Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:23:21 (58)

1999-10-05 17:23:21# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er til að setja á langa ræðu að ætla að fara að gera grein fyrir því hvernig við bætum kjör allra þeirra sem lakast standa í þjóðfélaginu.

Fyrst ætla ég að segja nokkuð um þetta: Aðeins þau þjóðfélög þar sem efnahagslífið er í jafnvægi, frelsi ríkir í verðmyndun og frelsi ríkir í verslun og viðskiptum hafa getað byggt upp þau samfélög sem hjálpað geta þeim sem standa verst að vígi. Önnur samfélög hafa ekki getað gert það.

Hins vegar er mjög mikil villa í umræðunni um kjör elli- og örorkulífeyrisþega þegar menn fara að rugla saman jaðaráhrifunum. Þá fer umræðan öll í vitleysu. Við settum upp lágmarkslaun á áttunda áratugnum inn í ellilífeyrinn vegna þess að við vissum að verkamenn stóðu miklu verr að vígi en opinberir starfsmenn með lífeyrisgreiðslur. Þess vegna var það kerfi sett á.

Við megum ekki nota það til að segja að menn hafi verið skertir um þetta. Þá fer umræðan öll í vitleysu. En það er hægt að bæta kjör Íslendinga allra og því meira sem við getum bætt kjör þeirra þeim mun líklegra er að við getum hækkað enn þá meira þá sem standa höllum fæti.