Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 18:20:39 (7785)

2000-05-13 18:20:39# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, 571. mál: #A jarðgangaáætlun 2000-2004# þál. 24/125, EOK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[18:20]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Eitthvað það skynsamlegasta ef ekki alskynsamlegasta í stefnu núverandi ríkisstjórnar er að selja ríkisfyrirtæki. Ríkið er með margs konar rekstur og þessi rekstur er að allra dómi mun betur kominn í höndum einkaaðila en ríkisins. Nokkur skref hafa verið stigin í þessa átt með mjög góðum árangri og það hefur staðið til að stíga enn stærri skref. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að verja þeim fjármunum til að gera fyrst og fremst tvennt, borga skuldir ríkisins og bæta samgöngur í landinu. Hvort tveggja er ákaflega brýnt og ákaflega þýðingarmikið fyrir framtíð þessa lands, að borga niður skuldirnar og bæta samgöngurnar.

Ísland stendur jafnfætis öllum þeim þjóðum Evrópu og Vesturheims sem best standa sig að öllu leyti nema einu, í samgöngum. Kemur þar náttúrlega til þetta stóra land og þessi fámenna þjóð, en við eigum og ríkið á tugi milljóna bundna í rekstri sem það á ekkert að vera að koma nálægt. Það er mjög skynsamlegt og mjög þýðingarmikið fyrir efnahagsframtíð landsins að þessir fjármunir verði leystir út, þeim verði varið til þess sem ætlað er að borga skuldir og stórbæta vegakerfi og allar samgöngur á Íslandi.

Ég er einn af þeim stjórnarþingmönnum sem hefur þótt miða heldur hægt í sölu ríkiseigna hjá núverandi ríkisstjórn. Ég hef fullyrt og trúi því að ganga mætti miklu vaskara þar til verks en gert er. Mikil þörf er á því að gera það vegna þess að það sem á að verja peningunum til, að borga skuldir og byggja upp samgöngukerfi, þar er peningunum mjög vel varið. Það kemur þjóðinni mjög til góða strax á næstu árum. Það eflir atvinnulífið, það bætir atvinnulífið og ekki hvað síst hjálpar það okkar og er hvað brýnast fyrir í þeirri viðleitni okkar að gera allt til þess að byggja þetta land, og að byggja þetta land er verðmæti, gríðarleg verðmæti. Byggðin stendur víða mjög höllum fæti og það mundi og mun hjálpa gríðarlega til að styrkja byggðirnar að geta stigið enn þá stærri og meiri skref til að bæta samgöngurnar.

Þessi þáltill. um framkvæmdir í vegamálum og jarðgangamálum er því í sjálfu sér mikið fagnaðarefni og að menn setji enn meiri peninga inn í þessar áætlanir en ætlað var og það er hægt að gera þetta. Það er hægt að gera þetta með því að selja ríkiseignir. Án þess er þetta ekki hægt. Menn verða að muna að það verður að baka kökuna áður en við borðum hana. Þess vegna er brýnt að minna á það hér og nú að forsenda þess að við getum lagt miklu meiri fjármuni til þessara verkefna er sala ríkiseigna og ástæða er til þess að brýna ríkisstjórnina á því að láta ekki deigan síga í því, vera ekki eins og mér finnst hún vera, dálítið hikandi, því að engin ástæða er til að hika. Við eigum stór fyrirtæki sem eru markaðsvara og kæmi sér mjög vel að selja og selja strax. Ef við látum dragast að selja ríkiseignirnar, erum við líka að láta dragast að byggja upp samgöngukerfið.

Það er mjög brýnt að byggja upp samgöngurnar, bæði í þéttbýlinu og í strjálbýlinu. Það skilar sér mjög fljótt. Þéttbýlið, Reykjavíkursvæðið, þarf mjög á því að halda að settir séu verulegir peningar til bættra samgangna þannig að ég deili ekki við nokkurn mann um það. Byggðirnar sem standa hvað höllustum fæti þurfa líka gríðarlega á því að halda að við bætum samgöngurnar þannig að ekki eru deilur um það að við séum að gera rétt, ég held að mikil samstaða sé um það að við séum að gera rétt, en við megum samt ekki gleyma því að það þarf að sækja þessa peninga og þeir verða ekki sóttir nema menn herði róðurinn í að selja þessi fyrirtæki.

Alltaf hefur verið viðkvæmt að skipta þessu fé eðli málsins samkvæmt vegna þess að þörfin er brýn og því eðlilegt að menn sæki það hart. Ég hef þó alltaf skilið það þannig að menn teldu rétt og skylt að reyna að leita að sem víðtækastri samstöðu um það hvernig þetta verður gert vegna þess að hagsmunirnir eru mjög mismunandi. Ég tel líka rétt og skylt að geta þess hér og dylja engan þess að ég hef orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum með það hvernig að þessu hefur verið staðið í þetta skipti, öllum framgangi málsins, og er mjög óánægður, svo mikil skammsýni, svo mikið óréttlæti sem mér finnst vera í þessu. Það eru byggðarlög á Íslandi sem hafa ekki samgöngur nema hluta af ári, kannski hálft árið. Það eru byggðarlögin sem standa hvað veikust. Ég er mjög ósáttur við það hvernig þessu fé er skipt. Þess ber þó að gæta að hér er um áætlun að ræða sem er ætlað að endurskoða á tveggja ára fresti og það er þá ekkert annað að gera en búa sig undir það að reyna að ná vopnum sínum að tveim árum liðnum ef það gæti orðið til þess að leiðrétta það hrikalega óréttlæti sem kemur fram í þessari áætlun.