Fjárlög 2000

Þriðjudaginn 05. október 1999, kl. 19:49:19 (88)

1999-10-05 19:49:19# 125. lþ. 3.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2000# frv. 124/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 125. lþ.

[19:49]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd og leiðrétting. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að við höfum stundum rætt um einkaframkvæmd í þessum sal og eigum án efa eftir að gera það í framtíðinni og á komandi dögum vegna þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefur lagt fram þáltill. þar sem tekið er á þeim málum. Hæstv. fjmrh. segir að verið sé að skoða möguleika á einkaframkvæmd í skólakerfinu og í heilbrigðiskerfinu. Ákvarðanir hafi ekki verið teknar að öðru leyti en því að Iðnskólinn í Hafnarfirði verði reistur og rekinn á þeim forsendum. Síðan er verið að kanna hjúkrunarheimili hér á höfuðborgarsvæðinu einnig.

Það sem ég vildi leiðrétta er sú staðhæfing hæstv. fjmrh. að reynslan af þessu fyrirkomulagi í Bretlandi, ,,private finance initiative``, einkaframkvæmd, hafi verið góð. Það er rangt. Hún er slæm og það get ég stutt tölulegum rökum. Ég hlakka til að gera það í umræðu á næstu dögum.