því fylgir.

Á vegum Vegagerðarinnar hafa þingmenn allra kjördæma verið kallaðir til að taka þátt í að vinna þetta verk ásamt henni. Mér finnst full ástæða til að taka það fram og þakka Vegagerðinni sérstaklega fyrir fagleg vinnubrögð. Vinnubrögð Vegagerðarinnar koma þeim sem hér stendur svo sem ekkert sérstaklega á óvart, að kynnast þeim nú í fyrsta skipti sem alþingismaður í samgn. Þeim hefur maður kynnst áður. Þarna er vel að verki staðið, vel haldið um hlutina enda full ástæða til þar sem um mikla peninga er að ræða.

Þessi áætlun gerir ráð fyrir að á árinu 2000 verði varið tæpum 10 milljörðum kr. sem eykst svo á næsta ári í 12 milljarða og þá í 13 milljarða síðustu þrjú árin. Þetta eru ansi miklir peningar.

Tekjuhliðin hvað varðar bensíngjald og þungaskatt er hefðbundin eins og þarna kemur fram, 9,6 milljarðar árið 2000 og 10,2--10,6 milljarðar áætlaðir árin á eftir. Frá því að þessi þáltill. var lögð fram hefur hún náttúrlega tekið miklum breytingum eins og komið hefur fram og við höfum séð. Fram kemur í nál. að tekna til þessara miklu viðbótarverka, sem koma þó sérstaklega inn á síðari árum þessarar áætlunar eigi að afla með sölu ríkiseigna og/eða lánsfé ásamt endurgreiðslu, t.d. frá Landsvirkjun varðandi orkuvegina fyrir austan.

Út af fyrir sig má taka undir það og segja að skynsamlegt sé að þeir peningar sem koma inn fyrir sölu ríkiseigna fari í samgöngubætur jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem á landsbyggðinni. Það er margfalt betra að sjá þá fara í það en í hefðbundinn rekstur ríkissjóðs. Ég er sammála því að þeim er betur varið í samgöngubætur eins og hér er gert ráð fyrir.

Þessi áætlun er í töluvert miklu í samræmi við þær miklu áætlanir sem gerðar voru og samþykktar voru 1998, annars vegar langtímaáætlun og hins vegar vegáætlun fyrir árin 1998--2002.

Eins og ég sagði áðan hefur margt bæst við milli umræðna, mikil og góð verk jafnt á höfuðborgarsvæði sem landsbyggð þó þess sjái ekki mikil merki strax. Nú árið 2000 eru þetta um 400 millj. sem bætast til verksins, þ.e. 100 millj. til undirbúnings jarðganga og rannsókna fyrir norðan og austan og 300 millj. í Fljótsdal. Árið 2001 munu í kringum 700 millj. bætast við auk áframhaldandi rannsókna við jarðgöng og hönnun og þess háttar, frekari framkvæmda við Fljótsdal og framkvæmda í Reyðarfirði, vega sem kallaðir eru orku- og iðjuvegir og vafalaust er afar brýnt að setja í gang ef --- sá sem hér stendur vonar að svo verði --- hafist verður handa við að byggja stóriðju á Reyðarfirði eins og áætlanir eru um. Þær hafa hins vegar tafist töluvert af ástæðum sem ég ætla ekki að ræða hér.

Ég fagna því að þetta er sett inn. Ég held að það sé ákaflega brýnt að menn noti tímann til að búa í haginn. Ef af þessum framkvæmdum verður þarf sannarlega að styrkja þá vegi sem þarna eru. Oft er það svo í litlum byggðarlögum þar sem stórframkvæmdir fara í gang við jarðvegsvinnu og annað, vegna framkvæmda af þessu tagi, við snjóflóðagarða eða annað, að mikil umferð, þungaumferð, gerir það að verkum að vegir viðkomandi byggðarlags tætast upp og þola hreinlega ekki álagið.

Á árinu 2001 er í áætluninni einnig gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð þannig þá munu, eins og ég sagði áðan, bætast við um 700 millj.

