Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:01:43 (71)

1999-10-05 18:01:43# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, KLM
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Það fjárlagafrv. sem lagt er fram af hæstv. fjmrh. er að sjálfsögðu tímamótafrumvarp, miðað við frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, fyrsta árið á nýrri öld. Það er að sjálfsögðu Íslandsmet hvað það varðar að skila methagnaði eða metafgangi af fjárlögum eða 15 milljörðum kr. Ég ætla svo sem ekkert mikið að gagnrýna það, sjálfsagt er að skila fjárlagafrv. með afgangi í góðærinu. En það eru ýmis atriði í fjárlagafrv. sem ég stoppa dálítið við og ætla að gera að umtalsefni.

Megintilgangurinn er að hemja þenslu, sem við sem búum úti á landi þekkjum ekki mikið en höfuðborgarbúar þekkja meira. Því er eðlilegt að dregið sé úr framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu til þess að draga úr þenslu. Það er kannski ekkert óeðlilegt við það að ekki sé dregið úr framkvæmdum á landsbyggðinni til að draga úr þenslu vegna þess að ríkisframkvæmdir þar eru frekar litlar þannig að það er af litlu að taka. Nægir í því efni að benda á sem dæmi flokksbræður fjmrh. norður á Siglufirði sem sitja í bæjarstjórn Siglufjarðar, sem gerðu mjög harðorða ályktun um það þegar sveitarstjórnarmenn og sveitarfélög voru gagnrýnd fyrir það að stuðla að þenslu í landinu. Ég hef ekki tölur handbærar um það en mér þætti ekki ólíklegt að fjárfestingartölur sveitarfélaga í landinu séu kannski ekki miklu hærri en framkvæmdir í Smáranum í Kópavogi sem er byrjað á. Þessi mikli afgangur af fjárlögum er eins og ég segi vafalaust góður en ég hefði sannarlega viljað sjá hann minni.

Ég hefði viljað sjá tölur lagðar til ýmissa framkvæmda og ýmissa mála á landsbyggðinni einmitt til þess að draga úr þenslunni á höfuðborgarsvæðinu. Það væri þensluminnkandi ef einhverjar aðgerðir væru þannig í frv. að þær gerðu það að verkum að við þyrftum ekki að horfa á eftir tvö þúsund manns á ári flytja frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og skapa þá þenslu sem því fylgir. Ég held að það séu öfugmæli hjá hæstv. forsrh. að kenna lóðaskorti á höfuðborgarsvæðinu um þensluna. Ætli það sé ekki dálítið til í því að menn eru hér að taka þátt í að sporðreisa landið?

Ekki alls fyrir löngu eða fyrir ári skipaði hæstv. forsrh. svokallaða byggðanefnd forsrh. Ég var skipaður í hana af þingflokki jafnaðarmanna. Þetta var þverpólitísk nefnd sem vann fljótt og vel og skilaði þverpólitískum niðurstöðum og við kölluðum það bráðaaðgerðir sem við vildum ráðast fyrst í. Það voru sem sagt tillögur um að stíga tiltölulega stórt skref í átt að jöfnun húshitunar, að færa dýra húshitun sem kostar íbúa landsbyggðarinnar flesta 130--140 þús. kr. á ári niður í svokallaða meðaldýra húshitun eða í kringum 60 þús. Áætlað er að þetta kosti um 750 millj. og þetta átti að gerast á þremur árum.

Ég get ekki séð neitt um það í þessu frv. Ég get ekki séð annað en að hæstv. forsrh. og ríkisstjórnin öll sé að svíkja þessi loforð. Það er ekkert um þetta í fjárlagafrv. Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. fjmrh. út í hverju það sæti að ekki skuli vera stigið skref í þessa átt.

Ég vil líka geta um hitt aðalatriðið sem frá byggðanefnd forsrh. kom um jöfnun námskostnaðar fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Það voru allir sammála um það og fulltrúar Sjálfstfl. líka að eðlilegt væri að allir sætu við sama borð við það að sækja sér nám. En það er aldeilis ekki. Það er margfalt dýrara fyrir íbúa á Raufarhöfn að sækja framhaldsskóla en íbúa í Reykjavík sem þarf ekki annað en að ganga yfir götuna. En það er heldur ekkert í þessu frv., hæstv. fjmrh., um að stíga aukin skref í þessa veru. Það eru nánast sömu tölur og voru áður og ég geri lítið með það þegar rætt er um aukningu sem var árið þar á undan sem komu ekki í raun til aukningar til þeirra námsmanna vegna þess að námsmönnum fjölgaði mjög. Þarna eru því enn svikin loforð.

Ég vil aðeins segja að mér sýnast þessi tvö atriði vera brotin sem ég geri hér að umtalsefni og mér eru mjög kær --- og ég leit svo á að væri full samstaða um frá þessari byggðanefnd og fögur orð hæstv. forsrh. bæði fyrir kosningar og eins úr þessum ræðustól þegar stjórnarskipunarlögin voru afgreidd. Það er ekkert um það að þetta eigi að gerast. Eru það skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til íbúa landsbyggðarinnar núna nokkrum mánuðum eftir þessi loforð að þetta skuli svikið og ekki koma til? Er þetta ekki hugur ríkisstjórnarinnar til íbúa landsbyggðarinnar? Er þetta ekki hugur þeirrar ríkisstjórnar sem sl. fjögur ár hefur látið það viðgangast og horft á það aðgerðalaust að tíu þúsund manns hafa flutt frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis? Útlit er fyrir að tvö þúsund manns eða heill kaupstaður flytjist frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis á þessu ári.

