Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 06. október 1999, kl. 15:42:25 (124)

1999-10-06 15:42:25# 125. lþ. 4.2 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 125. lþ.

[15:42]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það tók ekki langan tíma fyrir gamla þrjóta í þessari ríkisstjórn að berja niður metnaðargjarna nýja ráðherra. Hér er hæstv. samgrh. kominn undir vænginn hjá hæstv. fjmrh., það þarf ekki frekari vitnanna við. Hann treystir á forsjá hans í einu og öllu. Ég átti nú von á meiri metnaði og sjálfstæði hjá hæstv. samgrh. en hans orð bera vitni um.

Ég verð að leiðrétta það, þó að það hafi verið gert hér í þessari umræðu, bæði það sem kom ítrekað fram hjá hæstv. samgrh. og hann hafði eftir hæstv. fjmrh., um að tillöguflutningur Samfylkingarinnar í júní hefði leitt til þess að saman hefði verið dregið í vegamálum. Það eru hrein og klár ósannindi. Menn skulu bara lesa sér til um það. Við gerðum hins vegar tillögu um það að sú viðbót umfram forsendur vegáætlunar, sem hækkun sérstaka bensínsgjaldsins hafði leitt til, yrði af tekin. Það var ekki meira en það. Það var ekki lögð til skerðing upp á eina einustu krónu, ekki eina einustu krónu. Menn skulu bara lesa sér til áður en þeir fara upp með svona fjarstæðu og þvælu.

Það sem við erum kannski fyrst og síðast að ræða, og ég lagði mikla áherslu á og ég spurði eftir því sérstaklega, var hvort hæstv. samgrh. hefði ekki áhyggjur af því í ljósi reynslunnar sem forveri hans, núverandi hæstv. forseti Alþingis, Halldór Blöndal, lenti í margsinnis ár eftir ár á síðasta kjörtímabili þegar teknir voru af honum peningar sem bar að veita til vegamála. Mikil er trú nýs hæstv. samgrh. ef hann telur að þær breytingar sem verið er að gera hér, sem eru eðlisbreytingar sumpart og kippa að sumu leyti úr sambandi þessum tengingum milli þeirra sem nota vegina og þeim fjármunum sem aftur renna til endurbóta á þeim og nýbygginga, hvort hann hafi engar áhyggjur af því að slíta þetta samhengi.