Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 15:45:35 (48)

1999-10-05 15:45:35# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Margt hefur verið athyglisvert í skoðanaskiptum, bæði í fjárlagaumræðunni í dag, 1. umr. um fjárlög, og eins í gærkvöldi þegar stefnuræða forsrh. var til umfjöllunar. Þetta er það tvennt, herra forseti, sem við höfum afrekað það sem af er þinginu fyrir utan venjuleg aðalfundarstörf, ef svo má að orði komast, þ.e. að kjósa forseta og annað því um líkt.

Ég hef sérstaklega tekið eftir einu og það eru nokkuð áleitnar ástarjátningar stjórnarliða í garð hvers annars. Greinilegt er að gerð hefur verið samþykkt á stjórnarheimilinu um að lappa upp á hjónabandið og gott ef þeir hafa ekki leitað sér ráðgjafar og talað hefur verið á milli þeirra því að þetta er svo vel skipulagt. Það vakti alveg sérstaka aðdáun og athygli þegar hæstv. heilbrrh. fór með fagrar ástarjátningar í garð forsrh. og fjmrh. og lýsti því í gærkvöldi hvað þessi tveir heiðursmenn hefðu staðið einstaklega við bakið á sér á erfiðum tímum og stutt sig í hvívetna þegar vandi hefði verið uppi í heilbrigðismálum og vantað hefði peninga í þetta og hitt. Aðra eins afbragðsmenn og stuðningsmenn hafði hæstv. heilbrrh. sjaldan eða aldrei fyrirhitt.

Þeim mun erfiðara er að skilja þann fjárhagsvanda og þrengingar og þær kröggur sem hæstv. ráðherra hefur engu að síður, þrátt fyrir bandamennina sem eru nú ekki valdalitlir, þ.e. fjmrh. hæstv. og forsrh., samt hefur þetta gengið svona hjá hæstv. ráðherra með heilbrigðismálin.

Síðan komu miklar ástarjátningar frá hæstv. fjmrh. sem gekk í vörnina fyrir Framsfl. og sagði að það væri alls ekki maklegt að segja að Framsfl. stæði ekki við öll kosningaloforð sín. Það mundi hann svo sannarlega gera og þetta kæmi allt saman í áföngum á kjörtímabilinu á fjórum árum. Þetta eru athyglisverð hlutverkaskipti að þeir bera nú blak af hver öðrum og lofi hverjir aðra, stjórnarherrarnir, samkvæmt greinilega fyrir fram gerðri áætlun sem hjónabandsráðgjafi hefur sett upp fyrir þá og verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu og hvort þessir kærleikar muni endast og reynast innihaldsríkir á komandi vetri. Þetta er væntanlega til þess að lappa upp á sambandið sem var eitthvað farið að kólna í sumar, kærleikarnir voru minnkandi og varð einna kaldast í hádegisfréttum útvarpsins þegar iðnrh. á sagði ákaflega penan hátt að forsrh. hæstv. ætti að þegja. (Landbrh.: Var þetta aldrei reynt í Alþýðubandalaginu?) Hann gerði það með þeim hætti, hæstv. landbrh., að hann skaut sér á bak við samkeppnislög eða lög um verðbréfaþing og kauphallir og sagði að ekki mætti tala um mál sem væru á vegi stödd í því ferli öllu saman. Að þessu er sem sagt, herra forseti, nokkuð gaman.

Herra forseti. Stóra málið er hinn mikli og margrómaði og lofaði afgangur að fjárlögunum, milljarðarnir 15 sem hæstv. fjmrh. þreytist seint á að tíunda. Vissulega er ánægjulegt að ríkissjóður braggist. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég sem eindreginn stuðningsmaður öflugrar samneyslu og öflugs velferðarkerfis fagna því að sjálfsögðu að ríkissjóður landsins sé í vel í stakk búinn til að axla verkefni sín á því sviði. Því skal enginn efast um að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum samherjar og stuðningsmenn, hæstv. fjmrh. í því að reyna að tryggja öfluga og sterka stöðu þeirra sameiginlegu sjóða landsmanna, hvort heldur er ríkissjóðs og/eða sveitarfélaganna sem eiga að standa undir samneyslunni. Það er mikilvægt að þar séu menn í færum til að axla þau verkefni sem þessir aðilar eiga að sinna.

Spurningin er hins vegar sú, herra forseti: Er þetta á traustum grunni eða er þetta að einhverju leyti byggt á sandi? Það er það sem ég held að sé ástæða til að ræða. Ekki borgar sig að gerast of upphafinn í aðdáun á eigin afrekum, svo mjög að menn gleymi því að skoða hvort forsendurnar sem byggt er á séu nægjanlega traustar. Kannski á það eftir að koma í ljós að hyggilegra hefði verið af hæstv. fjmrh. að fara aðeins vægar í sakirnar --- og þá má nefna forsrh. með honum --- bæði hvað varðar lýsingar á eigin afrekum en líka hvað varðar þær forsendur sem hafa greinilega verið settar upp í frv. til þess að fá sem allra hagstæðasta útkomu tölfræðilega séð hvað varðar afgang á næsta ári. Það er augljóslega það sem hefur verið gert og þarf ekki sprenglærðan mann með hagfræðipróf en menn virðast aðallega vera að keppa að því hér að komast í þann flokk að geta skartað hagfræðigráðu. Ég held að þess þurfi ekki, það er oft hægt að athuga þetta með einföldum hætti og sjá að þarna er teygt á forsendunum til hins ýtrasta til þess að ná þessari tölu. Því miður er reyndar gert meira. Ýmsum þáttum er haldið niðri sem hér hefðu átt að hækka eða fylgja verðlagsþróun til þess að ná þessari útkomu.

