Kristnihátíðarsjóður

Föstudaginn 30. júní 2000, kl. 13:58:40 (0)

2000-06-30 13:58:40# 125. lþ. 122.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ánægjuefni að samstaða skuli nást um það á Alþingi að veita myndarlegum fjárhæðum til fornleifarannsókna á næstu árum. Tekið er fram í greinargerð með þeirri þáltill. sem hér er til umræðu og er borin fram af formönnum allra þingflokka, að þær styrkveitingar sem kveðið er á um skuli ekki skerða framlög sem koma til fornleifarannsókna eftir öðrum leiðum, úr ríkissjóði, frá sveitarfélögum, rannsóknarsjóðum eða öðrum aðilum. Hér er því um að ræða viðbótarfjármagn til fornleifarannsókna. Það er vel og löngu tímabært að við tökum sameiginlega á í þessum efnum og vonandi verður þetta til að styrkja stoðir fornleifarannsókna á Íslandi til frambúðar.

Í þáltill. eru nefndir þrír staðir, Þingvellir, Skálholt og Hólar. Í greinargerð með tillögunni er síðan sérstaklega getið um að klaustur komi einnig til greina í þessu átaki og þá það klaustrið sem áhugaverðast væri til rannsókna að mati þeirra sem best til þekkja. Þetta eru þau viðfangsefni sem sérstaklega eru tilgreind en aðrir staðir koma engu að síður einnig til álita í þessu átaki. Þannig segir í greinargerð með þáltill., eftir að sérstök grein hefur verið gerð fyrir þeim stöðum sem áður eru nefndir, með leyfi forseta:

[14:00]

,,Margir aðrir staðir á landinu þykja líka mjög fýsilegir til fornleifarannsókna, kirkjustaðir, verslunarstaðir, miðaldabæir, forn eyðibýli, verstöðvar, heiðnar grafir, sel, þingstaðir og fleiri staðir þar sem eru m.a. minjar frá upphafi byggðar í landinu, en ekki er ástæða til að telja þá hér. Misjafnt er hins vegar hversu mikið rask hefur orðið á þeim stöðum og hversu mikið er til af heimildum um þá. Er eðlilegt að stjórnarnefnd fari yfir þá og kanni hvort unnt sé að stofna til rannsókna þar á starfstíma sjóðsins.``

Nú er gert ráð fyrir að sérstök sjóðstjórn og undir henni verkefnisstjórnir ráðstafi þeim fjármunum sem Alþingi hyggst veita til átaksins. Sjóðstjórnin mun hafa samstarf við Þjóðminjasafn Íslands um framkvæmdina og er sérstaklega kveðið á um það í þáltill. og er reyndar í samræmi við lög sem gilda um fornleifarannsóknir en í þeim lögum, þjóðminjalögum, er kveðið á um hvernig staðið skuli að fornleifavörslu, skráningu og rannsóknum.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta sérstaklega er sú að þótt ráðist sé í þetta verkefni fyrir utan hefðbundinn farveg og jafnvel þótt æskilegt sé að sem flestir aðilar komi að þessu átaki, enda eru fornleifafræðingar starfandi víða á minjasöfnum, sjálfstæðum stofnunum og sjálfstætt starfandi þá er brýnt að starfað sé í samræmi við markvissa langtímaheildaráætlun um fornleifarannsóknir í landinu.

Eins og hér hefur komið fram er gert ráð fyrir því í þáltill. að 100 millj. kr. renni árlega í svokallaðan Kristnihátíðarsjóð sem skuli standa straum af kostnaði við þetta verkefni. En þessi fimm ár munu líða eins og önnur ár og áfram verða stundaðar fornleifarannsóknir á Íslandi. Mikilvægt er að við leggjum vel niður fyrir okkur hvernig við hyggjumst standa að verki og það sem unnið er í tengslum við þetta átak falli vel að framtíðaráformum.

En ekki er öll sagan sögð með þessu. Enda þótt líklegt megi heita að fornleifarannsóknir muni reynast kostnaðarsamar er ætlunin að láta einhvern hluta fjárins, sem til hátíðarsjóðsins rennur, fara í fræðslu og rannsóknir og til þess að örva umræðu í landinu um siðræn gildi. Í þáltill. er talað um að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn.

Trúararfur er hluti af menningararfi og eðlilegt er að þetta tvennt sé rætt í senn. En hafa ber í huga þegar stofnað er til umræðu um trúarleg og siðræn gildi að trúfrelsi ríkir í landinu og ekki er ætlunin að láta umræðu um þessi efni snúast upp í einhliða boðunarstarf eða trúboð. Þvert á móti er leitað eftir breiðu samstarfi trúfélaga, félagasamtaka og menntastofnana um viðfangsefni sem eftirsóknarvert gæti verið að taka til rannsókna og umræðu.

Í greinargerðinni segir á þá leið að Íslendingar búi yfir meiri fjölbreytileika í menningarlegum, trúarlegum og siðferðilegum efnum en nokkru sinni áður enda hafi æ fleira fólk af erlendu bergi brotið sest hér að á undanförnum árum. Þetta kalli á fjölbreytta trúar- og menningarfræðslu þar sem ólíkur bakgrunnur fólks sé viðurkenndur og útskýrður. Síðar segir á þá leið að fræðsla af þessu tagi skerpi skilning á íslenskum hugmynda- og menningararfi og auðveldi lifandi rökræður um trú og lífsgildi.

Þetta framtak gæti að mínum dómi orðið til góðs, jafnvel haft mikið gildi ef vel verður á haldið. Markaðs- og gróðahyggja setur mjög svip á samtímann og er mikilvægt að stuðla að umfjöllun, umræðu og vonandi vakningu um siðræn gildi í samfélaginu. Það getur skipt miklu máli fyrir lýðræðið að umræða á þessum forsendum sé lifandi og er að þessu vikið sérstaklega í greinargerð með þáltill. Leyfi ég mér að vitna í hana, með leyfi forseta, í lokaorðum mínum:

,,Sjálfstætt og gagnrýnið gildismat þegnanna er ein mikilvægasta forsenda þess að stjórnvöld fái nauðsynlegt aðhald við stjórnarathafnir. Skörp og yfirveguð siðferðisvitund borgaranna hamlar gegn því að valdhafar geti hrundið í framkvæmd ákvörðunum sem fara í bága við grundvallarréttindi eða hagsmuni borgaranna eða einstakra hópa þeirra. Enn fremur eru margar af mikilvægustu ákvörðunum sem taka þarf í samfélaginu að meira eða minna leyti siðferðilegar í eðli sínu. Farsæl stjórn samfélagsins er þess vegna undir því komin að bæði almenningur og stjórnmálamenn hafi getu og vilja til að taka þátt í málefnalegri rökræðu um siðferðileg efni og að niðurstöður slíkra umræðna séu grundvöllur ákvarðana.``

Herra forseti. Hér er vissulega verðugt viðfangsefni og tímabært að leggja rækt við það.