Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:25:00 (59)

1999-10-05 17:25:00# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:25]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti hv. þm. senda ýmsum stjórnendum heilbrigðisstofnana kaldar kveðjur. Þeir hafa staðið í því mörg undanfarin ár að berjast við halla á stofnunum sínum. Ég hef m.a. setið í stjórn slíkrar stofnunar og veit hvers konar höfuðverkur það er að reyna að fara eftir þeim tillögum um fjármuni til rekstursins sem hafa komið frá Alþingi. Þegar menn hafa í neyð sinni lagt til að dregið yrði saman í rekstri þessara stofnana þá hafa komið skýr skilaboð frá ráðherra eða öðrum um að það megi alls ekki gera, það verði að halda uppi þjónustunni.

Þannig hefur tvískinnungshátturinn verið stundaður og þess vegna tek ég undir með hv. þm. um að það er héðan sem uppspretta þessa vandamáls kemur og það þarf að taka á því hér. Hér þurfa menn að forgangsraða, hér þurfa menn að segja hvaða starfsemi þeir vilja að sé sinnt. Þá geta menn gagnrýnt á eftir hvernig að þessu er staðið frá hendi stjórnenda.

En á undanförnum árum hefur það ekki verið þannig að stjórnendur heilbrigðisstofnana hafi getað gengið að þeirri stefnumörkun vísri sem ætti að vera til staðar.