Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 20:39:01 (14)

1999-10-04 20:39:01# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, MF
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[20:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Umræðan hér í kvöld ætti að snúast um þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér og þær leiðir sem hún hefur valið til að ná þeim. Stjórnmálaumræðan á að snúast um markmið og leiðir og forgangsröð verkefna. Stefnuræða hæstv. ríkisstjórnar á að vera kveikja, umræðuvaki. En það er hún alls ekki.

Þessi rýra ræða fól ekki í sér nein skýr skilaboð. Hæstv. forsrh. tæpti aðeins á nokkrum málum, talaði óljóst um framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og endaði ræðu sína á upptalningu á nokkrum innihaldslitlum markmiðslýsingum, þ.e. að vinna, að auka, að örva, að efna, að efla, að breyta setningum. Ekki orð um það hvernig ríkisstjórnin hyggst ná þessum markmiðum sínum.

Hæstv. forsrh. veit þetta greinilega því að hann sagði í lokaorðum sínum að í stuttri ræðu yrði aðeins fátt nefnt af því sem unnið væri að. Það má vel vera að sá tími sem ætlaður er fyrir stefnuræðuna og umfjöllun um hana sé of stuttur. Ef svo er, þá verður einfaldlega að lengja hann.

Hins vegar má segja að þessi ræða endurspegli að vissu leyti þá þróun sem orðið hefur í pólitískri umræðu í landinu. Stjórnmálaumræðan er, þegar á heildina er litið, mjög fátækleg. Það fór t.d. ekki mikið fyrir málefnalegri og stefnumarkandi umræðu í síðustu kosningum. Það mátti helst skilja að best væri að segja sem allra minnst og helst ekki neitt. Það er t.d. með ólíkindum að í aðdraganda kosninga til Alþingis skuli ekki fara fram málefnaleg umræða um stöðu Íslands meðal þjóðanna og þá fyrst og fremst um stöðu okkar í samstarfi Evrópuþjóða. Gæti það gerst hjá nokkurri annarri Evrópuþjóð að sú umræða væri afgreidd með því að málið sé ekki á dagskrá? Ég held ekki.

Það er orðið mjög brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um stöðu okkar í breyttu alþjóðlegu umhverfi, umræða sem tryggir að við ráðum ferð sjálf og séum ávallt fær um að taka ákvarðanir með heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga. Þróunin er ör og ótrúlegar breytingar hafa orðið á samstarfi þjóðanna á undanförnum árum. Það er fyrir löngu orðið tímabært að ræða um utanríkismál á öðrum grundvelli en hingað til hefur verið gert. Stefnuræðan gefur þó ekki tóninn í þeim efnum frekar en öðrum.

Umfjöllun um utanríkismál spannar um það bil tíu línur í rituðum texta og fjallaði með óskýrum hætti um næstu samningalotu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þessi mikilvægi málaflokkur sem hefur áhrif á daglegt líf okkar allra og í sífellt vaxandi mæli, fékk ekki meira rými í stefnuræðu forsrh. landsins en raun ber vitni.

Heldur fleiri orðum er farið um umhverfismálin. En þar var mjög einkennilegur boðskapur á ferðinni. Það mátti helst skilja að hæstv. forsrh. væri að reyna að spyrða Watson sem sökkti hvalbátum og aðra öfgamenn í hvalfriðunarmálum við þá Íslendinga sem hvetja til varúðar í náttúruverndarmálum, það fólk sem hvatt hefur til þess að Fljótsdalsvirkjun verði sett í mat á umhverfisáhrifum og að þjóðin fái þannig að hafa áhrif á ákvarðanir sem varða þessa umdeildu virkjun. Það er ekki sæmandi að ræða mikilvæg mál með þessum ómálefnalega hætti. Þetta eina framlag hans til umhverfismála í stefnuræðunni er sorglegt dæmi í þróun stjórnmálaumræðu hér á landi sem brýnt er orðið að breyta.

Í upphafi ræðu sinnar sagði hæstv. ráðherra réttilega að efnahagsmálin hefðu verið nokkuð til umræðu að undanförnu og sagði að Íslendingar hefðu ekki í annan tíma búið við hagfelldari þróun efnahagsmála. Um það eru flestir sammála og að þessi jákvæða þróun hefur sannarlega skilað sér í auknum kaupmætti sem hefur aukist um allt að 20% á síðustu fjórum árum. Hann nefndi hins vegar ekki að um er að ræða meðaltalshækkun kaupmáttar. Hluti launafólks hefur fengið miklu meira, aðrir hafa fengið miklu minna. Það er mjög varasamt að einblína á meðaltal þar sem tekjuskiptingin í landinu er afar ójöfn. Þeir hópar eru til sem í litlu eða engu hafa notið þessa hagsældartímabils, t.d. það fólk sem er á allra lægstu taxtalaunum, ásamt þeim sem fá laun sín í gegnum almannatryggingakerfið, ellilífeyri og örorkulífeyri. Kannanir sýna að á meðal þessa fólks eru stórir hópar sem búa við hreina fátækt og það ástand er ekki líðandi.

