Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 21:56:42 (22)

1999-10-04 21:56:42# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[21:56]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Vissulega er það svo að hagvöxtur hefur verið meiri nú í nokkur ár en við höfum áður átt að venjast. Afkoma ríkissjóðs er góð eins og kemur fram í frumvarpi því til fjárlaga sem þingmönnum var afhent sl. föstudag. Greint hefur verið frá því að skuldir ríkissjóðs verði greiddar verulega niður á næsta ári. Það er fagnaðarefni að þannig verði byggt upp fyrir framtíðina, um það hljótum við að vera sammála hvar í flokki sem við stöndum.

Okkur í Frjálslynda flokknum finnst við hafa orðið fyrir nokkuð sérstakri reynslu að undanförnu. Hún birtist í því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að við værum litlir, nánast örsmáir. Helst virðist sem svo að þeir álíti að þeir geti hrasað um okkur ef við værum nálægt þeim vegna þess að þeir yrðu okkar ekki varir. Merkilegt það. Þessi afstaða ráðherra ríkisstjórnarinnar birtist í ýmsum myndum, nú síðast í því að hið svokallaða sáttastarf við endurskoðun frjálsa kvótabraskskerfisins er kirfilega kortlagt á breiðvegi brasksins inn í framtíðina.

Hæstv. forsrh. hefur að undanförnu lýst áhyggjum sínum af fákeppni á matvörumarkaði og óttast ofurvald fárra á fjármálastarfsemi. Undir þau sjónarmið hans get ég tekið en undrast jafnframt að ekki skuli vikið orði að því sem gerist í samþjöppun valds og eigna í sjávarútvegi og áhrifum þess fyrir framtíð byggðanna víða um land. Við höfum öll heyrt fréttir af högum fólks í sjávarbyggðum Vestfjarða og nú síðast frá Hrísey og Ólafsfirði. Nú er svo komið að svo til öll bolfiskvinnsla á Skutulsfjarðareyri í Ísafjarðarkaupstað er hætt. Fyrir rúmri viku voru sex fiskvinnsluhús á Ísafirði auglýst til sölu á einum og sama degi á síðum Morgunblaðsins.

Ég segi það hreint út að flestir Vestfirðingar --- að vísu ekki allir --- hafa áhyggjur af atvinnumissi, sölu kvótans af svæðinu, auðum húsum sem seljast ekki, minnkandi tekjum fólks og sveitarfélaga, mitt í öllu góðæristalinu og þenslunni sem er vissulega á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Mér finnst að með stefnu sinni í kvótabraskskerfinu sé ríkisstjórnin að láta lagalega verndaða samkeppni kvótaeigenda ná heljar- og kyrkingartökum á byggðum landsins.

Herra forseti. Ég hef aldrei verið andvígur því að fólk og fyrirtæki geti grætt en það sem nú er að gerast í kjölfar gjafakvótans til fárra Íslendinga verður aldrei réttlætt fyrir alþýðu manna.

Hæstv. forsrh. vék í ræðu sinni að einkavæðingu viðskiptabankanna. Þar tel ég að við eigum að fara okkur hægt og ekki eigi að svo stöddu að selja fleiri bankastofnanir. Hlutafélagaformið ætti að vera nægileg trygging fyrir samkeppnisrekstri ríkisbankanna. Hvers vegna má ekki ríkissjóður eiga fyrirtæki sem skila arði árlega í ríkissjóð?

[22:00]

Sú umhverfisumræða sem átt hefur sér stað hér á landi sýnir að engum er lengur sama þegar landnýting er fyrirhuguð undir mannvirki eða nýja vegi. Eðlilegast væri að umhverfismat réði landnýtingu en þegar slíkt mat liggur fyrir er ekki réttlætanlegt að hefta framgang mála enda farið að lögum. Sakir standa svo vegna Fljótsdalsvirkjunar að mjög óráðlegt er að hefjast þar handa án þess að umhverfismat fari fram. Annað væri að misbjóða viðhorfi þorra manna og bjóða hættunni heim. Ég vil hins vegar vara við að hefja jafnfáránlegt og misskilið náttúruverndartal og átti sér stað í svokallaðri rauðbrystingaumræðu þegar vegarlagning yfir Gilsfjörð var til umræðu fyrir nokkrum árum.

Ég vil einnig halda því fram að ofverndun sjávarspendýra valdi okkur vaxandi skaða með hverju ári sem líður og við látum hræða okkur frá veiðum og eðlilegri nýtingu þeirra. Það er ekki sjálfgefið að fæðukeðjan í hafinu hér við land sé ávallt nægilega góð til fæðu á uppvaxandi fiskstofnum. Það er líka vissara fyrir okkur að forðast að halda því fram að hér sé afburðamarkviss fiskveiðistjórnun. Það er ekki hægt að lesa út úr skýrslum Hafrannsóknarstofnunar.

Ekki leikur á því minnsti vafi að standa þarf vel að verki við endurskoðun á búvörusamningi og tryggja afkomu bænda ef íslenskur landbúnaður og dreifð byggð á að halda velli.

Ég get vel tekið undir lokaorð hæstvirts forsætisráðherra um að hafa pólitískar orrustur snarpar en varla verður það nein skemmtiræða sem nú blasir við fólki í sjávarbyggðum. Lagasmíðina sem þeim vanda olli mætti að skaðlausu vanda betur ef traust fólksins til búsetu á landsbyggðinni á að vaxa á nýjan leik.