Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:36:39 (19)

1999-10-04 21:36:39# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sú spurning er áleitin nú í aðdraganda nýrrar aldar hvaða umhverfi stjórnarstefnan mun búa einstaklingum og fjölskyldum á komandi árum verði ekki breyting á. Hæstv. landbrh. svaraði þessari spurningu á þann veg nýverið að við værum á alveg gríðarlegri ferð til fákeppni og samþjöppunar á öllum sviðum atvinnulífsins.

Dreifð eignaraðild er nafnið tómt í munni hæstv. forsrh. því ríkisstjórnin hefur öll á undanförnum árum stuðlað að mikilli eigna- og valdasamþjöppun í þjóðfélaginu. Slík þróun er hættuleg og ógnar heilbrigðri samkeppni. Stjórnarflokkarnir hafa nú opnað leið til þess að eignarhald fjármálastofnana komist í hendur sömu aðila og eru ráðandi á fjölmörgum sviðum atvinnulífsins gegnum stór og öflug einokunar- og fákeppnisfyrirtæki. Það er vísasti vegurinn til samtryggingar og spillingar í þjóðfélaginu sem gengur gegn hagsmunum neytenda og dregur niður lífskjör almennings. Þess vegna er það mikilvægt að Samfylkingin, sem í stefnu sinni setur almannahagsmuni í öndvegi, nýti vel þá kosti sem markaðurinn býður upp á jafnframt því sem við stuðlum að kröftugri samkeppni og neytendavernd.

Sömuleiðis er það hlutverk Samfylkingarinnar að byggja áfram á hinum gömlu gildum jafnaðarstefnu og félagshyggju. Sú stefna felur í sér að hver og einn þjóðfélagsþegn sé jafnmikilvægur þar sem jafnræði og jafnrétti ríkir og möguleikar allra til bættrar afkomu og þátttöku í þjóðfélaginu séu tryggðir. Annars er hætta á að aukin hagsæld og velmegun rati ekki á borð þeirra sem nauðsynlega þurfa á bættum kjörum að halda. Því hefur fátækt fólk, lífeyrisþegarnir, einstæðu foreldrarnir og barnafjölskyldurnar fundið fyrir í tíð þessara stjórnarflokka.

Stefna stjórnarflokkanna þjónar fyrst og fremst nokkrum gífurlega fjársterkum valdablokkum í atvinnulífinu og síðan nokkrum stóreignafjölskyldum. Stjórnarstefnan gengur líka gegn vilja mikils meiri hluta þjóðarinnar um umhverfisvernd á náttúruperlum þjóðarinnar, en forsrh. gefur umhverfisverndarsinnum langt nef og nánast líkir þeim við öfgasinna.

Húsnæðisstefna ríkisstjórnarinnar kyndir undir verðbólguna og gengur gegn hagsmunum íbúðarkaupenda. Og það er grátlegt að sjálfur forsrh. þekkir ekki skýringuna á þeirri húsnæðisneyð sem þúsundir fjölskyldna standa nú frammi fyrir og kennir um lóðaskorti í Reykjavík. Staðreyndin er sú að húsnæðisstefna íhaldsflokkanna hefur bundið unga fólkið enn frekar í fjötra vinnuþrældóms á kostnað fjölskyldulífs og samveru með börnum sínum.

Staðreyndin er líka sú að í dag kostar 1--2 millj. meira en um síðustu áramót að kaupa tveggja til þriggja herbergja íbúð. Ég hef orðið vör við mikla neyð og örvæntingu hjá láglaunafólki. Lokun á félagslega húsnæðiskerfinu hefur rekið fátækt fólk hundruðum saman í biðraðir eftir leiguíbúðum. Algengt er að húsaleigan sem var ærin fyrir hafi nánast tvöfaldast og lágmarkslaunin gangi nú öll til leigusalans. Þessi stefna er grimm, ómanneskjuleg og fjölskyldufjandsamleg. Það er eitthvað mjög mikið að í þjóðfélagi sem býr svona að þeim sem höllum fæti standa.

Andstæðan í stefnu stjórnarflokkanna og Samfylkingarinnar endurspeglast vel í þessari stefnu. Samfylkingin setur jafnrétti allra til launa og lífeyrisgreiðslna í öndvegi í stefnu sinni, að þær hrökkvi fyrir brýnustu nauðþurftum þannig að hver og einn þjóðfélagsþegn geti lifað með fullri reisn.

Góðir Íslendingar. Lítum líka á hvernig tekjuafgangur fjárlaga sem stjórnarflokkarnir guma nú af er m.a. fenginn. Jú, með því að svíkja loforð Framsfl. um barnakort, en þeim fækkar á næsta ári um 2.000 sem njóta barnabóta, ekki vegna þess að fólk hafi það betra heldur vegna þess að skerðingarákvæði barnabóta fylgja ekki tekju- og verðlagsþróun.

Það er líka smánarblettur á þessari ríkisstjórn að á tímum góðæris undanfarin tvö ár hefur fjölskyldum sem njóta barnabóta fækkað um þriðjung en 14 þúsund færri fjölskyldur njóta nú barnabóta en gerðu árið 1997. Vissulega er það líka umhugsunarvert að Ísland er eitt af fáum löndum innan OECD-landanna sem tekjutengir barnabætur og verðtryggir skuldir heimilanna.

Herra forseti. Tekjuafganginn fá stjórnarherrarnir líka með því að svíkja stærsta kosningaloforð Framsfl. um 1.000 millj. til fíkniefnamála. Raunlækkun er á heildarframlögum til að berjast við sölumenn dauðans og fíkniefnavandann.

Boðskapur fjárlaganna til láglaunafólks er sá að eftir að topparnir í þjóðfélaginu hafa baráttulaust fengið allt að 30% launahækkun sé svigrúmið búið. Á fjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 4% hækkun til að bæta kjör hins almenna launamanns. Lífeyrisþegum á síðan samkvæmt fjárlögum að skammta 1--2 þús. kr. hækkun á næsta ári.

Ríkisstjórnin hefur heldur engar áhyggjur af byggðaröskun þótt 7.000 manns hafi á liðnum fjórum árum flust frá landsbyggðinni, en engin aukning er á framlögum til jöfnunar náms- og húshitunarkostnaðar sem lofað var fyrir kosningar.

Góðir áheyrendur. Það er vitlaust gefið í þessu þjóðfélagi og það verður að stokka upp á nýtt. Það er og verður fyrst og fremst hlutverk Samfylkingarinnar á nýrri öld. --- Góðar stundir.