Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:28:42 (61)

1999-10-05 17:28:42# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir að auðvitað á að ræða þessi mál. En það er sorgleg staðreynd að á þeim áætlunum sem stjórnendur þeirra ríkisstofnana sem eru til umræðu hafa lagt fram hefur ekki verið tekið mark mörg undanfarin ár. Ævinlega hafa verið settar einhverjar aðrar tölur, einhverjar óraunhæfar tölur um rekstur þessara stofnana á blöð frá Alþingi. Það er auðvitað vandamálið. Menn þurfa fyrst að finna út úr því sem hv. þm. var að tala um áðan, hvernig á að reka þetta betur, áður en þeir skera niður framlög til þessara stofnana en krefjast sömu þjónustu áfram eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Það er hægt að fara í gegnum áætlanir þessara fyrirtækja, áætlanir stjórnenda þessara heilbrigðisstofnana og sjá að þær hafa staðist en niðurstöðurnar sem hafa komið frá hv. Alþingi hafa ekki gert það.