Þetta eru svikin loforð, þetta eru kaldar kveðjur og þess vegna með Íslandsmetinu, hæstv. fjmrh., um tekjuafgang sýnist mér menn líka vera að slá enn eitt Íslandsmetið í þessa veru og ætli ekkert að nota góðærið til þess að senda út á land til þess að sporna gegn þeim þjóðarvanda sem þar er.

Aðeins vegna þess að ég greip það hér með mér, vil ég lesa upp, með leyfi forseta, svar hæstv. forsrh. við spurningum sem ég varpaði fram í jómfrúrræðu minni hvað varðar þessa tvö þætti, þ.e. jöfnun húshitunarkostnaðar og jöfnun námskostnaðar. Forsrh. sagði, þegar hann var búinn að vitna í ræðu mína, ,,... að það væri að sjálfsögðu ætlunin að fara eftir tillögum nefndarinnar í þeim efnum og framkvæma í áföngum á þremur árum. Það voru tillögur nefndarinnar, því var lýst yfir í þinginu áður en þingið fór heim að þessar tímasetningar mundu gilda ...``

Ég sakna þess mjög að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér í dag þegar 1. umr. um fjárlög fer fram. En varaformaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh., situr hér og ég spyr hann út í þessi atriði og bið hann að gefa okkur svör við því sem ég hef gert að umtalsefni. Af hverju er ekkert fé veitt í þessa málaflokka?

Ég ætla svo aðeins að lokum bara rétt að geta um það sem kemur fram og er líka sending hæstv. ríkisstjórnar til elli- og örorkulífeyrisþega um þau 4% sem kemur fram í frv. að þeir eigi að fá 1. jan. nk. Þetta eru skilaboð hæstv. ríkisstjórnar til þessara hópa í þjóðfélaginu, þetta er hluti þeirra af góðærinu. Meðan aðrir geta fengið 16--50% eða meira í kauphækkun þá skulu elli- og örorkulífeyrisþegar aðeins fá 4%. Breiðu bökin eru greinilega fundin í þessu þjóðfélagi.

Að lokum nokkur orð um barnabætur og svikin kosningaloforð framsóknarmanna. Aumt er hlutverk þeirra í ríkisstjórninni að þurfa að sætta sig við það að svíkja öll kosningaloforð, sem komu rétt fyrir kosningar --- kortéri fyrir kosningar, um barnabætur. Aumt er það hlutverk þeirra að þurfa að slá af öllum kosningaloforðum sínum eingöngu til þess að ná Íslandsmetinu um fjárlagaafganginn. Það að skerða barnabætur um 33% sl. fjögur ár er Íslandsmet og að lækka barnabæturnar nú milli ára um 230 milljónir eru náttúrlega kaldar kveðjur til barnafólks. Barnabætur hafa verið stórskertar undanfarin ár og í tíð ríkisstjórnarflokkanna sl. fjögur ár. Þetta eru þær kveðjur sem barnafólk fær.

Ég segi bara rétt að lokum vegna þessara tveggja málaflokka sem ég hef tæpt á úr fjárlagafrv., jöfnun húshitunarkostnaðar og jöfnun námskostnaðar og barnabæturnar, mér finnst ekkert óeðlilegt við það að framsóknarmenn hafi þurft að leita til sálfræðings áður en þeir fóru í síðustu kosningabaráttu. Ég mundi líka halda að þeir þyrftu að fara í framhaldskúrs hjá sálfræðingnum til að verja þær gjörðir sínar sem koma fram í þessu fjárlagafrv. og þau sviknu loforð sem þar eru. Áður fyrr var svolítið litið til þess að framsóknarmenn væru tiltölulega landsbyggðarhollir enda hafa þeir samkvæmt skoðanakönnunum sótt fylgi sitt mest út á landsbyggðina. Ég get ekki séð að það sé neitt á framsóknarmenn að treysta í þessum efnum eins og þetta kemur nú fram. Það er á svo mörgum sviðum og það virðist vera að landsbyggðin skipti orðið engu máli í taflinu innan ríkisstjórnarinnar við þann herskara þingmanna Sjálfstfl. sem af höfuðborgarsvæðinu kemur að framsóknarmennirnir mega sín lítils gagnvart landsbyggðinni. Enn einu sinni fá landsbyggðarmenn kaldar kveðjur við fjárlagafrv. og landsbyggðarmenn verða ekki sakaðir um þenslu í þjóðfélaginu.

En ég ítreka fyrirspurnir mínar til hæstv. fjmrh. gagnvart jöfnun húshitunarkostnaðar þar sem vantar að mér sýnist 250 milljónir, miðað við gefin loforð hæstv. forsrh., og einhver hundruð millj. vantar í jöfnun námskostnaðar.