Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 19:00:16 (84)

1999-10-05 19:00:16# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[19:00]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Fram er komið fjárlagafrv., skynsamlegt að gerð þar sem ábyrgð og öryggi ræður för. Við þurfum að rétta kúrsinn lítillega en halda áfram örugg til meiri farsældar eins og fram hefur komið í málflutningi hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. og vissulega í máli fleiri.

Ég mun ekki fara í einstök efnisatriði frv. heldur fjalla stuttlega um markmiðin og forsendurnar í fjárlagafrv. Fram undan er mikil vinna við frv. Það hefur aldrei gerst að fjárlagafrv. fari óbreytt í gegnum þingið. Það verður varla heldur núna. Hins vegar er meginmarkmiðið alveg skýrt. Við stefnum að því að skila hálfum öðrum tug milljarða í tekjuafgang á ríkissjóði og búa þannig í haginn fyrir framtíðina með því að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs. En það er þó tvennt sem getur breytt miklu áður en frv. verður samþykkt í desember.

Í forsendum fjárlaga er ekki gert ráð fyrir sölu hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem bætir væntanlega stöðu ríkissjóðs talsvert á þessu ári. Ríkið ætti því að geta greitt niður skuldir sínar um nokkra milljarða á árinu sem gæti síðan þýtt lækkandi vexti. Í forsendum fjárlaga er ekki heldur gert ráð fyrir áhrifum Fljótsdalsvirkjunar, en reikna má með að áhrifa þeirra gæti þegar á næsta ári þótt það yrði að sjálfsögðu enn þá meira árið 2001. Gangagerð tekur þar þrjú ár svo væntanlega verður að hefjast handa á næsta sumri, en á næsta haustþingi verða þessi mál til lykta leidd. Ef þetta tvennt sem er í sjónmáli væri tekið með í forsendum fjárlaga, þá liti dæmið dálítið öðruvísi út. Hagvöxtur á næsta ári yrði þá um 5% eins og í ár og tvö árin þar á undan.

Ég er sammála hv. 5. þm. Vestf., Einari Oddi Kristjánssyni, að við erum ekki komin að neinum endimörkum hagvaxtar en við þurfum að vanda okkur eins og fram kom í máli hans. Við þurfum að hægja á einkaneyslu og innflutningi. Ef það tekst ekki, þ.e. að hægja á þessari tegund umsvifa í þjóðfélaginu, þá þýðir það að vísu meiri hagvöxt en það er ekki hagvöxtur sem við viljum sjá. Það er eiginlega ef svo má segja illkynja hagvöxtur því að hann mundi stafa af erlendri skuldasöfnun og vaxandi viðskiptahalla vegna mikillar neyslu. Góðkynja hagvöxtur felur hins vegar í sér eignamyndun og auknar framtíðartekjur. Þetta er eins og með mannslíkamann, til eru tvær tegundir kólesteróls, gott og slæmt. Sama gildir um það hvernig hagvöxturinn er tilkominn. Þó að ríkið fái tekjur af þenslunni er það stundargróði, en ríkið, þjóðfélagið og þjóðlífið tapar. Af þessum ástæðum er stigið varlega á bremsurnar. Þenslumerkin eru skýr. Það gæti verið hætta á leiðinni fram undan. Þess vegna þarf að stíga létt á pedalana.

Það eru verðhækkanir, útlánaaukning bankastofnana, viðskiptahalli og skortur á vinnuafli í ýmsum greinum atvinnulífsins á vissum stöðum á landinu.

Nú er svo komið að framleiðni fyrirtækja og afkastageta getur ekki aukist svo mikið þetta lengi nema ný fjárfesting komi til í atvinnulífinu. Að öðrum kosti fer verðbólgan af stað með sífellt auknum viðskiptahalla. Þetta er því eins og hæstv. forsrh. sagði í gærkvöldi, annaðhvort náum við þessu með mjúkri lendingu og þá kemur þetta ekki við neinn og enginn finnur til eða við brotlendum með verulegum þjáningum margra. Ef þetta tekst ekki, þá upplifum við verðbólgu og gamaldags kollsteypur sem mörg okkar erum uppalin við.

Herra forseti. Auðvitað yrði eftir sem áður að taka á því ástandi sem þá væri upp komið og með öllum tiltækum ráðum. Tækin sem ein eru til þess að bjarga okkur lifandi sem þjóðfélagi út úr þeirri brotlendingu eru þrenns konar. Það væru frekari vaxtahækkanir, frekari samdráttur opinberra framkvæmda og jafnvel niðurskurður á opinberum rekstri og í þriðja lagi hækkun skatta, en allt mundi þetta að sjálfsögðu þýða versnandi lífskjör. Þetta má ekki gerast og þess vegna verður okkur að takast ætlunarverk okkar sem birtist í fjárlagafrv., að hægja á ferðinni varlega en halda eftir sem áður áfram þægilegum ferðahraða fram til betri hags. Það á að geta tekist bærilega með styrkri efnahagsstjórn og fjárhagsáætlunum sem standast.

Ástæða er til, herra forseti, að fagna sérstaklega samningi Háskóla Íslands og ríkisstjórnarinnar frá í dag. Með sama hætti þarf að gera samninga við sjúkrahúsin, einkum þau stóru og fjárfreku í Reykjavík. Áætlanir í fjárlögum verða að standast á heilbrigðissviðinu eins og á öðrum sviðum. Undanfarið hefur löggjafinn fært ákvarðanavald til stofnana. Virkni þeirra er aukin og ábyrgð þeirra er aukin, en valdinu fylgir líka sú ábyrgð að fara að þeim lögum sem sett eru. Forstjórarnir, framkvæmdastjórarnir hafa ekki fjárveitingavald. En ef það reynist rétt sem hér hefur komið fram í umræðum í dag, að milljarðaumframkeyrsla eigi sér stað á vissum heilbrigðisstofnunum og í heilbrigðisgeiranum, þá eru það lagabrot, fjárlagabrot. Gera þarf samning um heilbrigðisþjónustuna, halda sama þjónustustigi a.m.k. en það þarf ekki að kosta svona mikið. Við Íslendingar stöndum okkur vel í fjárframlögum til heilbrigðismála í samanburði við aðrar þjóðir, ekki síst að teknu tilliti til aldurssamsetningar þjóðarinnar og heilbrigðis.