Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 16:30:48 (51)

1999-10-05 16:30:48# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er spurningin um hvar menn eru staddir í hagsveiflunni. Má ég minna hv. þm. á draum faraós úr Gamla testamentinu og boðskapinn sem þar er að finna um að leggja í kornhlöður á góðu árunum og geyma til hinna verri ára? Það er nákvæmlega það sem verið er að gera nú, nota góðærið til að byggja upp stöðu fyrir framtíðina.

Ég vil svara tveimur atriðum sem hv. þm. spurði um. Hann nefndi sölu á eignum ríkisins. Annars vegar væri talað um 4 milljarða kr. hagnað en hins vegar væri sala fyrir 6,2 milljarða. Skýringin á þessu er sú að þessar eignir eru bókfærðar upp á 2,2 milljarða og söluandvirðið þá væntanlega 6,2 en hagnaðurinn er mismunurinn, 4 milljarðar. Og það er það sem er bókfært fyrir ofan strik, sem kallað er, þ.e. fært sem tekjur. Hitt kemur ekki fram sem tekjur í ríkissjóð en kemur þó til skila í lánsfjárjöfnuðinum sem fjármagn til ráðstöfunar.

Síðan var það þetta með óraunhæfar launaforsendur sem hv. þm. nefndi og sagði að þetta væri nú svo broslegt að bara væri best að sleppa því. En þarna er komið aftur að þeirri forsendu sem ég gat um áðan. Við tökum inn í frv. það sem best er vitað. Auðvitað er ekki hægt að vita alla þessa hluti fyrir fram og klárt mál að óvissa er varðandi launaþróun á næsta ári, það kemur fram í frv. Haldið þið að það viti ekki hver maður? En hvað vitum við um málið? Við vitum það að opinberir starfsmenn hafa samið um 3% launahækkun frá og með næstu áramótum. Það er það eina sem vitað er um þessa þróun. Þess vegna er það með. Væru það betri vinnubrögð að hafa núll prósent hækkun í þessum efnum fyrir næsta ár? Vitanlega ekki. Þess vegna er mjög óeðlileg gagnrýni sem fram kemur af hálfu hv. þm. um þetta atriði og nánast bara út í hött miðað við það sem hann sagði hér að ljóst væri að forsendur væru teygðar til hins ýtrasta.

Við höfum í þessu efni eins og öðrum notað þá vitneskju sem best liggur fyrir. Við getum að vísu ekki fullyrt að ekkert af þessu breytist. Það er rétt sem hv. þm. Gísli Einarsson sagði. Það eru líkur á því að einhver atriði breytist, sjálfsagt mörg frá því að við tölum saman um þetta núna þangað til í desember. Þannig er það alltaf. Það er ekki þannig að menn geti spáð fyrir um alla þessa hluti með 100% vissu fyrir fram og þarf ekki að segja það jafnþingreyndum manni og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.