[16:15]

Þetta vildi ég aðeins draga fram inn í umræðuna vegna þess að auðvitað koma upp vangaveltur í þjóðfélaginu, á Alþingi og annars staðar um að þetta viðbótarfé sé mikill þensluvaldur í þjóðfélaginu. Þess vegna vildi ég draga fram þær upphæðir sem eru settar fyrir þessi ár og jafnframt ítreka að á síðustu þremur árunum koma aðalupphæðirnar sem eru að detta inn í áætlun núna, stærstu tölurnar, eins og árið 2002 þá fer þetta upp í rúma 2 milljarða og svo koll af kolli. Sérstaklega ber að fagna því sem áætlað er árið 2002 að þar er farið í jaðarbyggir og ferðamálavegi, ef svo má að orði komast, og þar fá hin sex gömlu kjördæmi, hvert og eitt, ákveðnar upphæðir til þess að leggja í safn- og tengivegi og er sannarlega ekki vanþörf á því að fara í það. Sá sem hér stendur hefur spurt hæstv. samgrh. út í þetta fyrr í vetur og fengið svar við vegna þess að þetta er smáinnspýting inn í þann vanda sem er víða á landsbyggðinni þar sem menn komast jafnvel ekki ferða sinna á þessum tíma ársins vegna þess að vegir eru lokaðir vegna aurbleytu.

Á höfuðborgarsvæðinu eru settir inn fjármunir til að vinna ýmsar framkvæmdir sem verða sannarlega til mikilla bóta og er mikil þörf á eins og margoft hefur komið fram, mikið umferðaröngþveiti getur myndast, og er peningum varið til gatnamótaframkvæmda og annarra framkvæmda. Af viðbótarfénu kemur árið 2003 og 2004 vegna Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar, gatnamót eins og við Víkurveg og Vesturlandsveg og við Miklubaut og Kringlumýrarbraut sem er sennilega eitt brýnasta verkefnið. Það er alveg með ólíkindum að þessi mikla umferðaræð, Miklabraut, skuli vera svo mikið ljósastýrð og hún er í raun og veru og það er ekki eingöngu að það séu ljósastýringar á gatnamótum heldur er þarna líka töluvert mikið af gangbrautarljósum. Það er í raun og veru alveg með ólíkindum að á svona miklum umferðaræðum, skuli umferðin vera tafin með þessari ljósastýringu og sannarlega ekki vanþörf á að grípa til aðgerða á þessu svæði.

Þarna kemur líka inn undirbúningur vegna Sundabrautar. Það mál er eins og kemur fram í undirbúningsvinnu og hönnun. Hér kemur fram að árið 2002 mun sú undirbúningsvinna vonandi öll verða komin það langt að hægt verður að ákveða leiðina og ganga í fyrsta áfanga sem er yfir Kleppsvíkina og er áætlað að kosti 5 milljarða kr. og þar er líka getið um að fjár verði aflað við næstu endurskoðun eftir tvö ár. Þessu ber að fagna og ekkert nema (Gripið fram í.) gott eitt um það að segja ásamt þeim skilaboðum sem ég fæ en ég mundi líka gjarnan vilja fá skilaboð um það hvernig Íslendingaliðinu Stoke hafi gengið ef leikurinn er búinn. (Gripið fram í: 3:1.)

Þá komum við að Reykjanesbraut og þeim framkvæmdum sem þar eru ætlaðar. Það er hárrétt sem kemur fram í nál. að 20 þúsund bíla umferð er náttúrlega allt of mikil umferð fyrir tveggja akreina veg. Engin spurning er að þarna er mikil þörf á breikkunum og tvöföldun sem þarna eins og reyndar þingmenn höfuðborgarsvæðisins alls jafnt sem Stór-Hafnarfjarðarsvæðisins hafa lagt mikla áherslu á. Auðvitað ber að fagna þessu atriði.

Svo við færum okkur aftur aðeins út á land, þá er árin 2002--2004, áætlað að verja 200 millj. kr. til sérstakra átaksverkefna á Vestfjörðum, í því góða kjördæmi. Engan skyldi undra að það þurfi að setja töluverða peninga og spýta svolítið í hvað framkvæmdir þar varðar. Það þekkja þeir sem þurfa oft að keyra vestur og líka þeir sem fara e.t.v. stundum á sumrin. Þetta er það kjördæmi sem er hvað lengst á eftir með venjubundna vegi sem allir tala um að þurfi að vera grundvallaratriði. En auðvitað blandast inn í það að vegagerð þarna er mjög erfið og dýr.

