Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:31:21 (63)

1999-10-05 17:31:21# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mönnum er tíðrætt um hag stjórnarheimilisins. En við skulum víkja að litlu einingunum, þúsundum heimila úti um allt land. Við höfum rætt barnabæturnar og kosningasvikin hér í dag og hvaða þýðingu þær breytingar hafa fyrir heimilin í landinu.

Við skulum aðeins líta á aðra hluti. Skuldir heimilanna hafa vaxið frá árinu 1995 umtalsvert sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fólks í góðærinu. Skuldir heimilanna hafa vaxið sem hlutfall af eignum fólks úr 41% í nær 48% frá árinu 1995. Þetta eru afskaplega háar tölur. Það er ekki hægt að ýta þeim til hliðar eða gera lítið úr þeim.

Hvert verðbólgustig hækkar skuldir heimilanna hátt í 4 milljarða, 3,7 milljarða, ef ég man tölurnar rétt úr frv. Launin eru ekki vísitölutengd, skuldirnar eru vísitölutengdar.

Á þessu ári er hækkun bensínverðs orsök vísitöluhækkunar neysluverðs sem nemur um 27,6%, ég er hérna með gott yfirlit yfir þetta, næstum þriðjungs hækkunarvaldur á vísitölunni. Aðeins fasteignaverðið er hærra, það er 33%. Herra forseti. Ríkið, ríkisheimilið er áhrifavaldur í báðum þessum þáttum.

Við ætlum að ræða bensínverðið hér á morgun. Það skiptir miklu máli að fá svör við spurningum varðandi bensíngjald og tekjur. Þess vegna spyr ég enn á ný: Fær ríkið á þessu ári aukatekjur af vörugjaldi og af virðisaukaskattinum af bensíni? Og hversu mikið? Í öðru lagi: Verður hækkun á þeim tekjum sem ríkið fær af virðisaukaskatti á næsta ári? Þessar upplýsingar er ekki að finna í fjárlagafrv.

Herra forseti. Í þessari umræðu eru þrír talsmenn stjórnarflokkanna, fjmrh. og tveir talsmenn úr fjárln. Ég býst ekki við að fá svarið hér og nú en einhver þeirra hlýtur að koma síðar í þennan ræðustól og þá óska ég svara við þessu.