Þjóð sem skipar sér á bekk með ríkustu þjóðum heims getur ekki látið það spyrjast um sig að ekki sé tekið á þessu vandamáli og kjör þessa fólks bætt. Í stefnuræðunni bólaði ekki á neinum vilja til að ná fram réttlátari tekjuskiptingu. Reyndar held ég að orðin réttlæti, jöfnuður, samhjálp eða samábyrgð, hafi aldrei komið fyrir í ræðunni, líklega vegna þess að þau eru ekki fyrirferðarmikil í stefnu Sjálfstfl.

Hæstv. forsrh. fjallaði aðeins um þær verðhækkanir sem orðið hafa að undanförnu og eru að naga af kaupmættinum. Hann nefndi sem dæmi mikla hækkun á bensíni og olíu sem hann sagði ekki tilkomna hér á landi heldur erlendis. Það vita þó allir að hægt er að draga úr þessari hækkun með því að lækka álögur ríkisins, en það er ekki sama hvernig að því er staðið.

Og svona í framhjáhlaupi sagði hæstv. ráðherra að lóðaskortur hefði ýtt undir hækkun á fasteignaverði og þar með var það mál afgreitt. Ekki orð um áhrif breyttrar húsnæðislöggjafar og mikils fólksflótta frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar. Hann nefndi ekki í ræðu sinni gömul fyrirheit um byggðastefnu og jöfnun námskostnaðar og ekki er hægt að segja að mikil reisn sé yfir málflutningi hæstv. ráðherra um menntamál sem þó geta skipt sköpum um framþróun í atvinnulífinu.

[20:45]

Ríkisstjórnin boðar að persónuafsláttur hjóna verði að fullu millifæranlegur. Aðgerð sem koma á til framkvæmda á fjórum árum og er ekki mjög kostnaðarsöm. Ég hlýt að spyrja hvort ekki sé jafneðlilegt og ætti að hafa forgang að ónýttur persónuafsláttur barna, 18 ára og yngri, nýtist foreldrum sem hafa tekjur undir ákveðnu marki eða, það sem væri réttlátara, að barnabætur væru hækkaðar og greiddar út til 18 ára aldurs.

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir kosningar í vor vöruðu frambjóðendur Samfylkingarinnar við þenslu í efnahagskerfinu sem valdið gæti verðhækkunum og verðbólgu. Nú hefur komið í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur. Ástæður ofþenslu eru margar og við sumar þeirra ráða stjórnvöld illa. Aðrar eiga hins vegar rætur að rekja til mistaka í hagstjórninni, rangra ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Aðhald í ríkisfjármálum hefur verið of lítið og skipulagsbreytingar í bankakerfinu voru vanhugsaðar og verkuðu beinlínis útlánahvetjandi. Þá leiddu breytingar á húsnæðislánakerfinu til spennu á fasteignamarkaði og hækkandi fasteignaverðs.

Skattalækkanir sem ríkisstjórnin ákvað á tímum uppsveiflu og aukinnar einkaneyslu hljóta að vera umdeilanlegar, ekki síst í ljósi þess að þær skiluðu sér fyrst og fremst til þeirra sem hafa háar tekjur. Fólk með svokallaðar millitekjur og láglaunafólkið fékk lítið eða ekkert að njóta skattbreytinganna. Sérstaklega á það við um ungt fjölskyldufólk með börn sem flest er í þessum millitekjuhópi.

Þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hyggst nú grípa til hefðu átt að vera uppi á borðinu fyrir ári þegar ljóst var hvert stefndi og fyrir lágu aðvörunarorð frá Seðlabanka Íslands. Kosningar voru hins vegar fram undan og stjórnarflokkarnir skelltu skollaeyrum við öllum varnaðarorðum og ákváðu að fela vandann, blekkja þjóðina, í stað þess að sýna ábyrgð og grípa til ráðstafana. Þá lá fyrir að vöxtur þjóðarútgjalda var miklu meiri en ásættanlegt getur talist, skuldir heimilanna höfðu vaxið gríðarlega og mundu vaxa áfram. Hvert prósentustig í hækkun verðbólgu veldur um fjögurra milljarða króna hækkun á skuldum heimilanna. Skuldir fyrirtækja við lánakerfið hafa hækkað úr 73% af landsframleiðslu árið 1995 í 91% núna. Merkin voru skýr og ríkisstjórnin var vöruð við en taldi því miður rétt að blása á allar viðvaranir.

