Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 22:15:59 (25)

1999-10-04 22:15:59# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[22:15]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á fyrstu áratugum þessarar aldar töldust Íslendingar í hópi fátækustu þjóða Evrópu. Nú í lok aldarinnar, aðeins nokkrum áratugum síðar, hefur sú breyting orðið á að Íslendingar teljast ekki aðeins meðal ríkustu þjóða Evrópu heldur meðal ríkustu þjóða allrar veraldar. Þetta er góður árangur, herra forseti. Þetta er í rauninni ótrúlegur árangur. Og það sem meira er, að nú við aldahvörf blásum við enn til sóknar til frekari velsældar fyrir íslenska þjóð. Þetta er ánægjuleg staða jafnvel þó nokkrar hjáróma raddir hv. stjórnarandstæðinga reyni að sannfæra okkur um annað.

Þrátt fyrir þessa ánægjulegu stöðu þá eru víða úrlausnarefni sem blasa við í samfélagi okkar. Enginn vafi leikur á að mesta ógn við íslenskt samfélag í dag er fíkniefnaváin. Sölumenn dauðans svífast einskis til að koma eitri sínu á framfæri. Við heyrum óhugnanlegar fréttir af allt að niður í tólf ára fórnarlömbum þessara baróna. Börn, unglingar, fólk á öllum aldri verður fórnarlömb eitursins. Þessi óvelkomni gestur stingur sér niður hvar sem er, hvenær sem er, óháð efnahag eða stétt. Hverju fórnarlambi fylgir fjölskylda, ættingjar og vinir sem engjast í hjörtum sínum af uggi yfir heljartökum eiturlyfjanna á ástvinum sínum.

Ég fullyrði að eiturlyfjaváin er mesta vandamál íslensks samfélags í dag. Þess vegna gerði Framsfl. það að einu stærsta kosningamáli sínu í síðustu alþingiskosningum. Það má hins vegar öllu sanngjörnu fólki vera morgunljóst að hvorki Framsfl. né nokkur annar stjórnmálaflokkur, eða þeir allir til samans, leysa þetta mikla vandamál einir og óstuddir. Framsóknarmenn hafa hins vegar bent á vandamálið sem brýnt úrlausnarefni samfélagsins alls. Hér þurfa allir að taka höndum saman með þann fasta ásetning að útrýma eiturlyfjum úr samfélagi okkar.

Herra forseti. Hvað veldur því að einstaklingur ánetjast fíkniefnum? Ekkert einfalt svar er við þeirri spurningu enda hún viðkvæm og vandmeðfarin. Um er að ræða marga samverkandi þætti. Ég leyfi mér að halda því fram að rótin sé agaleysi í samfélaginu öllu. Ég leyfi mér að halda því fram að manngildi samfélagsins hafi að sumu leyti vikið fyrir auðgildi og veraldlegu gildismati. Afleiðingin er sú að hér ríkir um margt upplausn og rótleysi. Með sanni má segja að gömul og traust gildi fjölskyldunnar hafi látið undan velmegun og hagsæld.

Þetta hefur gerst smám saman, ekki vísvitandi eða meðvitað, fremur sem hægfara þróun þar sem andvaraleysi hefur verið ráðandi. Til allrar hamingju bendir flest til þess að þjóðin sé að vakna upp við vondan draum og vilji bregðast við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur á þessu sviði. Ég bendi m.a. á átakið ,,Reykjanesbær á réttu róli``. Ég nefni árangursríkar aðgerðir lögreglu og tollgæslu á síðustu vikum og dögum. Ég nefni störf vímuvarnaráðs og ég nefni þá ákvörðun ríkisstjórnar á síðustu tveimur til þremur mánuðum að verja hátt í 200 millj. kr. í þessu skyni.

Síðast en ekki síst hljótum við enn fremur að vænta mikils af því nefndarstarfi sem Jónína Bjartmarz, fyrrverandi formaður samtakanna Heimilis og skóla, stýrir fyrir ríkisstjórnina, þar sem fulltrúar sex ráðuneyta samhæfa aðgerðir sínar. Nefndinni er ætlað að skila markvissum tillögum fyrir 1. nóv. nk. Ríkisstjórnin hefur með öðrum orðum þegar, þó skammt sé liðið frá kosningum, hreyft duglega við þessu mikilvæga máli.

Herra forseti. Við skulum hins vegar hafa það hugfast að stjórnvaldsaðgerðir einar og sér munu aldrei duga til að uppræta fíkniefnavandann. Hér þurfa heimili, skóli og samfélagið allt að tala saman í þeim einarða ásetningi að kveða niður fíkniefnavána sem nú steðjar að. Við þurfum hugsanlega að endurskoða forgangsröðun í störfum okkar hér innan veggja, á heimilum, í skólum, fyrirtækjum og samfélaginu öllu. Við þurfum að skerpa á viðmiðum öllum og aga, ekki síst sjálfsaga og sýna í verki viljann til að fylgja þeim aga eftir. Aðgerðir ríkisstjórnar eru upphaf þess og táknrænar. Þetta er líklega brýnasta verkefni samfélagsins í dag þegar atvinnu- og efnahagsmál standa í þeim blóma sem raun ber vitni.

Herra forseti. Ísland er eyríki. Við eigum með samstilltu átaki allra að geta orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að útrýma þeirri óværu sem fíkniefni eru á landi okkar. Fíkniefnalaust Ísland á að vera það markmið sem við setjum okkur með auknum aga í samfélaginu öllu, styrkri tollgæslu og löggæslu og hörðum dómum gegn sölumönnum dauðans. Það er verðugt verkefni okkar alþingismanna og annarra í þjóðfélaginu. Það er verkefni sem teygir sig langt upp fyrir alla flokkadrætti. Stríðið gegn sölumönnum dauðans er hafið og þeim á enga miskunn að sýna. --- Ég þakka áheyrnina.