Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 17:59:43 (70)

1999-10-05 17:59:43# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[17:59]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að það er mjög til fyrirmyndar hvernig upplýsingar eru birtar um fjármál framhaldsskólanna og hvernig fjárveitingum til þeirra er háttað. Ég geri ráð fyrir því að þetta verði okkur mjög mikilvægt gagn í störfum fjárln.

[18:00]

Það sem ég var hins vegar að benda á var að þegar sett eru fram markmið um að efla t.d. tiltekna tegund af skólum þarf þess auðvitað að sjást staður í fjárframlögum vegna þess að það er grunnurinn að því hvernig tekst til með þessa skóla.

Sú samningsgerð sem gerð hefur verið við skólana er mjög til fyrirmyndar en hins vegar er það ljóst og hæstv. menntmrh. veit það að sjálfsögðu jafn vel og ég og fleiri væntanlega hér inni að sú reikniformúla sem notuð hefur verið er að sjálfsögðu ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk. En töluverð vinna hefur verið lögð í það að því er mér er tjáð að reyna að bæta hana. Við skulum vona að úr henni verði fljótlega þannig gagn að hún nálgist fullkomleikann og síðan megi hugsanlega yfirfæra þá reynslu á fleiri stofnanir.

Ég endurtek að ég fagna því mjög hvernig þessar upplýsingar eru lagðar fram og ég vona að það verði að sjálfsögðu til þess að bæta upplýsingastreymið og ekki síður að bæta stjórnun þessara mikilvægu ríkisstofnana vegna þess að eins og við höfum rætt hér áður hafa ýmsar fleiri ríkisstofnanir átt erfitt með að halda sig innan fjárlagarammans. Við skulum vona að það verði hægt að ná svipuðum tökum og tekist hefur á seinni árum gagnvart framhaldsskólunum.