Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 16:33:12 (52)

1999-10-05 16:33:12# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það var þetta með sjö mögru árin og feitu árin, kýrnar hans faraós og kornhlöðurnar. Ég er alveg eindreginn stuðningsmaður þess að menn leggi fyrir og eigi til mögru áranna enda tími menn þá að nota kornið þegar hungursneyðin skellur á en láti ekki fólkið svelta í hel. Ég vil alveg endilega að ríkissjóði sé beitt þannig. Þess vegna hef ég t.d. ekki verið í þeim hópi sem hrópar úlfur, úlfur, þó að ríkissjóður væri rekinn með halla á einhverju árabili ef aðstæður eru þannig að hann sem öflugasta sveiflujöfnunartæki sem a.m.k. stjórnvöld hafa í sínum höndum sé þá notaður þannig. Ég er því ekki að gera hér ágreining við hæstv. ráðherra um að það beri að reyna að vera með langtíma og framsýna viðmiðun í þessum efnum. Ég er tilbúinn til að stuðla að því fyrir mitt leyti m.a. með tekjuöflun. Þess vegna taldi ég óskynsamlegt að fara út í flatar skattalækkanir þegar ljóst var að ríkissjóður gæti haft inn umtalsverðar tekjur að óbreyttum sköttum og að óbreyttri skattbyrði þegar batnandi tímar fóru í hönd. Að sama skapi tel ég að menn ættu þá líka að vera tilbúnir til að láta þá njóta sem sannarlega þurfa á leiðréttingu sinna mála að halda.

Spurningin er líka, eins og ævinlega hvort sem eru góðæristímar eða erfiðir tímar, hvernig við dreifum byrðunum eða útdeilum gæðunum. Það er alltaf grundvallarspurningin og það sem stjórnmál snúast kannski um að lokum.

Ég þakka skýringarnar um söluandvirði eigna sem og önnur svör. Það er þá ljóst að ríkið ætlar að selja eignir að verðmæti 6,2 milljarða og fá þær borgaðar, hitt er í raun og veru bókhaldslegt atriði.

Að allra síðustu um launaforsendurnar. Auðvitað viðurkenni ég vandann í þeim efnum. Auðvitað viðurkenni ég það að reikningslega þarf eitt stykki frv. af þessu tagi að byggja á einhverjum grunni. Og það getur vel verið að hægt sé að færa gild rök fyrir því að 1% sé skásta talan eða 3%, 1% umfram það sem liggur fyrir. En það breytir ekki hinu að menn eiga að viðurkenna raunsætt hversu ónákvæmt það getur reynst og að þar er um nánast hreina ágiskun að ræða, sem reyndar er frekar ólíkleg. Það er miklu ólíklegra en hitt að niðurstaðan verði nákvæmlega sú. Það var það sem ég var að fara inn á.