Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 22:22:36 (26)

1999-10-04 22:22:36# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, JB
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[22:22]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Nú flytur ein fimm manna fjölskylda á dag að jafnaði búferlum til Stór-Reykjavíkursvæðisins. Fólksfækkunin úti á landsbyggðinni heldur áfram af fullum þunga. Þetta er óheillavænleg þróun sem öll þjóðin tapar á. Um leið og hinar dreifðu byggðir missa fólk tapa þær lífskrafti sínum og visna upp. En á sama tíma og hús standa tóm vítt og breitt um landið er húsnæðisskortur og umferðaröngþveiti á suðvesturhorninu. Þar ríkir eins konar landnemaástand með miklum fórnarkostnaði fyrir samfélagið allt sem enginn óskar eftir.

Það getur verið rétt að beita sértækum aðgerðum í einstökum byggðarlögum eða atvinnugreinum en heildarmyndin breytist ekki við það eitt. Það þarf fyrst og fremst almennar aðgerðir sem ná beint til einstaklinganna, beint til fólksins sjálfs sem tekur sínar eigin ákvarðanir án milligöngu stofnana, nefnda eða ráða.

Herra forseti. Við verðum að rétta samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar. Eins og nú er ástatt bitnar skattlagning ríkisins mun harðar á þeim sem búa úti á landi og þurfa að keyra langar vegalengdir til að sinna daglegum skyldum sínum og sækja nauðþurftir. Kannanir Hagstofunnar sýna að fólk í dreifbýli eyðir miklum mun meira í rekstrarkostnað bifreiða sinna og þar af leiðandi greiðir landsbyggðarfólk miklum mun meira í skatt til ríkisins, en bifreiðaskattar og gjöld eru einir aðaltekjustofnar ríkissjóðs. Hluti af þessum fjármunum kemur aftur út á land sem vegir og vegabætur en meginhlutinn verður eftir í ríkiskassanum.

Þessir skattar á samgöngur og flutninga leiða af sér hærra vöruverð og minni kaupmátt fyrir landsbyggðarfólk. Hér er hreinn og klár aðstöðumunur sem kemur einnig fram hjá fyrirtækjum úti á landi sem búa við lakari samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar og hærri skatta. Þennan mun er aðeins hægt að leiðrétta með því að veita heimilum og fyrirtækjum úti á landi sérstakan skattfrádrátt sem bætir fyrir þessa ójöfnu skattlagningu. Aðeins þannig getur landsbyggðin keppt á jafnréttisgrunni við suðvesturhornið um fólk og fjármagn. Þessa leið til jöfnunar ber að reyna.

Við þurfum að leggja stóraukna áherslu á menntun og við verðum að mennta fólkið inn í samfélagið en ekki út úr því. Það þarf að færa framhaldsmenntunina og tæknimenntunina heim í byggðarlögin. Til greina gæti komið að stytta framhaldsskólann í þrjú ár og hafa kjarna hans almennan en tengja námið annars umhverfi, atvinnu og menningarlífi heimabyggðarinnar. Að því námi loknu tækju sérskólar, tækni- og háskólar, við. Það þarf að hefja sérskólana til vegs og virðingar. Fjölbrautaskólar úti um land eiga að efla tækninám sem atvinnulífið í viðkomandi byggðarlögum tekur fullan þátt í.

Þetta er vel mögulegt. Um land allt er fjöldi ungs fólks sem ekki hefur fundið neitt við sitt hæfi í menntakerfi landsins. Til þessa fólks verðum við að ná. Fjarkennsla styrkir nám út um hinar dreifðu byggðir og ber að efla. En blekkjum okkur ekki. Hún getur aldrei komið í stað reglubundins náms. Menntun og þekkingariðnaður verður að byggjast upp og þróast vítt og breitt um landið í forsjá heimafólks en ekki þjappast á örfáa staði á landinu og vera rekin þaðan jafnvel eins og nýlendustefna gagnvart hinum dreifðu byggðum.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að skilið sé á milli beinna búsetutengdra aðgerða og þeirra sem snúa beint að rekstrarumhverfi einstakra atvinnugreina. Það ber að skoða bein búsetutengd framlög í einstaka héruðum og sveitum óháð þeirri framleiðslu eða atvinnu sem stunduð er. Með því stöndum við vörð um fulla byggð um land allt og þá samfélagslegu auðlind sem í henni felst.

Góðir Íslendingar. Gera þarf stórátak í að bæta ástand sveitaveganna. Hér er um að ræða safn- og tengivegi sem eru leiðir skólabarna í daglegum akstri og lífæðar heilla atvinnugreina til flutninga og aðdrátta. Ég nefni þessa vegi sérstaklega því að þeir gleymast svo oft.

Hæstv. forsrh. drap á margt sem gera mætti til búsetujöfnunar og í byggðaáætlun finnast fögur fyrirheit. En orðin duga skammt ef litlar gjörðir fylgja. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mun í upphafi þessa þings leggja fram tillögur um róttækar og djarfar bráðaaðgerðir í byggðamálum sem við treystum á breiðan stuðning við. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð krefst tafarlausra aðgerða í byggðamálum. --- Góðar stundir.