Þingfrestun

Sunnudaginn 02. júlí 2000, kl. 11:04:35 (0)

2000-07-02 11:04:35# 125. lþ. 123.92 fundur 564#B ávarp forseta Íslands#, Forseti Íslands f.Ísl.
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 125. lþ.

[11:04]

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Virðulega Alþingi. Íslendingar á Þingvöllum og í heimabyggð. Fyrir þúsund árum gerði Alþingi kristnina að lögmáli Íslendinga, lögmáli vonar og vissu um náð Guðs föður og eilíft líf, lögmáli um hegðan okkar og hugsun, rétta breytni og ranga. Slíkur var sáttmálinn sem Alþingi samdi á ögurstundu, eiðstafur umburðarlyndis, boðskapur um kærleika og samlíðan með öllum mönnum.

Kristin trú er ekki aðeins bæn og blessun. Hún er ákall um siðferði hinna góðu verka, um kærleikann og um samstöðu með öllum sem bera skarðan hlut frá nægtarborði. Þjóðhátíð íslenskrar kristni er sannarlega þakkargjörð til þess góða fólks sem um aldir hefur lifað með kennisetningu Krists að leiðarljósi, hún er lofsöngur til kynslóðanna sem í návígi við óblíða náttúru varðveittu fagnaðarerindið í brjósti sér og gerðu trúna í hjarta hvers manns að kjölfestu kristindómsins. Hátíð þjóðkirkju á Þingvöllum er tækifæri til að staldra við og hugleiða gildi trúarinnar í lífi okkar allra og ekki síst í farsæld ríkis sem í stjórnarskrá hefur gert kenningu Krists að grundvelli sínum.

Alþingi kaus til forna að gera siðaboðskap kristinnar trúar að leiðarljósi Íslendinga. Alþingi hefur nú komið á Þingvelli á ný til að árétta þann eið sem að eilífu gildir. Þess vegna er Alþingi hér, ekki aðeins sem löggjafarþing heldur einnig þing sem á helgustu völlum Íslendinga og með þjóðina alla til vitnis hefur ákveðið að veita áfram kristinni breytni brautargengi.

En kenning Krists getur verið harður húsbóndi og hefur reynst valdsmönnum erfið eftirbreytni. Gleymum því ekki að Kristur var á sinni tíð maður uppreisnar og andófs, förunautur hinna fátæku og smáðu. Það var Jesús sem hratt um borðum víxlaranna og rak þá út úr helgidómnum: ,,Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli.`` Það voru fiskimennirnir og fólkið sem fylgdu Kristi en landsherrarnir sem leiddu hann á krossinn.

Kristin trú er ekki aðeins boðskapur um að þingheimur og þeir sem háum embættum gegna gangi til tíða og messusöngs á hátíðarstundum. Kristin trú er fyrirheit um rétta breytni, mælistika sem sýnir hvort við erum í reynd sönn og heil. Hver er kenningin sem Alþingi og þjóðin hefur gert að sinni, hver er boðskapurinn um það sem gjöra skal? Hver eru orð Krists?

Heyrum áskorun hans um umburðarlyndið:

,,En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.``

,,Dæmið ekki, og þér munuð eigi dæmdir verða. Sakfellið eigi, og þér munuð eigi sakfelldir verða. Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða. Gefið, og yður mun gefið verða.``

Heyrum hvatningu Krists um að hjálpa hinum fátæku, dóm hans um þá sem setja auð og eignir í efsta sæti:

,,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.``

,,Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni.``

,,Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.``

Heyrum dóm Krists um valdið og auðmýktina:

,,Þér vitið, að þeir sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.``

Þessi eru orð Krists, lögmálið sem við höfum undirgengist fyrir þúsund árum og aftur nú, lögmálið um kærleika, hógværð og umburðarlyndi, samúð með hinum smæstu bræðra okkar og systra.

Þola verk okkar þessar mælistikur, þetta ljós? Eru löggjöfin og landstjórnin í anda kristinnar trúar eða höldum við að lögmálið sé aðeins til hátíðarbrigða? Verður kenning Krists leiðarljós þegar Alþingi heldur héðan og við öll til okkar heima? Er kristnihátíð heitstrenging eða aðeins einn dagur í þúsund ár?

Kristnihátíð er okkur áminning um kjarna trúarinnar, um sáttmálann sem saminn var á þessum völlum, áskorun til íslenskrar kirkju og okkar allra um að hafa kjark og þor til að ganga þann veg sem Kristur lýsti og láta eigi bugast þótt í móti blási. Um þúsund ár frá þessum degi verður áfram spurt um dug og ætlan hvers og eins. Gleymum ekki að allir eiga sama rétt. Og þjóðir heims mynda nú eina heild þótt trú og hættir séu af ólíkum meiði. Virðum ekki aðeins hinn lútherska sið heldur einnig þá kirkju sem hér var í upphafi og um aldir, alla söfnuði sem tilbiðja guð, hver á sinn hátt.

Í sáttargjörð sem hér var á Lögbergi samin varð orðið vopnunum æðra. Megi það vera lífssýn Íslendinga og mannkyns alls um ókomna tíð.