Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 16:26:24 (7771)

2000-05-13 16:26:24# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[16:26]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér eru til umræðu þáltill. um jarðganga\-áætlun og vegáætlun fyrir árin 2000--2004. Frá því að þessar þáltill. voru fyrst lagðar fram í vetur hafa verið gerðar verulegar breytingar á þeim. Það er tillaga um verulega aukið fé, einkum á síðari hluta þessa tímabils og ber að fagna því.

Ég vil fyrst, herra forseti, fara nokkrum orðum um jarðgangaáætlunina fyrir árin 2000--2004 en með henni er einmitt lagt til að ráðist sé þegar í undirbúning og hönnun að jarðgöngum milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og miðað að því að þær framkvæmdir geti farið af stað eins fljótt og kostur er. Ég fagna því. Ég vek athygli á því að einmitt þegar í haust við upphaf þings lögðum við þingmenn í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði áherslu á að tekið væri á jarðgangamálunum, áætluninni, og varið til hennar fjármagni til þess að koma henni af stað því að þær framkvæmdir hafa legið meira og minna niðri að undanskildum Hvalfjarðargöngunum sem voru sérframkvæmd. Þessu ber því svo sannarlega að fagna og þeirri áætlun sem liggur fyrir um framtíðarjarðgangaáætlanir sem gefst síðan að sjálfsögðu tækifæri til að endurskoða eftir nýjum áherslum á tímabilinu.

Ég vil líka vekja athygli á því eða leggja áherslu á að varðandi jarðgöng á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sé þess gætt að skoða jafnframt hagkvæmni og möguleika á því að þau jarðgöng gætu opnast inn í Skagafjörð, inn í Fljót, þetta sé allt saman skoðað samtímis þannig að fyllstu hagkvæmni og möguleika sé gætt og þeir nýttir í þessu sambandi.

[16:30]

Varðandi vegáætlunina sjálfa vil ég fara nokkrum orðum um þær viðbætur sem þar eru lagðar til, þ.e. viðbætur við orku- og iðjuvegi á Austurlandi og síðan sérstök verkefni.

Herra forseti. Fyrst vil ég gagnrýna þau vinnubrögð að koma með áætlun um ákveðin sérgreind verkefni inn í vegáætlunina eins og hér var gert, þ.e. þarna er um hluta af almennri vegáætlun að ræða og ákveðin verkefni síðan tekin út úr. Það hefði verið eðlilegra ef þetta hefði verið rætt eftir þeim hefðbundnu leiðum sem vegáætlun og breytingar á henni eru ræddar og meðhöndlaðar en ekki með einhliða framlagningu eins og hér var gert. Varðandi orku- og iðjuvegi á Austurlandi hefði verið eðlilegra ef Austfirðingar hefðu fjallað sjálfir um þá skiptingu og áherslur sem þar eru lagðar, en ekki með einhliða framlagningu eins og hér er. En örugglega koma þessar vegaframkvæmdir íbúum til góða þó svo vegirnir þurfi ekki endilega að tengjast uppbyggingu á ímynduðum stóriðjuverum.

Hvað önnur sérstök verkefni varðar þá koma ný verkefni inn í áætlunina, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. Þar er um breytta forgangsröð að ræða í sumum tilfellum frá því sem gildandi langtímaáætlun í vegagerð kveður á um. Ég hef áður sagt skoðun mína á slíkum vinnubrögðum, þ.e. að þetta eigi að lúta almennum og hefðbundnum vinnubrögðum við gerð og endurskoðun vegáætlunar. En að sjálfsögðu ber að fagna því ef ríkissjóður telur sér fært að leggja aukið fjármagn til vegagerðar. Ég vil þó, herra forseti, benda á að í forgangsröðuninni fögnum við auðvitað flýtingu á framkvæmdum t.d. við Kolgrafarfjörð, stórverkefnum á Vestfjörðum og verkefnum í jaðarbyggðum. Auðvitað fögnum við því ef hægt er að taka þá áhættu að leggja í vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og út frá því en ég fagna samt þeim áherslum sem þar eru lagðar upp, þ.e. sem lúta fyrst og fremst að öryggismálum. Þau eru látin njóta viss forgangs í mati á áherslunum.

