Kristnihátíðarsjóður

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 10:38:49 (0)

2000-07-02 10:38:49# 125. lþ. 123.1 fundur 656. mál: #A Kristnihátíðarsjóður# þál. 27/125, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[10:38]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hverri þjóð er nauðsynlegt að þekkja sögu sína, vita og þekkja hvað það er sem mótað hefur þjóðarvitund og ráðið för í gegnum tíðina, með öðrum orðum, hvaða leiðarljós og lífsgildi hafa verið í fyrirrúmi.

Í dag höldum við Íslendingar hátíð á Þingvöllum, helgasta stað þjóðarinnar, til að fagna þeim einstaka viðburði í sögu okkar að kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Þingheimur tók þá ákvörðun í friði og sátt sem tengd er nafni Þorgeirs Ljósvetningagoða og mikill ljómi stendur af.

Í tilefni kristniafmælis hafa þingflokkar á Alþingi orðið einhuga um þá till. til þál. sem hér er til umfjöllunar. Hún felur í sér að stofnaður verði Kristnihátíðarsjóður er njóti framlaga af fjárlögum, 100 millj. kr. á ári, næstu fimm ár. Verkefni hans verði að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar og framtíðarsýn, að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.

Með tillögu þessari er í senn hlúð að menningar- og trúararfi Íslendinga með því að auka og treysta þekkingu landsmanna á þessum þáttum í sögu okkar en jafnframt horft til framtíðar með því að efla umræðu í landinu um framtíðarsýn og þau lífsgildi sem þjóðin ætlar að hafa í fyrirrúmi um ókomna tíð.

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Mikið verk er óunnið á sviði fornleifarannsókna hér á landi og telja fræðimenn að slíkar rannsóknir séu líklegar til að skila nýrri þekkingu á elstu sögu þjóðarinnar. Þess vegna er vel við hæfi að minnast merkra tímamóta einnig með þeim hætti.

Íslendingar eru ung þjóð í ungu landi. Við þekkjum sögu okkar vel af rituðum heimildum sem greina frá upphafi byggðar. Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi frá fyrstu tíð. Áhrif kristninnar á íslenskt þjóðlíf, menningu og tungu, bókmenntir og listir eru meiri en svo að mæld verði. Atburðirnir á Þingvöllum árið 1000 marka einmitt upphaf þess blómaskeiðs í sagnaritun og bókmenntum sem fylgdi í kjölfar þess að ritmenning kirkjunnar festi hér rætur. Saga þjóðar og kristni er órjúfanlega samofin. Íslandssagan er kristnisaga í þeim skilningi eins og glöggt kemur fram í ritverkinu Kristni á Íslandi sem Alþingi gaf út á þessu ári í tilefni af þessum tímamótum.

Vald Ólafs Noregskonungs var mikið á sinni tíð og á það hefur verið bent með réttu að kristnitakan hafi að hluta til verið af stjórnmálalegum toga. Hitt er engu síður ljóst að sá sannleikur sem þjóðin gekkst á hönd og kaus að tileinka sér er meiri og háleitari en veraldleg yfirráð konunga. Kristnin hefur verið leiðsögn og viðmiðun daganna í þúsund ár. Þaðan hefur þjóðin fengið styrk og þrek til að standast ógnir elds og ísa og áþján erlends valds og á gleðistundum hefur sannleikur trúarinnar helgað orð og verk.

Stundum er á það minnt að áhersla á kristin gildi fari þverrandi í nútímanum. Sjálfsagt er nokkur sannleikur fólginn í þeirri staðhæfingu. Íslensk þjóð hefur brotist frá örbirgð til allsnægta á einum mannsaldri. Hún hefur lifað örar breytingar í atvinnuháttum og nýtt sér margvíslegar tækniframfarir til að byggja upp öflugt velferðarþjóðfélag sem stendur í fremstu röð í veröldinni. Svo örar breytingar kunna að villa mönnum sýn og gera þá gleymna á það sem mestu varðar og mölur og ryð fá ekki eytt. Það er við hæfi að landsmenn nýti sér þessi tímamót sem sérstakt tilefni til að huga að þeim gömlu og góðu gildum sem best hafa dugað í tímans rás. Þau eiga öll rætur í kristinni trú.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með orðum Kolbeins Tumasonar:

  • Heyr, himna smiður,
  • hvers skáldið biður,
  • komi mjúk til mín
  • miskunnin þín.
  • Því heit eg á þig,
  • þú hefur skaptan mig,
  • ég er þrællinn þinn,
  • þú ert Drottinn minn.