Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:29:57 (62)

1999-10-05 17:29:57# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:29]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alrangt. Við fjárlagagerðina í fyrra var bætt inn í grunninn 1.647 millj. fyrir utan það að gamlir halar voru teknir. Vitnisburðurinn liggur fyrir, það átti að duga. Það var alls ekki svo að Alþingi væri að skera þetta niður. Alþingi var að bæta við þetta. Það reyndist svo að þetta dugði ekki. Þá verða menn líka að spyrja sig hvers vegna.

Spurningin heldur áfram. Hvað þá með fjárveitingarnar í ár? Ætlum við að standa núna næsta haust og segja: Ja, því miður þetta fór bara 15%, 13% eða 14%. Við getum það ekki. Við verðum að reyna að hemja okkur og vita hvað við erum að gera. Við erum ekkert á móti heilbrigðismálum. Hver einasti Íslendingur vill leggja mikla peninga til heilbrigðismála. Við höfum ekkert á móti forstjórum sjúkrahúsa. Það vill hver einasti Íslendinga hafa góða þjónustu. Við viljum bara vita hvað við erum að gera.