Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:49:31 (21)

1999-10-04 21:49:31# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:49]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Stefnuræða forsrh. var einföld og skýr. Stjórnarflokkarnir eru að ganga inn í sitt annað kjörtímabil. Saman hafa þeir náð ótrúlegum árangri í stjórn efnahagsmála og munu halda áfram að stýra þjóðarskútunni af festu og öryggi ef stjórnarandstaðan og fólkið í landinu truflar það ekki.

Það geta örugglega allir tekið undir það markmið að skila fjárlögum með rekstrarafgangi. 15 milljarða kr. tekjuafgangur í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 er sannarlega gott veganesti inn í nýja öld. Ég hefði viljað sjá fjárlagafrv. með hærri tekjum ríkissjóðs í formi hátekjuskatts og skatts á fjármagnstekjur til að hafa meira fé til ráðstöfunar í aðgerðir til jöfnunar á afkomu- og búsetuskilyrðum fólksins í landinu.

Um einstaka liði fjárlagafrv. munum við takast á hér á hinu háa Alþingi því að í gegnum fjárlögin speglast skoðanamunur okkar um álagningu skatta og þátt ríkisins í velferðarþjónustunni. Fram undan eru kjarasamningar og almennir launþegar sem lögðu sitt af mörkum til skapa þetta margumtalaða góðæri gera körfu um að fá eitthvað af framlagi sínu til baka. Ríkið getur gefið tóninn í komandi kjarasamningum og jafnað launamun kynja og hækkað verulega laun svokallaðra kvennastétta, þ.e. við uppeldis- og umönnunarstörf. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum ekki tilbúin til að selja hvað sem er til þess eins að fá inn hærri tekjur í ríkissjóð og má þar m.a. nefna sölu heilsufarsupplýsinga íslensku þjóðarinnar í einn gagnagrunn.

Framlög til löggæslumála, heilbrigðismála og fræðslumála hafa á undanförnum árum verið langt undir því sem þessir málaflokkar hafa þurft til að standa undir eðlilegri þjónustu og nútímakröfum. Því er eðlilegt að framlög til þessara málaflokka hækki nú milli ára en það á eftir að koma í ljós hvort áætluð framlög dugi til að byggja upp þá þjónustu sem hefur liðið fyrir fjárskort undanfarin ár. Vegna íbúaþróunar síðustu ára og veikrar stöðu margra landsbyggðarhluta kemur skerðing á opinberri þjónustu verr niður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf meira en að halda í horfinu, það þarf að byggja upp, sérstaklega heilsugæslu, fjórðungssjúkrahúsin og framhaldsskólana. Ef heilbrigðisþjónusta og menntunarmöguleikar eru ekki til staðar nálægt heimabyggð halda búferlaflutningarnir áfram með öllum þeim erfiðleikum sem slík kollsteypa á búsetu þjóðarinnar hefur í för með sér. Ef koma á Íslandi í fremstu röð í menntamálum, og við berum okkur saman við hið besta sem völ er á, eins og fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh., þá megum við sannarlega bretta upp ermarnar á öllum skólastigum. Það sama má segja um landbúnað og smábátaútgerð. Ef ekki verður gert meira en að halda í horfinu þá mun byggð halda áfram að grisjast með þeirri keðjuverkun sem við þekkjum í öllum þéttbýliskjörnum landsins.

En hagvöxtur er ekki eini mælikvarðinn á velferð þjóðarinnar því verðbólgan er önnur hlið á sama teningi og sá teningur fór að velta þegar á síðasta ári. En vegna kosninganna í vor var slegið á allar aðvaranir til að styggja ekki kjósendur. Eignatilfærsla hefur orðið gífurleg á undanförnum árum. Á fáum árum hefur orðið til stór hópur mjög auðugs fólks og jafnframt hefur bilið milli ríkra og fátækra breikkað. Leikreglur samfélagsins eru hinum auðugu í hag og fjármálamarkaðurinn, kvótabraskið, samruni fyrirtækja og sala og einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur safnað auði á fárra hendur.

Herra forseti. Það hefur slegið við nýjan tón hjá stjórnarliðinu í upphafi þings, bæði á stuttu sumarþingi og nú á haustdögum. Menn virðast vera orðnir nokkuð öruggir með sig og leita ekki lengur sátta við stjórnarandstöðu varðandi styrkingu á lýðræðislegum vinnubrögðum. Þetta kom fram í vor þegar stjórnarandstöðunni var ekki gefinn kostur á formennsku í einhverjum af fastanefndum þingsins, eins og verið hafði á síðasta kjörtímabili, og eins nú við skipan nefndar til að ná sáttum um fiskveiðistjórnarkerfið. Í nýrri ríkisstjórn hafa verið gerðar breytingar á valdsviðum nokkurra málaflokka og því miður virðist umhvrn. helst líða og veikjast við þessar aðgerðir. Hagvöxtur er ekki eina mælistikan á velferð einnar þjóðar því fórnarkostnaður áframhaldandi hagvaxtar getur orðið meiri en tímabundinn gróði, þ.e. að við séum að fórna meira fyrir minna þegar litið er til framtíðar.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð endurflutti þáltill. um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar á stuttu sumarþingi. Málinu var vísað til umhvn. og frekari umsagnar. Við munum endurflytja tillöguna í þeirri von að hún fáist samþykkt og gerð verði sú lagabreyting sem til þarf til þess að hægt verði að viðhafa nútímaleg vinnubrögð við svo mjög umdeildar virkjanaframkvæmdir.

Hæstv. forsrh. talaði í ræðu sinni um þá sátt sem ríkt hefur í landinu um nauðsyn þess að ganga gætilega um viðkvæmt lífríkið og það gangi þvert á hagsmuni Íslands að falla fyrir öfgum umhverfissinna. Öfgar og offors er ekki líklegur farvegur til að ná sáttum og þá á ég við báða deiluaðila. Lögin um mat á umhverfisáhrifum er eina tækið sem við höfum til að ná sáttum meðal þjóðarinnar um virkjanaframkvæmdir, þ.e. staðsetningu og stærð uppistöðulóna, þar með talið Fljótsdalsvirkjunar. Allt tal um sættir án þess að fram fari mat á umhverfisáhrifum er hin hliðin á öfgum og offorsi. Menn hafa fyllilega rétt á því að fylgja sannfæringu sinni ef þeir hafa skipt um skoðun eftir að hafa fylgst með umhverfisvakningu umheimsins á undanförnum árum. Undirskrift Kyoto-bókunarinnar er af sama meiði. Með því að standa ekki að bókuninni getur verið að við fórnum meira fyrir minna.

Herra forseti. Ég hef komið inn á nokkra þætti í stefnuræðu hæstv. forsrh. en tímans vegna er ekki hægt að fara yfir áherslur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við munum gera okkar til þess að á yfirstandandi þingi verði virk stjórnarandstaða, gagnrýnin og komi fram með mál sem eru þjóðinni til heilla.