Það fyrsta sem verður að hafa í huga er að ríkisstjórnin ætlar að halda áfram einkavæðingu, sölu á eignum almennings, og það kemur inn í þennan reikningsskap. Næstum þriðjungur af afganginum er áætlaður hagnaður af sölu ríkiseigna. Það er að vísu þannig að þar er talað annars vegar um hagnað af sölu ríkiseigna upp á tæpa 4 milljarða kr., hins vegar er í frv. talað um sölu á eignahlut ríkisins upp á 6,2 milljarða. Fróðlegt væri að hæstv. fjmrh. færi aðeins betur yfir mismuninn því að hann er áhugaverður. Í hverju er hann fólginn? Hvaða frádráttarliðir valda því að sala eigna upp á 6,2 milljarða skila ekki nettó í ríkissjóð nema tæpum 4 milljörðum?

Þetta er það fyrsta. Þarna fara 4 milljarðar og eftir eru 11 milljarðar. Það er auðvitað á allt öðrum grunni að ganga á eigur sínar eins og sagt er, og það er það sem verið er að gera. Allur almenningur veit hvað það þýðir. Það er hægt að gera það en bara einu sinni. Menn kunna að telja óviðeigandi dæmisöguna frá Ísafirði en hún var til að sýna það og undirstrika og fá menn að reyna að horfast í augu við það að það að ganga á eigur sínar er ekki mikil kúnst. Það er ekki mikið innlegg í umræðuna um það hvaða jafnstöðu menn eru að ná í fjármálum ríkisins eða sveitarfélaga því að menn geta hvenær sem er étið upp eigur sínar.

Þá eru eftir 11 milljarðar og þá skulum við fara aðeins betur yfir það hverju þeir eru tengdir. Þeir eru t.d. tengdir næstum 30 milljarða viðskiptahalla þjóðarbúsins út á við. Fyrirtækið Ísland hf. verður rekið með næstum 30 milljarða halla núna ár eftir ár. Það er auðvitað ávísun á skuldasöfnun þjóðarbúsins út á við. Það liggur líka fyrir hverjir þeir aðilar eru sem eru að safna þeim skuldum. Það eru sveitarfélögin, það eru heimilin í landinu og það er t.d. sjávarútvegurinn sem býr þrátt fyrir allt ekki við betri afkomu en svo að hann er að safna skuldum þegar hann er að reyna að ráðast í löngu tímabæra endurnýjun á framleiðslutækjum sínum, skipum og vélum og öðru slíku.

Í þriðja lagi, herra forseti, er afgangurinn fenginn með því að halda niðri breytum í forsendum fjárlagafrv. sem hefðu átt að hækka meira, hefðu átt að fylgja verðlagi. Þar er ég í fyrsta lagi að tala um skattleysismörkin. Þeim er haldið niðri, þau fylgja ekki launaþróun, eru hér uppreiknuð um 2,5%, ef ég man rétt, en hefðu auðvitað átt að fylgja hinni almennu launaþróun eða hækkun lægstu launa. Með því er verið að þyngja skattana. Hv. þm. Jón Kristjánsson kom áðan og spurði: Ja, hvað mundu menn segja ef hér ætti að fara út í stórfelldar skattahækkanir? Það er verið að hækka skattana en á lágtekjufólkinu að vísu. Það er rétt. Ekki á hátekjuliðinu, nei. Það er verið að hækka skattana á lágtekjufólki, elli- og örorkulífeyrisþegum og öðrum þeim sem eru með laun rétt yfir skattleysismörkum. Það er staðreynd og hvorki hæstv. fjmrh. né formaður fjárln. komast neinar skógarferðir frá því að svona er þetta.

Sama má segja að verulegu leyti um bætur almannatrygginga, þær fylgja ekki verðlagi eins og þær hefðu þurft að gera til þess að þær væru hlutlausar gagnvart verðlagsþróuninni í landinu. Skattbyrðinni er breytt nema að skattleysismörkin og/eða þá prósenturnar séu uppfærðar þannig að þær séu hlutlausar gagnvart þeim verðlagsbreytingum sem í gangi eru. Eðlilegasta breytan er að miða við er meðalþróun launa í landinu. (Fjmrh.: Það er ekki sama og verðlagið.) Meðalþróun launa í landinu.

Þá eru menn að svíkja fyrirheitin um það að taka til baka skerðinguna á bótunum. Þegar tengingin við launin var afnumin átti að heita svo eftir mikil mótmæli í þjóðfélaginu að það væri tekið til baka og þetta yrði sett í samband aftur. Svo kemur fjmrh. hér og segir: Já, en það er ekki það sama og verðlag.

