Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 14:57:17 (38)

1999-10-05 14:57:17# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir athugasemdirnar. Ég get verið sammála um að gott sé að atvinnuástandið á Íslandi skuli hafa lagast. Ég fagna því mjög fyrir hönd öryrkja og fatlaðra, fyrir hönd þeirra sem hafa fengið störf. Ég vil benda á að á svonefndum vernduðum vinnustöðum vinnur fólk allan heila daginn fyrir nokkur þúsund kr. á mánuði. Ég kalla það nokkur þúsund kr. á mánuði þó vissulega sé gott að það skuli hafa vinnu.

En það er margt að í þessum málum, hv. þm., sem ég vildi nú gjarnan ræða í annan tíma en núna. Ég hef ekki undirbúið mig nægjanlega vel fyrir umræðu um atvinnumál öryrkja og fatlaðra. Þar þurfum við að taka miklu betur á. En ég fagna því að Atvinnuleysistryggingasjóður skuli standa betur. Það eru auðvitað bara hreinar tekjur í ríkissjóð sem renna þangað inn þegar ekki þarf að halda fólki á bótum vegna atvinnuleysis.

Við getum alveg verið sammála um að aukin afgangur hjá ríkissjóði er til þess að hamla á móti verðbólgu. Ég held að ég hafi farið mjög skýrt yfir það í máli mínu, hvað ég teldi verðbólguhvata og bar fyrir mig að hafa lært af hagfræðingum. Þetta var ekkert heimadæmi sem ég sem ég rakti hér upp. Ég tel að það sé verið að vinna að þessu á réttan máta. En að hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar eigi heiðurinn, þar er ég ekki sammála hv. þm. því að stór hluti af breytingunum er vegna ytri aðstæðna.