Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 14:22:38 (104)

1999-10-06 14:22:38# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að þeir stofni ekki til skulda nema þeir sem eiga einhverjar eignir til að geta borgað. Hv. þm. gleymir enn þá láglaunafólkinu. Það er margt fólk sem þarf að lifa af 70--100 þús. kr., á ekki fyrir framfærslunni, á ekki fyrir brýnustu framfærslu, og þarf þá stundum að taka lán til að geta átt bara fyrir mat út mánuðinn. Og það er vegna þess m.a. hvernig þessi ríkisstjórn hefur búið að því fólki.

Og að hv. þm. leyfi sér að segja að staða bótaþega hafi verulega batnað, ég bið hv. þingmenn að skoða hvernig hún hefur batnað í samanburði við aðra í þjóðfélaginu. Það eru einmitt lífeyrisþegarnir sem hafa verið skotspónn þessarar ríkisstjórnar og hún hefur dregið verulega niður kjör þeirra samanborið við aðra.

Síðan bið ég hv. þm. að kynna sér það hversu margir það eru sem eiga skuldir en engar eignir. Þeir skipta nokkrum þúsundum, ef ekki tugum þúsunda, og við skulum bara skoða það saman, hv. þm.