Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:20:30 (56)

1999-10-05 17:20:30# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:20]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fyrir framan mig minnisblað frá heilbr.- og trmrn. frá því í fyrrahaust. Samningarnir voru búnir nema framgangssamningar hjúkrunarkvenna. Það lá fyrir frá ráðuneytinu hvað þeim var ætlað að vera, 1--3% lá fyrir í samningnum.

Vel getur verið að hv. þm. Gísli S. Einarsson hafi séð þetta allt fyrir. En ég er alveg viss um að það er þá einhver ófreskisgáfa sem hann hefur haft vegna þess að ómögulegt var fyrir aðra að sjá það. Hins vegar hefur komið í ljós að þessa peninga vantar. Þeim var eytt.

Því segi ég og ítreka að óvarlegt var að haga samningum um laun eins og gert var miðað við fyrri reynslu. Það er því miður fullt af ríkisfyrirtækjum sem virða ekki fjárlaga\-rammana. Það gengur ekki og menn verða þá í framtíðinni annaðhvort að taka aftur og miðstýra laununum eða gera einhverjar þær ráðstafanir sem duga til þess að menn virði rammana.

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hér er nokkur maður tilbúinn að nefna þá upphæð sem þarf í heilbrigðismálin árið 2000 og leggja höfuð sitt undir þannig að standist sú tala ekki þá skuli höfuðið af --- kannski hv. þm. Gísli S. Einarsson. Ég vona, herra forseti, að hv. þm. geri það ekki vegna þess að mér þykir vænt um þann koll.