Hvar eru loforðin til samtaka aldraðra og öryrkja um að þetta yrði sett í samband aftur? Svardagar voru uppi um að það yrði gert eins og menn muna. Svo lélegt er minni manna ekki orðið enn þá, hæstv. fjmrh., að svona málflutningur dugi.

Ég nefni barnabæturnar. Auðvitað er augljóst mál að breytingar ríkisstjórnarinnar í gegnum það að tekjutengja barnabæturnar að fullu og færa þá ekki upp upphæðir þeirra t.d. í takt við þróun launa eru skerðing enda eiga útgjöld til barnabóta að lækka um hundruð milljóna kr. núna milli ára. Það er verið að reyna að sannfæra okkur um að þetta sé allt í lagi, þetta sé ekki brot á loforðum Framsfl., nei, þetta eru bara útreikningslegar staðreyndir lífsins, segja þeir og horfa út um gluggann. Það á barnafólkið að taka sem svar.

En staðreyndin er sú að mitt í öllu góðærinu og þeirri verðþenslu, sem þeir segjast í öðru orðinu hafa áhyggjur af, lækka útgjöld til barnabóta í krónum talið milli ára um, ef ég man rétt, 320 millj. kr. Augljóslega er það vegna þess og ekki nokkurs annars en að það er svikist um að færa upp þessar breytur í frv. og með því eru útgjöldin lækkuð og afgangurinn hækkaður.

Ég nefni í fjórða lagi, herra forseti, afkomu sveitarfélaganna. Hér er ekkert komið inn á það mál. Engin fyrirheit eru gefin um það að ríkissjóður endurskoði tekjuleg samskipti sín við sveitarfélögin þó að hann sé rekinn með þessum mikla afgangi og þó að sveitarfélögin séu að safna skuldum. Ástæða er til að fara yfir það, herra forseti, hvernig þar er umhorfs þessi árin.

Hvernig er staða sveitarfélaganna? Hún er þannig að þau eru rekin núna ár frá ári með miklum halla. Það er þannig að á árinu 1997 voru sveitarfélögin rekin með um 3 milljarða halla, það er um 6,2% af tekjum, sem voru 48,2 milljarðar á því ári. Á árinu 1998 er þetta enn verra því að þá var hallinn 3,8 milljarðar af 53,7 milljarða tekjum eða 7%. Þetta skánar aðeins núna en þó er hallinn enn upp á 2,7 milljarða að ætlað er á þessu ári, 4,5% af tæplega 60 milljarða tekjum. Mjög lauslegir framreikningar á næsta ári, sem eru sennilega óraunhæfir vegna þess að ég óttast að þar sé um að ræða vanmat á útgjaldaaukningu sveitarfélaganna, m.a. vegna launamála og vegna væntinga um úrbætur í skólamálum o.fl., en hallinn er engu að síður áætlaður upp á á þriðja milljarð króna eða eitthvað um 3,5--4% af tekjum.

Þetta er afkoman á þeim bæ. Þetta er umtalsvert. Þetta er enginn smá hallarekstur á einu fyrirtæki, frá 3,5--4% og upp í 7% núna ár eftir ár. Engin viðleitni til þess að taka á þessu misgengi í afkomu ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Þvert á móti eru uppi áform um að halda áfram að færa verkefni til sveitarfélaganna án þess að bæta tekjulega stöðu þeirra.

Í fimmta lagi, herra forseti, mætti nefna launaforsendur frv., þær eru auðvitað algjörlega óraunhæfar, það er öllum ljóst. Engin von er til þess, held ég, að launamenn í landinu muni gera kjarasamninga á þeim nótum sem hér eru settar upp. Það er næstum því broslegt, liggur mér við að segja, að reyna að setja upp útreikningslegar forsendur fyrir móverki af því tagi sem þarna er gert. Það liggur við að betra væri að sleppa því og segja sem svo að á þessu stigi málsins væri óvissa sem þessu næmi vegna þess að ekki væri hægt að áætla eða reikna með neinum sanni fyrir áætluðum útgjöldum vegna launabreytinga á næsta ári. En það að launaforsendurnar haldi, eins og þær eru settar upp í frv. og þar með verðlagsforsendurnar verður því miður, herra forseti, að teljast afar ólíklegt.

Fleira mætti nefna. Ég leitaði eins og fleiri greinilega að milljarðinum í fíkniefnin og upphafi að efndum á kosningaloforðum t.d. framsóknarmanna í þeim efnum og fann lítið. Ég fann þvert á móti í vissum tilvikum niðurskurð til málefna á því sviði.

[16:00]

Síðast en ekki síst nefni ég skattamálin og þá staðreynd að skattkerfisbreytingar hæstv. ríkisstjórnar hafa óumdeilanlega komið þannig út að skattar hafa lækkað á barnlausu hátekjufólki en hækkað á lágtekjufólki, elli- og örorkulífeyrisþegum og öðrum þeim sem eru með tekjur rétt yfir skattleysismörkum. Þetta er staðreynd sem verður ekki hrakin.

