Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:36:44 (66)

1999-10-05 17:36:44# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EMS
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt í upphafi að taka undir meginmarkmið fjárlagafrv. um að nýta bætta afkomu til að draga úr þenslu í efnahagslífinu og greiða niður skuldir ríkissjóðs og bæta stöðu ríkissjóðs að öðru leyti. Gert er ráð fyrir tekjuafgangi upp á 15 milljarða kr. og vissulega eru það merk tíðindi og ástæða til að taka eftir slíku.

Þetta efnahagslega útspil er mikilvægt því að eins og bent var á fyrir mörgum mánuðum voru teikn á lofti um þenslu og hækkandi verðbólgu. Þessi teikn hafa nú verið viðurkennd af ríkisstjórninni. Vonandi tekst að koma í veg fyrir meiri hækkun verðbólgu en orðið er þó vissulega hefði verið betra að grípa fyrr til aðgerða. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að vita ekkert um slíka hluti fyrr en eftir kosningar og þegar nýir kjarasamningar nálgast.

Þrátt fyrir að meginmarkmið frv. sé jákvætt er ýmislegt sem áhyggjum veldur. Reynsla síðustu ára sýnir að því miður eru ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpa ekki nægilega traustar. Þetta á ekki síður við nú en um fyrri ár. Á yfirstandandi ári er t.d. áætlað að heildartekjur verði um 10 milljörðum hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir og að útgjöld fari um 5 milljarða fram úr fjárlögum, þar af rekstrargjöld um 3 milljarða --- mest í heilbrigðiskerfinu, er ríflega 2 milljarða --- og um hálfan milljarð í menntamálum, einkum í framhaldsskólum.

Því er spurt: Eru fjárlögin fyrst og fremst sýndarveruleiki? Margt sem kom fram í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar virðist benda til þess og í grg. frv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Helsti vandi á útgjaldahlið í ár er rekstrarkostnaður í heilbrigðiskerfinu umfram heimildir fjárlaga.``

Enn á ný skal leita leiða. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson rifjaði upp forn ummæli í sama dúr og þrátt fyrir það virðast enn ekki finnast lausnir á því að ná utan um útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Enn eru nefndir til skýringar aðlögunarsamningar, sem búið er að nefna nokkur ár í röð, og nú er þó eingöngu sagt að framgangssamningar hjúkrunarfræðinga hafi verið eftir um síðustu áramót. Það er rétt í þessu samhengi að vitna enn í grg. frv., með leyfi forseta, en þar segir m.a.:

,,Forstöðumenn stofnana bera ábyrgð á að farið sé að fjárheimildum og er óheimilt að stofna til skulda utan ríkissjóðs án heimildar í fjárlögum.``

Því er spurt: Hafa forstöðumenn verið dregnir til ábyrgðar þegar þeir hafa ekki haft fjárheimildir til útgjalda og þá hve oft?

Það er hins vegar rétt í framhaldi af þeim umræðum sem hér áttu sér stað eftir ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að nefna dæmi vegna þess að ljóst er að það eru ekki bara forstöðumenn sem bera ábyrgð. Ég tek undir orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að ábyrgð Alþingis í þessu er mikil. Hér er eitt lítið dæmi.

Á þessu ári var stofnuð heilbrigðisstofnun á Austurlandi. Sameinaður var fjöldi heilbrigðisstofnana og er þetta mjög í anda þess sem boðað er nú víða um land. Þess vegna var þetta tilraun sem merk verður að teljast og ég er sannfærður um að þetta var rétt ráðstöfun. Hins vegar gekk Alþingi þannig frá málum að þegar tölur eru bornar saman þá er niðurstaðan eftirfarandi:

Reikningar 1998 gefa niðurstöðuna 685,5 millj. Fjárlög 1999 gerðu ráð fyrir 607,4 millj. Við höfum ekki neinar upplýsingar um áætlun fyrir árið 1999. Við sjáum hins vegar að hin nýja stofnun átti að hefja leik með minni fjárhæðum en áður var til hinna stofnananna þrátt fyrir að engar breytingar væru gerðar að því er fyrir liggur um rekstur.

Í fjárlögum fyrir árið 2000 er gert ráð fyrir að upphæðin verði 699 millj. og sérstaklega er tilgreint að af þeim séu um 30 millj. til að hagræða og efla heilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Sem þýðir í raun að grunntalan nær ekki niðurstöðu reiknings 1998. Því vitna ég enn til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þegar ég segi að ábyrgð Alþingis er mikil vegna þess að forstöðumenn sem eru settir í slíka stöðu sem þessa eru ekki öfundsverðir.