Eitt af þeim stóru málum sem Alþingi hlýtur að taka afstöðu til miðað við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er hvort og þá hvernig staðið verði að sölu og/eða einkavæðingu ríkisfyrirtækja, t.d. Landssímans og ríkisbankanna. Taki Alþingi ákvörðun um að einkavæða þessar mikilvægu stofnanir verður að tryggja dreifða eignaraðild. Umræðan um framkvæmd og sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum sýndi svo ekki verður um villst að mikil þörf er á að móta skýrar leikreglur í þessum efnum. Það er ekki hlutverk ríkisvaldsins, einstakra ráðherra eða áhangenda þeirra að ákveða hverjir fá og hverjir fá ekki að kaupa hlutabréf. Alþingi á að setja nákvæmar leikreglur og tryggja öflugt eftirlit með því að eftir þeim sé farið. Þannig og aðeins þannig getum við komið í veg fyrir frekari hringamyndun, fákeppni eða að hættulega mikil völd safnist á fárra manna hendur.

Samfylkingin hefur lagt fram frv. um breytingar á samkeppnislögum og lögum um Fjármálaeftirlitið sem miða að því að auka sjálfstæði þessara stofnana og möguleika þeirra og heimildir til að viðhalda virku og ströngu eftirliti, enda á það að vera hlutverk stjórnvalda. Íslenskur markaður er tiltölulega lítill og hætta er á verðsamráði og verðstýringu á þeim sviðum þar sem fáir eru ráðandi. Eðlileg samkeppni kemur almenningi til góða og þess vegna er brýnt að styrkja samkeppnislöggjöfina þannig að eftirlitið verði skilvirkt. Stjórnvöld eiga ekki að standa í opinberri umræðu um hvort einstakir eigendur eða kaupendur fyrirtækja eru þeim þóknanlegir eða ekki.

Efnahagsmál, einkavæðing og umhverfismál verða mikið rædd á Alþingi næstu daga og vikur. Efnahagsmálin verða skoðuð í ljósi þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað og hversu skammt er til kjarasamninga. Kröfugerð verkalýðsfélaganna er í mótun og við því að búast að hún taki mið af þeirri launaþróun sem átt hefur sér stað. Þá hlýtur að vera sett fram krafa um leiðréttingu fyrir þá sem ekki hafa fengið réttlátan skerf af góðærinu svokallaða.

Auk þeirra mála sem ég hef nefnt mun Samfylkingin beita sér fyrir umræðu um heildstæða fjölskyldustefnu og leggja fram tillögur þar að lútandi. Okkur ber að byggja upp fjölskylduvænt þjóðfélag en mikið vantar á að það markmið hafið náðst. Pólitík snýst um hvers konar þjóðfélag við viljum skapa, um markmiðin og leiðirnar og forgangsröð verkefna. Viljum við ýta undir óhefta einstaklingshyggju þar sem hver er sjálfum sér næstur og lætur sig lítið varða um kjör annarra? Eða við viljum við vinsamlegt samfélag þar sem ákvarðanir eru teknar út frá réttlátri skiptingu arðsins og fólk lætur sig varða um náungann, afkomu hans og líðan?

Um það snýst pólitíkin, þar skilur á milli stefnu ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar. Ágreiningurinn snýst ekki um hvort reka eigi ríkissjóð með hagnaði eða ekki eða hvort koma eigi í veg fyrir verðbólgu eða ekki. Um þau mál eru allir sammála þó að vissulega séu mismunandi leiðir að settu markmiði. Samfylkingarfólk gleðst yfir góðu gengi fyrirtækja og góðum stjórnendum sem gerð eru skil í sérstökum fréttaþáttum um atvinnulífið. En gleymum því ekki að á bak við velgengni einstakra fyrirtækja standa ekki aðeins hæfir stjórnendur heldur einnig og ekki síður verkafólkið sem þar vinnur. Það er þetta fólk, kjör þess, aðbúnaður og framtíðarmöguleikar sem verða rauði þráðurinn í málafylgju Samfylkingarinnar á Alþingi.

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Já, Alþingi er pólitískur orrustuvöllur og lagasmiðja. Orrusturnar eiga að vera snarpar en þær ekki aðeins að vera skemmtilegar heldur fyrst og fremst málefnalegar. Ómálefnaleg umræða leiðir ekki til traustrar og réttlátrar lagasmíðar.