Alþýðusamband Íslands hefur sent frá sér m.a. útreikninga á því núna nýverið og ég hvet menn til að fara inn á heimasíður ASÍ og BSRB ef þeir vilja skoða það mál í framhaldi af skýrslu þessara aðila um skattamál. Þeir sýna þar svart á hvítu hvernig t.d. bæði skattleysismörkin og lækkun barnabóta kemur út fyrir einstaka hópa. Ágæt dæmi eru birt þar, sem menn geta skoðað, sem sýna alveg óhrekjanlega að þeir sem hafa komið best út úr þessum breytingum eru hátekjufólkið og sérstaklega barnlausa hátekjufólkið, en minnst aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna hefur orðið hjá þeim sem eru með tekjur rétt yfir skattleysismörk, húsnæðisskuldbindingar og börn á framfæri. Þetta er staðreynd. Það munar allt upp undir 10% á kaupmætti ráðstöfunartekna hvað hann hefur vaxið minna hjá þeim sem eru með tekjur á bilinu 75 til kannski 100 þús., börn á framfæri og húsnæðisskuldbindingar á bakinu og hinum sem eru lausir við hvort tveggja og með tekjur yfir 400 þús. kr. mörkin. Svona er þetta, hæstv. landbrh., og þýðir ekkert að setja upp skeifu út af því. Þetta eru staðreyndir málsins.

Herra forseti. Ég minni á það að lokum áður en ég hverf frá skattamálunum að til voru þeir sem höfðu uppi varnaðarorð, eða hvað sem menn vilja kalla það, gegn skattalækkunarprógrammi ríkisstjórnarinnar á sínum tíma. Hér stendur a.m.k. einn sem lýsti sig andvígan því að farið yrði út í flatar skattalækkanir af því tagi sem gert var á sínum tíma vegna þess að það var augljóst mál að afleiðingarnar af því gætu ekki orðið aðrar en þær sem raun ber vitni, þ.e. að hátekjufólkinu nýttust þær best en lágtekjufólkið bæri að sama skapi minna úr býtum. Það var beinlínis óskynsamlegt í efnahagslegu tilliti í ljósi aðstæðna eins og þær blöstu við að fara þá út í slíkar aðgerðir. Launamunurinn, tekjumunurinn í þjóðfélaginu hefur farið vaxandi í gegnum þessar breytingar. Þær eru liður í því að fletja skattkerfið út þannig að tekjujöfnunargildi þess minnki og ganga þar af leiðandi í þveröfuga átt. Auðvitað veit ég að Sjálfstfl. er hæstánægður með þetta. Nákvæmlega svona vill hann hafa þetta, en það er enn dapurlegra að Framsfl. sem ég sé í Degi í dag að fyrrv. formaður þingflokksins, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, er enn að þráast við að reyna að kalla félagshyggjuflokk, skuli ganga undir þau ósköp að hjálpa íhaldinu við að koma þessum breytingum fram. En það er engu að síður staðreynd. Í hverju felst þá félagshyggjan? Í því að fletja út skattkerfið, draga úr tekjujöfnunargildi þess og lækka sérstaklega skatta á barnlausu hátekjufólki. Ef það er félagshyggja, þá mega einhverjir aðrir ástunda hana fyrir mér.

Herra forseti. Þá ætla ég að hverfa að nokkrum einstökum efnisþáttum frv. Það er aðallega í formi spurninga til hæstv. fjmrh. eða annarra ráðherra eftir atvikum, ef þeir eru hér viðstaddir og gera Alþingi þann stóra og óvænta og því miður allt of sjaldséða heiður nú orðið að vera viðstaddir umræður á Alþingi. En það gerist æ sjaldgæfara að ráðherrar, nema þeir séu beinlínis píndir til þess vegna þess að þeirra eigin mál eru á dagskrá, sjáist hér í þingsölum. Við skulum sjá hvernig veturinn verður í þessum efnum, herra forseti.

Ég ætlaði reyndar að koma því að, herra forseti, að það stendur svo á einmitt fyrir tilviljun að ég er með í höndunum afrit af launaseðlum frá hjónum, sem bæði eru öryrkjar og eru með tekjur rétt yfir skattleysismörkunum og voru bæði að fá sérstaka viðbótarskerðingu á þessum miklu og veglegu greiðslum sem þau fá frá ríkinu. Þar inn í koma einmitt skattleysismörkin sem eru ákaflega beitt þegar kemur að ráðstöfunartekjum þeirra hópa sem eru kannski með einhverjar lítils háttar tekjur, segjum lífeyristekjur til viðbótar því sem þeir fá frá tryggingakerfinu og fá á sig jaðaráhrifin og skerðingarnar að fullu m.a. í gegnum það hvernig skattleysismörkin eru stillt af miðað við þessar upphæðir. Trúi því hver sem trúa vill að slíkir aðilar, t.d. annar með 60 þús. kr. á mánuði og hinn með 45 þús. kr. á mánuði og eru nú að fá á sig skerðingar vegna þessara greiðslna skatta, borga af þessu skatta, séu aflögufærir. Þarna eru fundin bök til að leggja byrðar á eins og þessir hlutir eru nú komnir. Það er enginn vafi á því, herra forseti, að sú aðferð, sú formúla sem ríkisstjórnin hefur valið, þessi og hin síðasta í skattamálum er að færa okkur langt aftur á bak miðað við þau gildi sem ég og samherjar mínir viljum sjá í þessum efnum í gegnum það að mikið vantar upp á að skattleysismörkin hafi fylgt verðlagsþróun eða launaþróun og í gegnum það að ríkisstjórnin neitar staðfastlega að taka upp fjölþrepaskattkerfi en montar sig svo af því að vera að lækka prósentuna flatt og nota mikla fjármuni í það. Í stað þess að leyfa t.d. skattleysismörkunum að fylgja launaþróun er verið að gera breytingar á innbyrðis skattbyrði. Það er augljóst mál og það er alveg ljóst í hvaða átt þær breytingar ganga. Þær þyngja skattbyrðina á lágtekjufólki og meðaltekjuhópum en létta hana á hátekjufólki.

