Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 16:46:30 (7773)

2000-05-13 16:46:30# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg fallist á það sem hæstv. ráðherra kom inn á um göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar að gert er ráð fyrir því að sú leið sem hann minntist á verði einn fyrsti kostur sem verði skoðaður. Jafnframt eru aðrir kostir ekki útilokaðir því að þessar leiðir eru fjarri því að vera fullkannaðar. Ég legg áherslu á þetta en geri mér fyllilega grein fyrir hvar fyrstu áherslur hafa legið.

Hæstv. ráðherra minntist á veginn um Norðurárdal og á veginn um Bröttubrekku en vegurinn um Norðurárdalinn er bara að hluta til inni á þessari núgildandi áætlun þannig að fjármögnun á þeirri leið liggur ekki fyrir að fullu. Ég lagði áherslu á að þeim framkvæmdum mætti alveg að skaðlausu flýta svo og að taka einbreiðar brýr á þessum vegum. Verkefnin sem má horfa til eru því næg þegar valið er á milli verkefna til að flýta eða finna farveg fyrir aukið fjármagn.