Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Mánudaginn 04. október 1999, kl. 22:28:41 (27)

1999-10-04 22:28:41# 125. lþ. 2.1 fundur 28#B stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 2. fundur, 125. lþ.

[22:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan þegar hann var að tala um fiskvinnslu og verðmæti aflans, að við ættum að fá sem hæst verð fyrir aflann. Um það get ég verið honum sammála. En þar komum við einmitt að miklu deilumáli sem lítið hefur verið rætt og ég ætla að gera hér aðeins að umtalsefni.

Deilumálið snýst um verðmyndunarkerfi í sjávarútvegi. Það snýst um þá forgjöf sem þeir sem kvótann hafa, hafa í þeim viðskiptum. Menn geta leigt frá sér aflaheimildir fyrir 100 krónur kílóið í þorski og þeir geta notað þá peninga til þess að fara inn á fiskmarkaðina og kaupa þar fisk í samkeppni við fiskvinnslu sem ekki gerir út skip.

Það er ekki með nokkrum sanni hægt að segja að í þessum geira starfi menn eftir eðlilegum samkeppnisskilyrðum. Það var búin til forgjöf fyrir þá sem kvótann fengu á sínum tíma og þeir búa að því þegar þeim býður svo við að horfa að geta nánast drepið niður þær fiskvinnslur aðrar sem sækja hráefni sitt inn á fiskmarkað. Þar fyrir utan er verðmyndunarkerfið svo ófullkomið að þeir sem búa við svokallaða fasta fiskverðsamninga eru e.t.v. að fá um 60 kr. fyrir þorskkílóið þegar markaðirnir eru að borga allt upp í 160 kr.

[22:30]

Það er ekki hægt að tala um að hér á landi eflist fiskvinnsla undir þessum kringumstæðum. Eingöngu þeir sem hafa fengið úthlutað aflaheimildunum geta nýtt þær sér til fjáröflunar, geta nýtt þær til að búa til óeðlilega samkeppni og til að gera það að verkum að þeir sem vilja og hafa, hæstv. sjútvrh., verið að búa til langmest verðmæti úr afla hér á landi --- þeir sem kaupa fiskinn af mörkuðunum --- hafa ekki samkeppnisstöðu á við hin fyrirtækin.

Ég skora á sjútvrh. að láta skoða hvernig kaupin gerast á eyrinni að þessu leyti, hvernig stórfyrirtækin leigja stundum frá sér hundruð tonna af fiski og kaupa síðan í samkeppni við fiskvinnslur á fiskmörkuðunum og stjórna verðmynduninni. Þetta eru ekki eðlileg samkeppnisskilyrði, hæstv. sjútvrh.

Fasteignir fólks víða á landsbyggðinni eru nú verðlitlar og seljast samt sem áður ekki. Þar er sjónarhorn fólks á góðærið allt annað en hæstv. forsrh. lýsti í ræðu sinni fyrr í kvöld. Kjör og framtíðarsýn landsbyggðarfólks er víða frekar döpur þrátt fyrir góðæri á heimili ríkisstjórnarinnar. Fólkið í sjávarbyggðum óttast að kjölfestan, fiskkvótinn og skipin verði seld í burtu. Þessi ótti er ekki ástæðulaus --- það sýna dæmin.

Við höfum lengst af haft tvenns konar kvótakerfi í fiskveiðum, kvótakerfi stærri skipa og kvótakerfi svokallaðra smábáta undir 6 tonnum. Mörg byggðarlög hafa á ný náð vopnum sínum eftir að skip hafa verið seld úr byggðinni með því að dugandi sjómenn hafa róið á smábátum frá þeim stöðum sem misstu nánast allan atvinnurétt með sölu kvótans úr byggð.

Í gildandi lögum um smábáta er búið að festa það ákvæði að þær tegundir sem áður hafa verið smábátum frjálsar skuli verða verslunarvara. Nógu alvarlegar afleiðingar hafa orðið af sölu kvóta úr byggð í stóra kerfinu. Hvað halda menn að gerist þegar verðmæti smábátakvótans fer upp og kemur líka á trillurnar í öllum fisktegundum sem þeir sjómenn veiða? Eru líkur á að einstaklingur sem allt í einu fær gylliboð um að selja trilluna sína og fiskikvótann fyrir 100--160 millj. standist þær freistingar? Eru líkur á að þær byggðir sem hafa náð vopnum sínum með útgerð smábáta muni standa af sér þær hremmingar sem eru í lögunum um stjórn fiskveiða smábáta í dag? Þetta ákvæði á að koma að fullu til framkvæmda 1. september á næsta ári. Það er nánast grín, hæstv. sjútvrh., að tala um að við séum að ná sáttum meðan við erum að auka verslun í kerfinu, jafnumdeilt atriði og það er í núverandi lögum. Það er nánast grín.

Forseti Íslands ræddi í þessum sal við setningu Alþingis um hve varhugavert væri að veikja byggð frekar en orðið er. Hann minnti á rétt fólksins til að búa og starfa þar sem það vill búa. Vonandi verða þessi orð ráðherrum ríkisstjórnarinnar til umhugsunar og eftirbreytni á næstu missirum þó það verði ekki ráðið af orðum þeirra hér í kvöld.