Það er einnig rétt að nefna fleiri atriði sem óvissu valda vegna næsta árs. Hagvöxtur er áætlaður um 2,7% en víðast hvar er talið að hagvöxtur umfram 2,5--3% á ári geti ekki samrýmst almennum efnahagsstöðugleika. Árið 1998 var hagvöxtur um 5,1% og var áætlaður 5,8% árið 1999. Hér er því gert ráð fyrir að hagvöxtur lækki nokkuð hratt og verður að vitna enn til þess sem gert var ráð fyrir fyrir þetta ár því þá var spáð lægri hagvexti en raun varð á.

Sama er að segja um verðhækkanir. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr þeim á næsta ári og virðist nú vera spáð svipað og gert var í fyrra, en niðurstöðurnar urðu þær, eins og kunnugt er, að verðhækkanir urðu miklum mun meiri.

Rétt er að vekja athygli á því að það eru tveir þættir sem fyrst og fremst standa upp úr varðandi það sem valdið hefur þessari miklu hækkun milli ára. Það er annars vegar mikil hækkun á bensínverði, um 25%, og hins vegar hækkandi fasteignaverð, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu. Því er spurningin sú: Hvað með áframhaldið? Eru líkur á því að bensínverð hætti að hækka? Ýmislegt bendir til þess að það nálgist toppinn en óvíst hvenær það verður. Og það er enn óvissa með hækkun fasteignaverðs. Því miður virðist ekki hafa dregið úr fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu, sem er orðin ógnvekjandi og ég mun koma að síðar í ræðu minni.

Þá er þriðji óvissuþátturinn gagnvart næsta ári óvissan um launaþróun því flestir kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði eru lausir í febrúar og kjarasamningar opinberra starfsmanna eru lausir seinna á árinu. Síðan er gert ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 1--1,5% á næsta ári en gert er ráð fyrir að hann muni hækka um 5% á þessu ári og gert er ráð fyrir að laun hækki um 4--5% á næsta ári. Það verður að segjast eins og er að ólíklegt er að þessar tölur standist.

Þessir þættir skipta hins vegar miklu máli um þróun næsta árs. Tekjulega séð er gert ráð fyrir að tekjuskattar einstaklinga hækki um 7%, gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur, sem talinn er mjög óviss, hækki örlítið. Það er rétt að rifja upp að fyrir þetta ár var allt of lítið áætlað í fjármagnstekjuskatt, hann skilaði mun meira en gert var ráð fyrir. Og áætlað er að tekjuskattur lögaðila hækki um 1 milljarð eða í 9,5 milljarða. Það verður að segjast að þarna er ýmislegt sem bendir til að niðurstöður gætu orðið aðrar og rétt að spyrja hvort því fari nú ekki senn að ljúka að lögaðilar geti nýtt fyrnd töp fyrri ára.

[17:45]

Megineinkenni fjárlagafrv. er auðvitað það að ekki er tekið á tekjuskiptingunni. Bætur almannatrygginga hækka ekki til samræmis við launaþróun og skattleysismörk fylgja ekki launaþróun né hækkun lægstu taxta. Þess vegna eykst misskiptingin og jöfnunaráhrif skattkerfisins minnka. Þá halda barnabætur áfram að lækka, nú um 230 milljónir milli ára. Það er von að spurt sé: Hvar eru barnakortin þeirra framsóknarmanna?

Til að slá á þenslu er eðlilega frestað framkvæmdum og eins og aðrir hafa gert hér í dag vil ég einnig rifja upp eina framkvæmd sem hefði verið nær að hefja ekki vegna þess að ef stjórnarherrarnir hefðu litið á raunveruleikann þá hefðu að sjálfsögðu aldrei verið hafnar framkvæmdar við þjónustuskála Alþingis. Hins vegar mun framkvæmdin í þeirri stöðu sem hún mun verða næsta árið vera vitnisburður um fyrirhyggjuleysi stjórnvalda.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er m.a. minnt á vilja til að auka veg menntunar og rannsókna. Hver er metnaður ríkisstjórnarinnar í þessum málum? Fyrst skulum við horfa til rannsóknanna.

Niðurstaða reiknings 1998 sýnir að varið var 6,9 milljörðum til rannsókna en fjárlög 1999 gera ráð fyrir 6,3 milljörðum. Hins vegar vantar áætlun fyrir 1999 en fjárlög 2000 gera ráð fyrir 6,5 milljörðum. Það þýðir að það er lækkun um 5% frá niðurstöðum reiknings 1998 til fjárlaga árið 2000. Sér er hver metnaður ríkisstjórnarinnar í þessum efnum.