Herra forseti. En fleiri verkefni hefði líka verið ástæða til að skoða þegar farið er út í að breyta áætlunum. Ég leyfi mér að nefna t.d. veginn í Norðurárdal í Skagafirði upp á Öxnadalsheiði. Þar er vegarkafli sem er verulegur farartálmi með þröngum og slæmum brúm og erfiðum vegi. Það hefði verið ástæða til þess að flýta þeim framkvæmdum svo eitthvað sé nefnt, einnig við veginn um Norðausturland, um Bröttubrekku o.fl. Það finnast næg stór verkefni sem hefði verið virkileg þörf á að flýta eins og nokkur kostur er til þess að styrkja samgöngur í landinu.

Varðandi fjármögnun sem lögð er til í nýjan flokk sem heitir jaðarbyggir og ferðamannaleiðir vil ég fagna því að gert er sérstakt átak á þessum samgönguæðum, bæði um Uxahryggjarveg og veg að Dettifossi, þó að ég segi, herra forseti, að eðlilegt hefði verið að ákvörðun þessara framkvæmda hefði lotið venjulegum leiðum við endurskoðun og ákvörðun í vegáætlun. Jafnframt vil ég fagna því að á árunum 2002--2004 er lagt til að veittar séu um 35 millj. kr. til viðbótar til tengivega í hinum gömlu kjördæmum á ári. Þó verð ég að segja, herra forseti, að ég hefði gjarnan viljað sjá þessar upphæðir hærri. Það hefði verið í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Það hefði verið í samræmi við yfirlýsingar frambjóðenda og núverandi þingmanna fyrir síðustu kosningar þegar þeir fóru um sveitir og um héruð, ef þessi upphæð væri hærri og ég sakna þess. Ég tel líka að hægt hefði verið að hefja þessar framkvæmdir ekki seinna en árið 2001 því þarna er um afar brýn verkefni að ræða, þ.e. samgöngubæturnar til sveita. Það þarf oft ekki miklar upphæðir til þess að bæta úr. En einmitt á þessum svæðum er verið að leggja niður og sameina skóla og þá lengist akstur með skólabörn. Það er verið að treysta byggð með því að fólk sækir vinnu lengra að og ferðaþjónusta til sveita byggir á góðum vegum þannig að þarna spilar mjög margt saman og hefði verið nauðsynlegt að taka meira tillit til þess. Auk þess eru litlar líkur á að þessi smáu verkefni út um sveitirnar mundu virka þensluhvetjandi. Þau mundu frekar styrkja atvinnu á svæðunum sem virkileg þörf er á.

Herra forseti. Þó að við gleðjumst yfir auknum tillögum um fjármagn til vegagerðar vil ég þó mæla þau varnaðarorð að þenslan sem er einkum á suðvesturhorni landsins er á hættulegu skriði, bæði hvað varðar verðbólgu og líka birtist það í flutningum fólks af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Það hefði því verið ástæða til að með vegáætlun og jarðgangaáætlun væri enn frekar tekið á málinu og fyrr en áætlunin hér gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Að síðustu vil ég líka gera athugasemd við það sem kemur fram í báðum till. til þál., bæði um jarðgangaáætlun og vegáætlun, þar sem rætt er um fjármögnun viðbótarframkvæmda sem þar eru lagðar til bæði við jarðgangagerð og vegagerð. Þar er sagt að þessa fjár verði m.a. aflað með sölu ríkiseigna en einnig er gert ráð fyrir beinum fjárframlögum og lánsfé frá aðilum að orku- og iðjuverum á Austurlandi. Þetta stendur í nefndarálitinu um vegáætlun og í nefndarálitinu um jarðgangaáætlun er tilsvarandi texti um að samkvæmt tillögunni verði aflað fjár sérstaklega, m.a. með sölu ríkiseigna.

