Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:12:26 (97)

1999-10-06 14:12:26# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst túlkun þingmannsins undarleg að kalla það hótanir að ég geri grein fyrir því hvernig þetta mál er vaxið með tilliti til gildistöku. Ég hef bara sagt fólki frá því, eins og eðlilegt og rétt er, á hvern klukkan tifar í þessu máli. Málið er komið úr mínum höndum um leið og umræðunni er lokið og þá verður efh.- og viðskn. að gera það upp við sig hvenær hún afgreiðir málið og það er að sjálfsögðu í hennar valdi.

Gildistakan getur að sjálfsögðu ekki verið aftur fyrir sig. Hvernig ætlar hv. þm. til að ná til allra þeirra sem hafa keypt sér bensín frá 1. október og skila þeim þessum tæplega 3 krónum á lítra sem um er að ræða? Þetta eru tæplega 3 kr. en ekki rúmlega 2 eins og þingmaðurinn sagði. Það er því miður ekki hægt.

Varðandi spurningar þingmannsins að öðru leyti, hver var tekjuaukinn í ár og hver hefur hann verið á þessu ári vegna þeirra breytinga sem orðið hafa? Ég svaraði þessu reyndar í gær og það má sjá af töflu á bls. 235 í fjárlagafrv. að gert er ráð fyrir því að tekjur bæði af vörugjaldi á bensíni og hinu sérstaka vörugjaldi, þ.e. bensíngjaldi til vegagerðar, verði minni í ár þegar upp er staðið en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Hvernig má þetta nú vera? Von er að menn spyrji. Það er vegna þess að fjárlögin fyrir þetta ár og sú áætlun sem þau byggjast á miðuðu við hærra bensínverð en síðan varð raunin á seinni hluta síðasta árs og fram eftir öllu þessu ári, fram yfir mitt ár. Þess vegna höfum við verið langt á eftir með þessa spá og þessa tekjuþróun en menn höfðu gert sér vonir um. Bensíngjaldið til vegagerðar var 7 millj. undir til ágústloka og bensíngjaldið í formi vörugjalds, þetta almenna vörugjald var 75 millj. kr. undir miðað við þær tekjur sem voru komnar í kassann í lok ágúst þannig að þar hefur ekki verið neinn tekjuauki. En það er miðað við það, miðað við 10,50, að þá viti menn mun betur hvar þeir standa með tilliti til áætlunarinnar fyrir næsta ár.

Ég hef því miður ekki aðstöðu til að svara meiru að sinni.