Ég staldra, herra forseti, fyrst við í fjárlagafrv. sjálfu þegar kemur að ráðstöfun tekna þar sem er fjallað um byggðamál. Það á að heita svo, ég segi aftur, herra forseti og endurtek: Það á að heita svo. Endurtek í þriðja sinn: Það á að heita svo að hæstv. forsrh. hafi farið með byggðamál á Íslandi sl. átta ár. Það er ekkert nema nafnið því að þess sér lítinn stað að það ráðuneyti hafi sérstaklega lagt sig í framkróka um að rækja það hlutverk. Þvert á móti er búið að vængstýfa Byggðastofnun þannig að hún er fyrst og fremst til skýrslugerðar og litlum fjármunum vægast sagt varið í þennan málaflokk. Ég tók þess vegna eftir því að framlag til Byggðastofnunar, framlag til byggðaaðgerða undir þessu ráðuneyti sem enn fer með byggðamál, er óbreytt. Það eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við t.d. nýjustu tölum um fólksflóttann af landsbyggðinni og ástand byggðamála, atvinnubrest í fjölmörgum byggðarlögum o.s.frv. 502 millj. kr. eru það á bls. 245 í hinum heilaga texta.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja, herra forseti: Hverju sætir það að liðurinn Undirbúningur að stofnun nýrra sendiráða fellur niður úr fjárlögunum? Hann var þar á síðasta ári, ef ekki sl. tvö ár. Nú veit ég ekki betur en til standi að stofna frekar tvö en eitt sendiráð á allra næstu missirum, þ.e. í Kanada og síðan í Japan. Engu að síður fellur niður sá liður í fjárlagafrv. sem verið hefur þar til ráðstöfunar til undirbúnings þessum verkefnum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. úr því að hæstv. utanrrh. er ekki til staðar hverju þetta sæti.

Í þriðja lagi var ég nokkuð undrandi, herra forseti, þegar ég fletti upp á bls. 285 og sá þar að til stendur að hætta niðurgreiðslu á fóðri til loðdýraræktar. Með öðrum orðum, það hlýtur að þýða ósköp einfaldlega að kveða upp dauðadóm yfir því sem eftir er af þessari atvinnugrein í landinu. Það er alveg borðleggjandi að við núverandi verðlag og afkomu í greininni þolir hún ekki það kjaftshögg sem þetta yrði, en þetta stendur engu að síður efst á bls. 285. Þar er verið að fjalla um útgjöld til ýmissa málaflokka landbrn. og þar segir: ,,Á móti kemur að hætt verður að niðurgreiða loðdýrafóður, 53 millj. kr.`` Er þetta endanleg ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar og hvað segir hæstv. landbrh., sem er ekki alveg jafnglaðlegur á svipinn núna eins og hann var fyrir smástundu síðan, um þetta mál?

Ég fletti líka upp á fjárveitingu til Skógræktar ríkisins og það voru mér vonbrigði að sjá að þar er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til undirbúnings skógræktarátaks á Norðurlandi eins og í bígerð hefur verið og Norðlendingar hafa sótt mjög eftir að fá í gang með svipuðum hætti og verið hefur um nær tíu ára skeið á Fljótsdalshéraði til hins mesta sóma auðvitað. Slíkt átak er komið í gang á Suðurlandi undir heitinu Suðurlandsskógar. Það hefur verið mikill áhugi á að koma þessu af stað víðar, t.d. á Norðurlandi og jafnvel Vesturlandi, ef ég veit rétt, en þess sér ekki stað í neinum fjárveitingum, jafnvel undirbúningsfjárveitingum. Ég spyr hverju það eigi að sæta. Nú hélt ég að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að láta planta miklu af skógum því að þar hafa menn fundið ráð þó í litlu sé til að koma örlítið til móts við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og kannski komast hænufeti styttra í burtu frá því að geta uppfyllt ákvæði Kyoto-bókunarinnar, en það eru þá væntanlega ekki skógar á Norðurlandi eða Vesturlandi sem þar eiga að koma til.

Schengen-samstarfið á að kosta 50 millj. strax á næsta ári. Dýr mundi Hafliði allur ef þessi ósköp eiga að kosta okkur tugi milljóna áður en þetta kemur til framkvæmda og er þá ótalin stækkunin á Flugstöðinni í Keflavík upp á annan milljarð kr. sem að miklu leyti er til komin eða verður alla vega mun dýrara en þyrfti að vera vegna þessa Schengen-samstarfs.