Herra forseti. Fyrir mér er illa ásættanlegt að fé ríkissjóðs sé sérmerkt fyrir fram. Það er bara einn ríkiskassi til, fjáröflun til hans er á einni hendi og ráðstöfun fjár síðan samkvæmt ákvörðun Alþingis á fjárlögum hvers tíma og lýtur þá þar með þeirri þinglegu meðferð sem fjárlög og fjárlagaafgreiðsla fara eftir. Þessar framkvæmdir eiga líka og munu að sjálfsögðu lúta þeirri þinglegu meðferð óháð því hvað hér er verið að setja í skilyrtan texta eða hálfskilyrtan texta. Ég tel mikilvægt, herra forseti, að það komi fram, a.m.k. af minni hálfu, að vegaframkvæmdir sem hér eru nefndar og vegaframkvæmdir út um land eigi ekki að vera skilyrtar því að þessi og hin eignin sé seld, kannski mikilvægar þjónustueignir, þjónustufyrirtæki og þjónustustarfsemi sem einmitt eru að þjóna viðkomandi landshlutum og fólki vítt og breitt um landið þannig að íbúunum sé ekki stillt með þeim hætti upp við vegg. Fyrst og síðast ráða fjárlög og ákvörðun Alþingis öflun ríkistekna, hvort sem þeirra er aflað með sköttum eða sölu á ríkiseignum, og ráðstöfun þeirra er síðan líka háð og fer eftir farvegi fjárlaga og ákvörðun Alþingis á hverjum tíma.

Hitt er svo annað mál að mikilvægt er að sem stærstum hluta af fjáröflun ríkisins sé varið til fjárfestingar og atvinnuuppbyggingar, þar á meðal til uppbyggingar samgangna, en sem minnstu til almenns reksturs, þ.e. þá öðru en því sem lýtur að almennri velferðarþjónustu.

Herra forseti. Þessi samgönguáætlun, vegáætlun og jarðgangaáætlun, kemur að sjálfsögðu til skoðunar aftur næsta vetur fyrir árið 2001 og síðan árin 2001--2002 kemur til endurskoðunar langtímaáætlun þannig að það sem hér er verið að leggja til til næstu fjögurra ára mun hvort eð er verða að lúta endurskoðun Alþingis og þá geta svo sem verið aðrar áherslur, nýjar áherslur. Vonandi verður staðan sú að við fáum aukið fjármagn til þess að styrkja samgöngur út um land.

Ég vil að síðustu, herra forseti, minnast líka á almenningssamgöngurnar sem eru hluti af þessu dæmi. Almenningssamgöngur í landinu standa einmitt afar veikt núna. Við heyrum bæði um sérleyfin og flugleiðirnar, að þar er almenningssamgöngum að fækka. Þarna þarf virkilega að taka til og taka í gagnið nýja stefnumótun, nýja sýn og heildarvinnu fyrir almenningssamgöngur í landinu bæði hvað snertir samgöngur á landi, í lofti og á sjó, þ.e. heildaráætlun þar sem þetta er fléttað saman. Almenningssamgöngur sem lúta að flutningi skólabarna, almenningssamgöngur sem lúta að flutningi fólks til og frá vinnu, allt þetta þarf að flétta saman í eina heild og styrkja.

Ég fagna reyndar þeirri vinnu sem þegar hefur verið sett í gang til þess að endurskoða almenningssamgöngukerfið en brýni hæstv. samgrh., ráðuneyti hans og þá sem að þessu koma, að vinna hratt því að erfiðara er að ná boltanum upp eftir að hann hefur fallið niður, en margar almenningssamgönguleiðir eru á fallanda fæti þessa dagana og á næstunni.

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að geta í þessari samræmdu vegáætlun lagt nokkuð fram með aukinni bjartsýni til þeirra sem þar eiga að njóta. En ég vek athygli á því að meginhluti þeirra tillagna og viðbóta sem hér eru lagðar til koma ekki til framkvæmda fyrr en eftir árið 2002 og síðar. Legg ég því áherslu á að taka megi inn nýjar áherslur og ný verkefni út um hinar dreifðu byggðir landsins til að styrkja búsetuna enn frekar.