Skattfrelsi forseta Íslands

Laugardaginn 13. maí 2000, kl. 21:07:27 (7798)

2000-05-13 21:07:27# 125. lþ. 119.4 fundur 652. mál: #A skattfrelsi forseta Íslands# (breyting ýmissa laga) frv. 84/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 125. lþ.

[21:07]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um afnám lagaákvæða um skattfrelsi forseta Íslands.

Nefndin fjallaði um þetta mál og fékk á fund sinn fulltrúa nokkurra aðila sem getið er um í nefndarálitinu. Nefndin gerir tvær tillögur til breytinga á frv. sem koma fram í nál.

1. Við I. kafla bætist ný grein sem verði 2. gr., svohljóðandi:

Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Forsætisráðherra skal skipa nefnd til að endurskoða lög þessi og önnur lög sem kunna að hafa áhrif á kjör forseta Íslands. Meðal annars skal nefndin fjalla um hvort ástæða sé til að breyta fyrirkomulagi á ákvörðun launa forseta Íslands þannig að annar aðili en Kjaradómur úrskurði um þau. Störf nefndarinnar skulu miðast við að nýtt fyrirkomulag geti eftir því sem við á tekið gildi eigi síðar en að loknu kjörtímabilinu 2000--2004, þ.e. 1. ágúst 2004.

Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú að menn vilja undirstrika sérstöðu launaákvæðanna fyrir forseta Íslands og að kjör hans skuli ekki vera viðmiðun fyrir aðra.

Þá er í annan stað tillaga frá meiri hlutanum um að ný grein bætist við II. kafla laganna sem fjallar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og það komi inn nýr 6. tölul. 28. gr. sem fjallar um almennt séð hvað ekki skuli talið til skattskyldra tekna hjá einstaklingum og að inn í þann lið komi:

Hlunnindi forseta Íslands vegna embættisbústaðar og rekstrar hans, risnu og bifreiða eða önnur hlunnindi sem embættinu fylgja.

Ástæðan fyrir þessari brtt. er sú að hlunnindi þessi eru vandmetin í eðli sínu og eru í raun embættiskvöð en nýtast mjög takmarkað þeim sem gegnir embætti forseta Íslands persónulega.

Þetta eru tvær tillögur til breytinga á frv. sem meiri hluti nefndarinnar gerir.

Að öðru leyti er rétt að vekja athygli á því sem kemur fram í nál.

Nefndin tók til sérstakrar skoðunar hvaða áhrif sú ákvörðun að afnema skattfrelsi forseta Íslands hefði á störf Kjaradóms. Kom fram í máli Garðars Garðarssonar, formanns Kjaradóms, að við ákvörðun launa alþingismanna og ráðherra hefði verið horft til sambærilegra starfa á almennum vinnumarkaði og laun þeirra ákvörðuð út frá því.

Síðan hefði ákveðin hefð verið í dómnum fyrir því að laun forseta Íslands væru hærri en laun forsrh. þrátt fyrir að laun forseta Íslands nytu þessara sérstöku skattalegu kjara.

Formaður Kjaradóms taldi enn fremur að í kjölfar samþykktar frumvarpsins mundi Kjaradómur koma saman og úrskurða hækkun launa forseta Íslands með hliðsjón af breyttum forsendum.

Formaður Kjaradóms telur einsýnt að þrýstingur muni koma á dóminn af hálfu þeirra annarra sem hann úrskurðar laun fyrir, sérstaklega vísaði hann í embættismenn og enn fremur mundi koma fram þrýstingur hjá þeim sem kjaranefnd úrskurðar laun fyrir.

Hins vegar kom skýrt fram hjá formanni Kjaradóms að ekki væri tilefni til að úrskurða um hækkanir til annarra þrátt frir nýjan úrskurð um laun forseta Íslands. Meiri hlutinn tekur undir þetta mat í nefndarálitinu. Það liggur alveg klárt fyrir frá hendi meiri hlutans að hann styður álit formanns Kjaradóms að þessu leyti að nýr úrskurður um laun forseta Íslands hafi ekki í för með sér neitt tilefni til nýrra úrskurða fyrir aðra hvort heldur þeir heyra undir Kjaradóm eða kjaranefnd.

