Vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 20:01:54 (7792)

2000-05-13 20:01:54# 125. lþ. 118.8 fundur 296. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000 - 2004# þál. 23/125, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 125. lþ.

[20:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum styðja þessa vegáætlun af því að í henni eru fólgnar mikilvægar framkvæmdir víða um land, almennar vegaframkvæmdir, nýframkvæmdir á sviði jarðgangagerðar, mikilvægar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og fleira mætti nefna. Við höfum hins vegar lýst ákveðnum fyrirvörum við málið og ég vil ítreka þá hér. Þeir lúta í fyrsta lagi að þeirri tengingu við mögulega sölu ríkiseigna sem koma fram í forsendum tillögunnar. Við áskiljum okkur allan rétt í því sambandi og erum ekki að skrifa upp á slíkan óútfylltan tékka gagnvart einkavæðingu.

Í öðru lagi höfum við gagnrýnt ákveðin vinnubrögð í sambandi við meðferð málsins á lokaspretti þar sem þingmannahópar kjördæmanna komu ekki með venjubundnum hætti að skiptingu fjár til almennra vegaframkvæmda og einnig höfum við fyrirvara á um þá skiptingu sem slíka, herra forseti.