Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 14:53:22 (36)

1999-10-05 14:53:22# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[14:53]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi misheyrst eitthvað varðandi orð mín um efnahagsástandið. Ég held að ég hafi ekki borið Milton Friedman fyrir mig á einn eða neinn máta. Ég held að ég hafi ekki vitnað til hans og ég ætla ekki að fara í einhverjar söguskýringar varðandi þau mál.

En 15 milljarðar eru eins og ég kom að áðan umtalsverður afgangur. Ef hann næst, ef það er gert á raunhæfan máta. Ég efaðist hins vegar um að hann næðist á þann máta, ég efast um að raunhæft sé að ætla öryrkjum og öldruðum að fá 4% launahækkun á sama tíma og stórir hópar í þjóðfélaginu hafa fengið frá 16% upp í 50% launahækkun. Ég taldi þingmenn þar með.

Ég nefndi líka að Kjaradómur og launanefnd hefðu átt hlut að þessum samningum, almennum og aðlögunarsamningum og ég tel ástæðu til að nefna það við hæstv. fjmrh. að hann feli Kjaradómi að taka sig til og skoða laun og bætur sem falla í hlut þessara hópa, meta hver raunverulega talan ætti að vera svo þetta fólk komist betur af en öldungarnir margir eru að gera í dag. Þeir eru að skríða yfir mánaðamótin á yfirdráttarreikningum, með yfirdrátt. Öldungar sem jafnvel hafa 16 þús. kr. röskar í dagpeninga. Þeir eru með yfirdrátt til að sleppa milli mánaða. Haldið þið að þetta sé einhver hemja? Haldið þið að ekki sé ástæða, herra forseti, til að bæta þar úr?