Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:10:32 (114)

1999-10-06 15:10:32# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af langri reynslu á hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson að vita að þegar menn eru skotnir í kaf er best að sökkva þegjandi og hljóðalaust. Það er nákvæmlega það sem hv. þm. hefur lent í núna. Hann las ekki heima og vissi ekki stefnu síns eigin flokks. Hann vissi ekki stefnu sinna eigin ráðherra.

Rétt er hjá hv. þm. að heildarskattheimta af völdum þessara hugmynda minna mun aukast. En hvaðan mun aukningin koma? Ég lýsti því í ræðu minni: Frá stóriðju. Hvaðan mun hún ekki koma? Frá samgöngutækjum. Þvert á móti lýsti ég því að niðurstaða sérfræðinga Framsfl. í þessum efnum, eftir að hafa skoðað það með aðstoð sérfræðinga fjmrn., væri sú að þegar upp væri staðið mundi þetta ekki auka skattheimtu á samgöngutæki heldur minnka hana. Þetta er ekki niðurstaða mín eða hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur heldur sérfræðinga hæstv. ráðherra Framsfl. Þannig að það er ósæmilegt af hv. þm. að halda því fram að ég hafi sagt að skattheimta af eldsneytisnotkun bifreiða mundi aukast vegna þessa. Þvert á móti taldi ég upp þessi fjögur eða eftir atvikum fimm gjöld sem eru lögð á þessa tegund eldsneytis í dag. Ég sagði: Víkjum þeim burt og búum til nýtt gjald í staðinn sem mætti alveg eins grundvalla á þessum hugmyndum sem hafa komið frá sérfræðingum Framsfl. í umhvrn. eða þeim hugmyndum sem við höfum lagt fram vegna þess að þær eru að eðli til skyldar. Samkvæmt því mun skattaukningin koma fram frá stóriðjunni.

En auðvitað má hv. þm. ekki til þess hugsa að með nokkrum hætti sé hróflað við stóriðjunni sem formaður hans og leiðtogi lífs hans, hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson, hefur lofað kjósendum sínum. Sú verksmiðja verður að koma hvað sem það kostar og ef sett yrði gjald á þá verksmiðju, eins og verið er að gera alls staðar út um hinn siðvædda heim, þá mundi það auðvitað draga úr líkunum á því að af þeim framkvæmdum yrði. Þess vegna kýs hann að túlka orð mín svo að skattaukningin eigi að koma frá bifreiðunum. Það var þvert á móti. Það sem ég sagði var alls ekki það heldur mun hann að öllum líkindum minnka samkvæmt niðurstöðu umhvrn. En auðvitað gæti hv. þm. spurt hæstv. fjmrh. vegna þess að sérfræðingar hans eru sömu skoðunar.