Einnig sé ég að undir sama lið er fjallað um 100 millj. til Þróunarsjóðs EFTA. Textinn er afar fáorður sem kemur af því, kannski vegna þess að utanrrn. er ekki spennt fyrir því að lýsa yfir fullkominni og algerri uppgjöf sinni, 100% ósigri í deilunni um áframhaldandi greiðslur í Þróunarsjóð EFTA. En það er skjalfest hér með 100 millj. til sjóðsins á næsta ári þó að vísu sé verið að reyna að segja að um tímabundnar greiðslur sé að ræða. Trúi því hver sem vill.

Herra forseti. Á bls. 301 er heldur neyðarlegur liður fyrir hæstv. ríkisstjórn og þá alveg sérstaklega fyrir Framsfl. því að þar er fjallað um lækkun á framlögum til áfengis- og fíkniefnamála, 2 millj. kr., af því að tímabundið framlag til átaks í fíkniefnavörnum í Reykjanesbæ fellur niður. Það hefur sem sagt hvergi annars staðar fundist þörf fyrir þessar 2 millj. sem þarna spöruðust vegna þess að þessu verkefni er lokið á Reykjanesi, er það? Nei. Þetta hlýtur þá í öllu falli að koma til frádráttar milljarðinum sem annars staðar er uppreiknaður í öðrum liðum, er það ekki, hæstv. ráðherra?

Þá vil ég, herra forseti, í sjöunda lagi aðeins koma að Íbúðalánasjóði. Ég tek eftir því að í umfjöllun um Íbúðalánasjóð er að vísu gert ráð fyrir áframhaldandi 100 millj. kr. til niðurgreiðslu vaxta en ég finn ekkert, ekki eitt orð um greiðslur í varasjóð Íbúðalánasjóðs, ekki eitt orð, ekki ein einasta króna. Í lögum um húsnæðismál, kafla X og ákvæði til bráðabirgða VIII í sömu lögum, er fjallað sérstaklega um varasjóðinn og einn af þremur tekjustofnum hans til að mæta afskriftum sveitarfélaga vegna innlausna á félagslegum íbúðum eiga að vera framlög úr ríkissjóði. Það er ekki ein króna sett í þetta mál í fjárlagafrv. Nú vita þeir sem eitthvað vita og hafa heyrt í talsmönnum sveitarfélaganna að þetta er eitt mesta áhyggjuefni sveitarfélaga víða um land, þær gífurlegu skuldbindingar sem þau eru með á herðunum vegna þessara mála og liggur mjög á að fá niðurstöðu í það mál hvernig farið verður með þennan mikla vanda. Það er ljóst að hann er algerlega ofvaxinn fjölmörgum sveitarfélögum þar sem hann er mestur. Þau munu ekki einu sinni ráða við hann þó að þau settu alla handbæra fjármuni um langt árabil í hann, það dugar ekki til í sumum tilvikum. Þau þeirra sem ráða við hann mundu mörg hver þá ekkert annað gera næstu 10--20 árin en ráðstafa hverri einustu krónu í þennan vanda. En samt er hæstv. ríkisstjórn ekki komin lengra með þetta mál en svo að það er ekki ein einsta króna í fjárlagafrv., ekki gert ráð fyrir neinu í þessum efnum ef ég ef tekið rétt eftir. Meira að segja held ég að hæstv. ráðherra sé ekki einu sinni búinn að koma í gang því starfi eða þeirri endurskoðun og þeim reglum sem þarna átti að setja en um það hefur hæstv. ráðherra þegar fengið fyrirspurn á þinginu og við skulum bíða svara við henni.

En ég spyr: Hverju sætir það að í fjárveitingum til Íbúðalánasjóðs er ekki gert ráð fyrir neinu inn í þetta samhengi? Er það í samráði við sveitarfélögin sem ráðslaga átti um þessi mál við?

Hins vegar hefur betur árað þegar kom að viðskrn. Þar fundust 21 millj. kr. í sérstakt gæluverkefni hjá hæstv. viðskrh. Þá var ekki fátæktin í sérstakt samstarfsverkefni ráðherrans og Verslunarráðsins og fjárfestingarskrifstofunnar um alþjóðleg viðskiptafélög. Það var eitt það allra brýnasta sem hæstv. viðskrh. hafði þörf fyrir fjármuni í, þ.e. að setja á fót verkefni með þessum aðilum til að reka áróður og trúboð fyrir því að laða til landsins alþjóðleg viðskiptafélög, að hér settu niður fót sinn félög með starfsemi fjarri Íslandsgrundum, fengju hér að smjúga inn í skattasmugu sem búin var til með lögum í fyrra og skilar hér mest litlu til landsins en fá að hafa hér heimilisfang.

[16:15]

Þetta brýna hagsmunamál, þetta stóra verkefni, þetta stórkostlega nýmæli í atvinnusköpun landsins, þetta plagg ríkisstjórnarinnar, stolt viðskrn., fær 21 millj. kr. Þá vantaði ekki aurinn og verður nú örugglega gleði og gaman bæði í Verslunarráðinu og viðskrn. og hjá fjárfestingarskrifstofunni þegar þetta verður allt í höfn.

