Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:39:51 (123)

1999-10-06 15:39:51# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykn. beindi spurningum til mín vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um frv. og markaða tekjustofna til vegagerðar.

Eins og hæstv. fjmrh. vakti athygli á þá birtist nokkur þversögn í málflutningi hv. þm. þegar hann annars vegar vakti athygli á nauðsyn þess að koma í veg fyrir hækkanir á tekjustofnum og hins vegar að kvarta undan að stighækkandi tekjur gengju ekki til vegagerðar vegna framkvæmda. Um þennan málflutning er svo sem ekki mikið að segja, en vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. þá vil ég segja að auðvitað verður það fyrst og síðast og eingöngu ákvörðun Alþingis við afgreiðslu fjárlaga hvaða fjármunir ganga til vegagerðar.

Ég tel að það frv. sem hér er til umræðu og afgreiðslu sé nauðsynlegt. Ríkisstjórnin hefur komist að þeirri niðurstöðu að gera breytingar, sem ég er aðili að og tek þátt í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sjálfsögðu. Ég tel það í fyllsta máta eðlilegt að við tökum ákvörðun um það hverju sinni hvernig við öflum tekna og hvernig við dreifum þeim tekjum, m.a. til vegagerðar.

Ég fagna því hins vegar að hér skuli birtast mikill áhugamaður um framkvæmdir í vegagerð. Það fór nú satt að segja ekki mikið fyrir því í sumar þegar Samfylkingin krafðist þess að tekjurnar yrðu skertar. Og það voru til þingmenn sem hikuðu ekki við að segja að það ætti auðvitað að draga úr framkvæmdum í vegagerð á þessu ári um leið og þeir kröfðust þess að bensínverðið lækkaði. Það er því ekki mikið samræmi í málflutningi hv. 6. þm. Reykn. og hins vegar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur verið að gera athugasemdir við það að tekjurnar gangi ekki óskertar til vegagerðar og ég get vel tekið undir það og vænti þess að hann veiti mér stuðning þegar þar að kemur, þegar fjallað verður um auknar framkvæmdir í vegagerð.