Ég hef áður rætt um þá framkvæmd sem lögð er til á Austurlandi og ég vil aðeins ítreka það og segja að litið er á þetta og þarf að líta á þetta sem sjálfstæðar framkvæmdir, ekkert endilega tengdar orku- og iðjuverum þó svo það nýtist þar. Þessar upphæðir byrja ekki að koma inn fyrr en á næsta ári og eru náttúrlega hluti sem á eftir að koma, hvað Landsvirkjun mun greiða mikið af þeim framkvæmdum sem þarna á að fara í.

Í sambandi við þá þáltill., sem liggur fyrir líka og sem hæstv. samgrh. mælti fyrir fyrr í vetur, þ.e. þáltill. um jarðgangagerð, og tillaga var um að fella inn í langtímaáætlunina, vegáætlunina, þá er það gert hérna. Ég segi líka alveg hiklaust að ég fagna því mjög að þetta er sett inn og er sammála þeim atriðum sem koma í nál. samgn. og ég tek skýrt fram að ég hafði ekki fyrirvara á því nál. Ég taldi mig ekki þurfa þess, ég þekkti þetta mál það vel. Fram kemur í nál. að þetta sé stór áfangi og miðað við það að stórt alþjóðlegt útboð geti átt sér stað þegar undirbúningi og hönnun hefur verið lokið. Ég er alveg viss um að það verður mjög hagkvæmt fyrir verkkaupa að bjóða þetta út með þessum hætti og fá e.t.v. tilboð í þetta sem gætu verið kannski 8--15% lægri en annars yrðu ef farið væri í þetta hvort í sínu lagi. Ég vil sem sagt fagna því sérstaklega að þetta er tekið inn og tel þetta bæði nútímalega vegagerð á snjóþungum og erfiðum svæðum og þetta er að mínu mati líka töluvert mikil byggðaáætlun. Þarna er gert ráð fyrir því að tengja saman svæði sem munu styrkja ákveðin byggðasvæði eins og Eyjafjarðarsvæðið allt og mynda þar stóran og sterkan kjarna. Ég spái því að fljótlega eftir að framkvæmdir hefjast eða e.t.v. kannski fyrr að sveitarfélög t.d. við Eyjafjörð muni fara að ræða sameiningu. Mér kæmi ekki á óvart að innan 5--7 ára yrði Eyjafjörður frá Akureyri til Siglufjarðar orðinn eitt sveitarfélag, eitt atvinnusvæði, eitt þjónustusvæði og að sú framkvæmd sem hér er lögð til muni hafa það í för með sér að þetta eigi sér stað. Þá er það auðvitað mjög til bóta eins og þáltill. getur um og kveðið er á um þarna að það sé þannig.

Herra forseti. Ég gat þess áðan að á lokaspretti þingsins sé ekki ástæða til að lengja umræðuna mjög mikið. Ég sagði þegar vegáætlun var lögð fram að of litlu fé væri varið til vegamála á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar enn þá. Við erum enn með vegi á höfuðborgarsvæðinu sem anna engan veginn umferð og úti á landi sem eru engan veginn boðlegir. Hér hefur verið aukið við þó að það sé mest á síðari hluta, á tveimur síðustu árunum sem verður endurskoðað eftir tvö ár. Sannarlega er þörf á að gera þetta og ég ítreka það sem ég sagði áðan, og ég vona að hér hafi tekist að skapa sæmilega sátt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar hvað þessar framkvæmdir varðar og jafnframt milli kjördæma þó svo vafalaust vilji alltaf einhverjir fá meira og vilji hafa hlutina öðruvísi. Ég ítreka og segi aðeins í lokin, herra forseti, að ég hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma í samgn. til að fara í gegnum þetta en það snýst líka um það að hér eru hlutir lagðir fram með þeim hætti sem ég sagði í upphafi máls míns frá hendi Vegagerðarinnar, sem vinnur þetta á mjög skynsamlegan og faglegan hátt, þetta kemur mjög faglega sett upp til okkar þingmanna svo að málið liggur miklu ljósar fyrir en áður var meðan menn höfðu ekki sömu tækni og þekkingu og tæki til að setja þetta fram eins og nú hefur verið gert.