Annað er ekki eins gott, t.d. sú staðreynd að umhvrn. ætlar að draga, að því er best verður séð, einhliða úr þátttöku sinni hvað varðar framlög á móti sveitarfélögunum vegna fráveituverkefna um 100 millj. króna. Hélt ég þó að það ferli væri meira og minna niðurneglt og samningsbundið í samskiptum sveitarfélaga og ríkis. En þetta er engu að síður svo. Það stendur á bls. 358 að umhvrn. ætli að draga úr eða fresta styrkjum vegna fráveituverkefna sveitarfélaga um 100 millj. kr. Ég spyr: Er þetta gert í samráði við sveitarfélögin? Vita menn hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir þau sveitarfélög sem eru með miklar skuldbindingar og standa í miklum verkefnum á þessu sviði? Hverju sætir það að svona er að málum staðið?

Herra forseti. Þá sá ég að hæstv. iðn.- og viðskrh. hafði fundið eina matarholuna og dugði meira en fyrir peningunum í alþjóðlegu viðskiptafélögin. Hæstv. iðnrh. sem ætlar að taka við byggðamálum --- er það ekki um áramótin sem það stendur til samkvæmt hrossakaupum stjórnarinnar að hæstv. iðn.- og viðskrh. fái byggðamálin en forsrh. Seðlabankann í staðinn? Það kann að tengjast því að þar eru lausar stöður --- hæstv. iðnrh. og tilvonandi byggðamálaráðherra Íslands, hvorki meira né minna, hann fann matarholuna eftir nokkra leit. Hvar haldið þið? Var það hátekjuliðið í landinu, stórfyrirtækin, fjármagnseigendurnir? (Gripið fram í.) Ha! Nei, það var dreifikerfi á raforku í sveitum landsins. Þar er hægt að spara, segir hæstv. iðnrh. og byggðamálaráðherra tilvonandi, 50 millj. kr. Það var óþarflega mikið sem ætlað var í að styrkja dreifikerfi raforku í sveitum, sérstaklega til þess að koma þriggja fasa rafmagni í sveitir landsins og afskekktari byggðarlög. Það er óþarfi að setja svo mikla peninga í það, þó það sé að vísu góðæri og 15 milljarða afgangur á ríkissjóði. En það er 50 millj. of mikið sem átti að gera í þessum efnum. Hélt ég þó að menn vissu að eitt af því allra meinlegasta og bagalegasta sem menn búa við mjög víða og stendur mönnum stórkostlega fyrir þrifum t.d. hvað atvinnuuppbyggingu varðar í strjálbýlinu á Íslandi, er lélegt dreifikerfi á rafmagni. Það er að það vantar þriggja fasa rafmagn, á mannamáli sagt. Og það er vegna þess að þá eru öll rafmagnstæki mun dýrari, allt upp í þrisvar sinnum dýrari og þau nýta orkuna verr. Það er því stórkostlegt óhagræði fólgið í því að búa við það ástand sem er í þessum efnm á fjölmörgum svæðum. Og það hefur verið sérstakt baráttumál þeirra sem þekkja til þessara aðstæðna á undanförnum árum að fá aukið fjármagn í þetta. (Iðnrh.: Það þarf að virkja ...). Þarf að virkja minna? Já, já, er það lausnin? (Gripið fram í.) Þetta er málefnalegt frammíkall hjá hæstv. iðnrh., að þá þurfi að virkja minna. Á sem sagt að sóa orkunni með því að hafa svo mikið orkutap og svo lélegt dreifikerfi til þess að hægt sé að virkja meira? En gallinn er nú sá, hæstv. iðnrh., að það á að gefa útlendingum rafmagnið. Það á ekki einu sinni að leyfa landsmönnum að njóta þess að fá að taka nokkra hagstæðustu virkjunarkosti landsins á það altarið með tilheyrandi umhverfisfórnum. Nei, herra forseti, ég verð að segja alveg eins og er að þetta finnst mér skammarlegt. Lítið leggst nú fyrir hetjurnar, stjórnarliðana sem ég veit að hafa þaullesið greinargerð fjárlagafrv. ekki síður en ræðumaður og vita þetta allir 40 eða 39 með tölu eða hvað þeir nú eru margir, að það er svoleiðis ástand á Íslandi að skera verður niður framlög til styrkingar dreifikerfis raforku í sveitum landsins um 50 millj. kr. Er það þó reyndar samningsbundið verkefni að ég hélt vegna þess að gert var sérstakt samkomulag um það við Rarik að greiða 2% arð af eigin fé Rariks í ríkissjóð á ári hverju og taka 65% af þeirri upphæð í að styrkja raforkukerfið í sveitum landsins. Tekjurnar koma frá Rarik og þær skila sér en það á að svíkja sveitirnar um sinn hlut í þeim. Þannig er það. Þetta er lítilmannlegt, það verður að segjast eins og er, heldur snautlegt og ekki orð um það meir, herra forseti. En það er til 21 millj. handa sama ráðherra til að leika sér með í alþjóðleg viðskiptafélög. Þá er ekki fjárskortur. Þá eru aurarnir á lausu þegar þarf að fara í svoleiðis snobbverkefni.

