Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 18:39:52 (80)

1999-10-05 18:39:52# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[18:39]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sannfærð um að lækkun skatta á fyrirtæki og lækkun skatta á fjármagnstekjur hefur kannski haft hvað mest áhrif í þá átt að örva verðbólguna eins og við horfum upp á í dag. Sérstaklega held ég að það hafi verið mjög vanhugsuð aðgerð á árinu 1998 þegar skattar voru lækkaðir á fyrirtæki. Ég held að þær gríðarlegu fjárfestingar sem fyrirtækin í landinu eru að fara út í, samanber verslunarfyrirtækin sem ég tiltók áðan, sýni að þessi fyrirtæki hafa hreinlega of mikið fjármagn handbært.

Það getur vel verið að það eigi ekki að skattleggja fólk og fyrirtæki til blóðs, ég hef aldrei mælt með því. En hófleg skattlagning, ég tala nú ekki um á fjármagnsgróða, að borgaður sé skattur af fjármagnsgróða eins og af öðrum tekjum er bara sjálfsagt mál. Hvers vegna ekki? Ég tel enga ástæðu til að ríkissjóður sé með sérstakar aðgerðir til að örva það hlutabréfabrask sem viðgengist hefur hér í þjóðfélaginu undanfarið og við höfum mörg horft á með vaxandi hryllingi.