Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:23:55 (118)

1999-10-06 15:23:55# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Örfá orð sem innlegg í þessa umræðu. Ég verð að segja af fullri hreinskilni að mér þykir það bera vott um talsvert hugrekki af hálfu stjórnarliða að leyfa sér að bera Samfylkingunni það á brýn, sem þessir stjórnarflokkar gerðu raunar í aðdraganda síðustu kosninga, að hún hefði það sérstaklega á sinni stefnuskrá að hækka gjöld á almenning þegar að bensíninu kemur, þeir sömu menn sem hafa beint og óbeint staðið að 25--30% hækkun á hverjum einasta lítra. Beint og óbeint, segi ég, því að ég rifja það upp að á vorþinginu eftir síðustu kosningar stóð ríkisstjórninni til boða að fara þá leið, eða aðra ámóta, eins og farin er hér í dag. Á þeim tíma ársins, yfir hásumarið, þegar landinn er sem mest á ferðalögum innan lands og notar farartækin hvað mest, höfðu stjórnarflokkarnir tök og tækifæri til að létta þessum álögum af almenningi og enn fremur að draga úr þessari verðhækkanahrinu sem á honum hefur dunið, ekki eingöngu bensínið, heldur í vöruverði almennt, sem síðan og aftur hefur leitt til þess að ríkisstjórnin er hér í standandi vandræðum með allar þessar hagstærðir, verðbólgu á fljúgandi ferð og svona mætti lengi telja. Mér þykir það bera vott um mikið hugrekki, herra forseti, að þessir sömu menn komi hér og haldi því fram að Samfylkingin, sem viðraði þá hugmynd í aðdraganda síðustu kosninga að nýta þetta gjald til þess að hafa tök á og stjórna einhvern veginn útblæstri bifreiða og stóriðju hér á landi, vilji hækka gjöld á almenning. Þetta vildi ég sagt hafa.

Ég segi líka, herra forseti, að mér þykir það vissulega dálítið rýrt í roðinu í frv. sem sjálfur fjmrh. fer hér fram með og lögum og venjum samkvæmt fær umsögn um í eigin ráðuneyti, hjá fjárlagaskrifstofu, að þessi sami kontór láti sér duga það, sem er auðvitað gefið, að þessar breytingar á lögum muni ekki leiða til lækkunar eða hækkunar á niðurstöðutölum í fjárlögum næsta árs. Ekki er reynt á nokkurn hátt að gera grein fyrir því til hvers þessar breytingar muni leiða í fjárlögum yfirstandandi árs sem er auðvitað kjarni málsins. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. fjmrh. hafi sagt það almennum orðum að honum sýndist að ef þessar breytingar yrðu að lögum nú fljótlega þá mundi það hafa einhver áhrif til eða frá á niðurstöðutölur yfirstandandi fjárlaga, sem er kjarni málsins og fjárlagaskrifstofan á fyrst og síðast að fjalla um. Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Hvað þýðir þetta í krónum og aurum? Hver verður niðurstöðutalan í ár í þessum efnum?

Í annan stað vil ég víkja tali mínu aðeins að hinu sérstaka vörugjaldi á bensíninu, þ.e. bensíngjaldinu sjálfu, og vil ég sérstaklega ná athygli hæstv. samgrh. í þeim efnum, því það er kannski ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Í inngangsræðu hæstv. fjmrh. lagði hann ríkasta áherslu á að í þessum breytingum væri valdið tekið úr höndum hans en fært til löggjafarvaldsins. Það hljómar býsna vel og er út af fyrir sig spor í rétta átt. En ég vek athygli á því að í gildandi lögum um þennan markaða tekjustofn sem rennur til vegagerðar eru ákvæði þess efnis að krónutala skuli hækka í hlutfalli við vísitölu, við byggingarkostnað, sem tryggir það aftur að samgrh. og áhugamenn um samgöngumál voru nokkuð vissir með það að tiltekin upphæð á ári hverju, miðað við þróun verðlags, færi til þessa mikilvæga málaflokks sem umbætur í samgöngumálum. En þetta er tekið úr sambandi. Nú er þessi markaði tekjustofn til vegagerðar ekki beintengdur verðlagsþróun á einn eða neinn hátt samkvæmt orðanna hljóðan. Raunar er búið að snúa forsendum við. Þetta er alltaf spurningin um eggið og hænuna. Við þekkjum það á síðustu árum að í tíð þessarar ríkisstjórnar, allt fram til síðasta árs, hefur ríkisstjórnin tekið umtalsverðan hluta af hinum markaða tekjustofni í venjubundinn rekstur, innan gæsalappa, fyrirgefið orðbragðið, herra forseti, ,,stolið`` þessum peningum frá vegabótum, þar til á síðasta ári. Í tíð samsteypustjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. var þessu öfugt farið. Þá var gefið í á tímum kreppu og erfiðleika og gert betur en þeir peningar sem komu af bensíngjaldinu gáfu tilefni til. En gott og vel með það. Þetta hafði og hefur ævinlega haft þau áhrif að þing og framkvæmdarvald hafa þurft að hafa fyrir því að sannfæra sjálf sig og aðra um ágæti þess að draga úr vegabótum, að skerða þann markaða tekjustofn. En nú með þessum breytingum fæ ég þetta ekki öðruvísi skilið en svo, að það sé ríkisstjórn hverju sinni sem fyrst ákveði það á pólitískum forsendum hversu miklir peningar skuli renna til vegamála og samgöngubóta en síðan skuli sú upphæð sem á að finna í bensíngjaldinu stemmd af í samræmi við það. Því spyr ég hæstv. samgrh. hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi trygging, sem þó sannarlega var til staðar í þeim lögum sem við erum núna að breyta, geti ekki leitt til þess að á hann verði hallað við ríkisstjórnarborðið til skemmri og lengri framtíðar þegar hann finnur ekki stoð í núgildandi lögum lengur um að þetta sérstaka bensíngjald skuli fylgja verðlagsþróun, og hann geti átt von á því, þess vegna á næsta ári, að menn byggju þetta með öðrum hætti út og ættu enn frekar eftir í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 að skerða eða tefja nauðsynlegar vegabætur hringinn í kringum landið. Ég tel ástæðu að vekja athygli á þessu, herra forseti, og velta þessu hér upp.

Ég tel að öðru leyti, þótt seint hafi verið í rassinn gripið, að hér séu menn að stíga skref í rétta átt hvað varðar meginkjarna þessa máls. Það verður auðvitað einhvern veginn að draga úr skattlagningu á þrautpínda bíleigendur hér á landi, nóg er nú samt. Þeir eru búnir að bera þetta í allt of langan tíma þá mánuði sem liðnir eru síðan heimsmarkaðsverð rauk upp úr öllu valdi og tilheyrandi skattlagning samhliða. Seint koma sumir en koma þó og því ber að fagna. En ég tel það bera vott um hugrekki að menn geti staðið hér og barið sér á brjóst og borið andstæðingum sínum í pólitík það á brýn, sem þeir gerðu fyrir síðustu kosningar, að þeir væru sérstakir skattpíningarmenn á bíleigendur hér á landi. Það eru hrein og klár öfugmæli, herra forseti.