Af tilviljun lít ég á eina stofnun í menntageiranum, Námsgagnastofnun. En eins og kunnugt er hefur nýverið verið sett ný aðalnámskrá grunnskóla og talið líklegt og víst að Námsgagnastofnun þurfi að auka mjög útgáfu sína. Þrátt fyrir það sýnir samanburður talna að ekki er um aukningu að ræða frá niðurstöðu reiknings 1998 en þá fékk stofnunin 274,5 milljónir. Fjárlög 1999 gerðu ráð fyrir 258,5 milljónum en það vantar enn áætlun fyrir árið 1999. En fjárlög nú gera ráð fyrir 266,2 milljónum. Einhvers staðar verður því að skera í þeirri ágætu stofnun og ég tala ekki um ef hún á að standa undir þeim verkefnum sem fylgja hinni nýju aðalnámskrá.

Herra forseti. Ég vil að lokum ræða nokkuð þátt byggðamála. Það er ljóst og segir í þjóðhagsáætlun, sem hæstv. forsrh. hefur lagt fyrir þingið, að enn eru búferlaflutningar í sama fari og fyrri ár. Í áætluninni er gert ráð fyrir að það muni fjölga á höfuðborgarsvæðinu um 4.500 manns á þessu ári. Í þessu samhengi vil ég vitna í borgarstjóra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem segir í viðtali við DV sl. laugardag, með leyfi forseta:

,,Okkur sýnist sem höfuðborgarsvæðið geti tekið við hundrað þúsund manns til viðbótar því sem þar býr í dag en þá sé það líka fullbyggt.``

Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur það að það tekur rétt rúmlega 20 ár með sama áframhaldi að fylla þetta svæði. Þetta er uggvænlegt og nauðsynlegt að brugðist verði við.

Í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001. Við erum nú að fjalla um fjárlög fyrir árið 2000 þannig að eðlilegt verður að telja að þar inni sé töluverð tenging við hina nýsamþykktu þáltill. En hvert var markmið þáltill.? Jú, að treysta búsetu á landsbyggðinni, stefna að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010. Já, það þarf heldur betur að taka á ef ná skal markmiðunum.

Í 6. lið þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.``

Rétt er í þessu samhengi að minna á þáltill. sem samþykkt var árið 1995 þar sem markmiðið var að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en fækka þeim á höfuðborgarsvæðinu. Hér er dregið úr en rétt er að minna á að sú þáltill. náði ekki betur fram að ganga en svo að niðurstaðan varð öfug. Nú er markmiðið örlítið lægra en því miður, herra forseti, sé ég ekki að neitt sé í fjárlögum næsta árs sem bendi til þess að taka eigi á þessum 6. lið.

Í 9. lið sömu þáltill. segir, með leyfi forseta:

,,Menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám. Jafnframt verði bætt skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar.``

Það segir í fjárlögunum að efla eigi rekstur framhaldsskóla um 265 milljónir. Jafnframt kemur fram að í menntamálum sé gert ráð fyrir að farið verði fram úr um hálfan milljarð og fyrst og fremst í framhaldsskólum. Spurt er hver raunhækkunin sé á milli ára því ekki er hægt að sjá það í gögnum frv.

Framlög til framhaldsskóla eru reiknuð meira og minna út frá reiknilíkani sem sett hefur verið samkvæmt reglugerð. Í grg. fjárlfrv. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þá hefur líkaninu verið breytt til að taka meira tillit til viðbótarkostnaðar sem landsbyggðarskólar með færri en 300 nemendur verða fyrir vegna staðsetningar og smæðar. Framlög til fámennra landsbyggðarskóla hækka um 40 millj. kr. umfram það sem almennt gerist.``

Þegar lesið er örlítið lengra í greinargerðinni kemur hins vegar fram að á þessu ári hafi verið liður óskiptur þar sem sömu upphæð var varið að því er sýnist til sömu skóla. Þess vegna er spurt hvort eitthvað sé gert til þess að tryggja stöðu þessara smáu skóla á landsbyggðinni vegna þess að ef skoðuð er tafla sem birt er í grg. með frv. er áberandi að mjög víða lækkar nemendaígildi framhaldsskóla milli áranna 1999 og 2000 og sérstaklega í skólum á landsbyggðinni en í reikniformúlunni er nemendaígildið einmitt grunntala og þess vegna sýnist nokkuð ljóst að þetta geti lækkað framlög til framhaldsskóla á landsbyggðinni.

Herra forseti. Örlítið að lokum, örstutt.

(Forseti (ÍGP): Tíminn er liðinn.)

Örstutt, herra forseti, það segir eitt í viðbót í þáltill.

(Forseti (ÍGP): Tíminn er liðinn.)

Það er að Byggðastofnun eigi að meta reglulega áhrif lagasetningar og fjárlagagerðar. Ég segi því, herra forseti, að lokum: Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þetta reglulega mat Byggðastofnunar á fjárlagagerðinni fari fram hið fyrsta. Það verður fróðlegt að bera það saman við hina samþykktu þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 1999 og 2001.

(Forseti (ÍGP): Ég minni hv. þm. á að virða tímasetningar og ræðutíma.)