Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:34:44 (120)

1999-10-06 15:34:44# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil mætavel að hæstv. fjmrh. sé órótt undir þessari umræðu. Ég vil hins vegar halda því mjög ákveðið til haga að ég sagði það hér áðan að ég væri mjög sammála því að við drægjum saman í reglugerðarvaldi ráðherra og framkvæmdarvaldsins og færðum þau mál inn á hið háa Alþingi.

Ég vakti hins vegar athygli á því, og það má finna í greinargerð fjárlagaskrifstofu hæstv. ráðherra sjálfs, að grundvallarbreytingin er sú samkvæmt frv. að nú verða breytingar á bensíngjaldinu t.d. vegna verðlagsþróunar. Áður og fyrr voru þær bundnar ákveðinni vísitölu og tryggðu það að vegamálin fengju sinn skerf. Og það er einkar athyglivert að heyra það viðhorf hæstv. fjmrh. að honum finnst það vera dæmi um að færa málin niður á tiltekið plan, að ræða hér þráðbeint um það hvaða fjármunir skuli renna til vegagerðar hér á landi. Ég vek athygli á því að það er sérstaka vörugjaldið, bensíngjaldið, sem ég er hér fyrst og síðast að ræða. Ég tel það mál vera þess eðlis að það eigi að ræða það fyrir opnum tjöldum og það sé mál sem er fullkomlega samboðið hinu háa Alþingi. Ég vænti þess að flestir þingmenn séu mér sammála um það hversu miklir fjármunir eigi að fara í nútíð og framtíð til vegamála hér á landi.

En það er í munni hæstv. fjmrh. að færa málið niður á tiltekið plan. Hann um það.