Herra forseti. Það mætti vissulega tína margt fleira til, en ég vona að hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. fjmrh. og aðrir þeir sem hér hafa verið, svari því sem ég hef komið inn á sérstaklega og varðar ráðstöfun á ýmsum liðum, í einum tíu tölusettum liðum. Einkum og sér í lagi væri ánægjulegt að heyra í hæstv. félmrh. um húsnæðismálin og síðan í t.d. hæstv. iðnrh. um þetta afrek hans varðandi dreifikerfi raforku í sveitum.

Herra forseti. Ég segi að lokum aftur að það er auðvitað jákvætt að okkur Íslendingum hefur að ýmsu leyti vegnað vel í efnahagslegu tilliti á undanförnum árum. Við höfum búið við mjög hagstæð ytri skilyrði. Það er óumdeilt. Við fórum að vinna okkur upp úr öldudalnum á árinu 1994 eins og er allt í lagi að rifja enn upp og það var eins og venjulega íslenskur sjávarútvegur sem kom hjólunum í gang, stóraukin verðmætasköpun með veiðum á fjarlægum miðum og góðar vertíðir á uppsjávarfiskum. Þær fóru að snúa þetta upp úr lægðinni og síðan hefur ýmislegt annað bæst við.

En við skulum ekki gleyma því heldur að samanburðurinn er við einhverja dýpstu og erfiðustu lægð í efnahagsmálum sem við höfum lengi gengið í gegnum. Eða eru menn búnir að gleyma því við hvað við erum að bera okkur saman, þ.e. árin frá 1988 til og með 1993 sem voru einstaklega erfið og við fórum ofan í djúpa lægð? Því ber að hafa í huga varðandi allt grobb um kaupmáttaraukningu og annað slíkt að samanburðurinn er við þessa löngu og djúpu lægð.

Við skulum líka í öðru lagi, herra forseti, vera raunsæ gagnvart því á hvaða forsendum þessir hlutir standa, minnast þess að við erum enn að glíma við ýmsa veikleika, til að mynda viðskiptahallann. Við skulum minnast þess, herra forseti, hvernig upphafið að þeim stöðugleika og efnahagslega bata sem við höfum þó notið var fengið. Hverjir færðu fórnirnar til að ná niður verðbólgunni og koma hér á stöðugleika umfram alla aðra? Það voru almennir launamenn í landinu og þeim var lofað því þá, þegar þjóðarsáttin var gerð, að sérstaklega yrði horft til þess að skila þeim því aftur þegar stöðugleikinn væri kominn í höfn og honum væri náð. Nú geta menn sagt að það hafi að meðaltali tekist. En hverjir hafa hirt mest af ávinningnum? Hátekjufólk í landinu. Á sama tíma hafa menn notað skattkerfið og ýmsar aðrar breytingar í ríkisfjármálum þannig að launamunurinn hefur aukist og þeir hafa dregist hlutfallslega aftur úr sem síst skyldi og síst eru í færum til að færa fórnir. Þetta eru því miður, herra forseti, óhrekjanlegar staðreyndir og allt í lagi og sjálfsagt fyrir okkur að hafa með.

Ég get ekki neitað því að mér hefur fundist tónninn í stjórnarherrunum vera pínulítið háskalegur núna stundum á haustmánuðum. Ég held að þegar allt var búið sem til stóð, að láta kjósa og svona, þá átti að halda þessu áfram. Það skipti auðvitað engu máli hvort menn myndu tapa eða vinna, það sést best á því að Framsfl. stórgræddi á því að tapa svona miklu fylgi. Hann fékk enn þá fleiri ráðherra og nú er hálfur þingflokkurinn í ríkisstjórninni og nokkrir á biðlista. Svona þrír af hverjum fjórum eru því annaðhvort þegar orðnir ráðherrar eða skráðir á sérstakan biðlista um að verða ráðherrar innan skamms. Þetta er ekki dónaleg útkoma hjá Framsókn. Stjórnin lagði síðan upp dauðþreytt, óskaplega eitthvað þreytt. Hún svaf alla hveitibrauðsdagana og leitun er að öðrum eins þyrnirósarsvefni og þeim sem þessi ríkisstjórn hefur sofið að langmestu leyti. Og svo er komið og endurtekin hér góðæristuggan. En það sem hræðir mig pínulítið er sjálfbirgingurinn sem mér finnst koma dálítið fram í ræðum ráðamanna ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., fjmrh. og fleiri manna., því dramb er falli næst. Ég hef þá ónotalegu tilfinningu, herra forseti, af einhverjum ástæðum að það væri hyggilegt af landsfeðrunum að guma minna af eigin afrekum um þessar mundir vegna þess að holara kunni að reynast undir góðærinu, því miður, en þeir vilja vera láta. Ýmis hættumerki eru í loftinu og það væri málefnalegra, fróðlegra og uppbyggilegra ef ráðamenn, hæstv. fjmrh., forsrh. og aðrir slíkir, eyddu aðeins minni tíma í að hæla sjálfum sér en meiri tíma í að ræða á málefnalegum nótum þá þætti sem a.m.k. ástæða er til að hafa áhyggjur af svo ekki sé meira sagt.