Þá kom einnig fram hjá formanni Kjaradóms að hann teldi ástæðu til að dómurinn fengi betri leiðbeiningar um það hvernig bæri að skilja þessi lög ef frv. yrði samþykkt. Þá vísaði hann bæði í frv. sjálft, í greinargerðina og síðast en ekki síst þau misvísandi ummæli sem komu fram við 1. umr. málsins.

Í umræðum í nefndinni kom fram, menn vildu taka fram, að Alþingi getur ekki gefið Kjaradómi fyrir fram ákveðna forskrift um það hvernig hann eigi að úrskurða um laun forseta Íslands. Ástæðan er sú að Kjaradómur er gerðardómur og ekki gengur upp að raska stöðu Kjaradóms sem gerðardóms með því að hann sé bundinn fyrir fram af Alþingi. Hins vegar telur meiri hlutinn rétt að einhverjar hugmyndir séu gefnar um það hvaða viðmiðanir meiri hlutinn telur eðlilegar fyrir Kjaradóm að vinna eftir í þessu skyni.

Í fyrsta lagi telur meiri hlutinn að til viðmiðunar fyrir nýjan úrskurð sé eðlilegt að miða við þrönga skilgreiningu á skattfrelsi forseta þannig að ekki sé þörf á að bæta rýrnun kjara vegna skattfrelsis fjármagnstekna eða annarra tekna en þeirra sem koma beint frá embættinu þótt eðlilegt sé að rýrnun kjara vegna tekjuskatts og útsvars á embættislaun sé bætt. Þetta þýðir t.d. að meiri hlutinn telur ekki eðlilegt að tekið sé inn í úrskurð um laun forseta Íslands þótt sá einstaklingur sem gegnir því embætti hefði tekjur af öðrum póstum, svo sem fyrirlestrahaldi, tekjur af bókaútgáfu eða einhverju öðru sem er algerlega óskylt forsetaembættinu svo fjármagnstekjurnar séu líka teknar þarna inn þannig að að þessu leyti sé viðmiðunin skilgreind tiltölulega þröngt.

Í öðru lagi og í ljósi umræðna sem urðu við 1. umr. telur meiri hlutinn að ekki sé sjálfgefið að bætt sé kjararýrnun vegna skattfrelsis af öllum óbeinum sköttum og vísar sérstaklega í virðisaukaskatt í því tilefni enda er virðisaukaskattur almennur skattur á neyslu. Þetta er atriði sem meiri hlutinn vill að Kjaradómur skoði sérstaklega. Meiri hlutinn getur ekki gefið Kjaradómi beinar forskriftir um þetta að sjálfsögðu frekar en annað en meiri hlutinn telur þetta hins vegar ekki sjálfgefið.

Meiri hlutinn telur að það séu meiri rök til að bæta kjararýrnun vegna annarra óbeinna skatta og getur þess vegna vísað á einhver dæmi þar sem menn telja að það gæti verið sanngjarnt að tekið sé tillit til þess. Ástæðan er sú að meiri hlutinn telur að þessu frv. sé ekki ætlað að raska í sjálfu sér kjörum forseta Íslands eða að rýra kjör hans. Hins vegar sé eitthvert eðlilegt samhengi í því hvernig hin nýju kjör eru ákveðin og núverandi kjör eru.

Í þriðja lagi telur meiri hlutinn að Kjaradómur hljóti að skoða rækilega alla aðra þætti í kjörum forseta Íslands og hvernig þeir raskast með samþykkt þessa frv. og meta að hve miklu leyti sanngjarnt og eðlilegt er að taka tillit til þess í nýjum úrskurði.

Virðulegi forseti. Með þeim brtt. sem ég hef rakið og með þessum útskýringum sem koma fram í nál. frá meiri hlutanum leggur meiri hlutinn til að frv. verði samþykkt. Í meiri hlutanum eru auk mín Kristinn H. Gunnarsson, Jón Kristjánsson, Gunnar Birgisson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Ögmundur Jónasson sem hefur fyrirvara sem hann mun væntanlega gera grein fyrir.